16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

322. mál, öryggisbúnaður smábáta

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda var samþ. þáltill. á s.l. vori um öryggisbúnað smábáta. Eftir að till. þessi var samþ. í þinginu fól þáv. samgrh. þriggja manna n. að undirbúa mál þetta í samræmi við þáltill.

Eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda var gerð breyting á till. við meðferð málsins í allshn. á þá leið, að undirbúin yrði löggjöf um þetta efni, en eins og einnig kom fram hjá honum hefur verið dregið í efa að þess gerðist þörf að samþykkja sérstaka löggjöf, þar sem heimildir í lögum væru fyrir hendi.

N., sem skipuð var á s.l. vori, mun ekki hafa starfað mikið í sumar, bæði vegna sumarleyfa og eins vegna hins, að innan n. var vafi á hvort undirbúa ætti reglugerð eða löggjöf. Ég ræddi þetta mál nýlega við siglingamálastjóra sem sæti á í n. Eftir þær viðræður hef ég sannfærst um að lagaheimild er fyrir hendi, og ég hef falið n. að undirbúa reglugerð um þetta efni.

Ég held að það þurfi ekki að orðlengja um hversu nauðsynlegt þetta mál er, en það er von mín að þessu verki megi hraða svo að reglurnar verði settar hið allra fyrsta.