18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

4. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég á víst sæti í þeirri n., sem mun fá þetta mál til meðferðar, og get þar af leiðandi verið fáorður við þessa 1. umr. Afstaða mín mun koma fram í n. En almennt talað sýnist mér þessi umr. harla þýðingarlítil og tilgangslaus raunar.

Lýst er yfir af þeim, sem málin flytja eða að þeim standa, að hér sé verið að vekja athygli á málum sem þeir hafi áhuga á að tekin verði til greina við endurskoðun þeirrar stjórnarskrár sem nú á að fara fram og ljúka eftir tvö ár. Þess vegna sýnist mér að við þurfum ekki að eyða tíma þingsins í að ræða það hér, hver sé höfundur að þessu snjallræði, eins og framsöguræða og næstu ræður þar á eftir fjölluðu aðallega um. Eigum við ekki heldur að reyna, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að koma á virkri stjórnarskrárnefnd, koma á raunhæfum breytingum á stjórnarskránni. þar sem tillit sé tekið til nútímaaðstæðna bæði hvað snertir kosningaaldur og fleiri atriði sem í stjórnarskránni er fjallað um og kveðið á um — þeirri stjórnarskrá sem hefur gilt hér með litlum breytingum síðan 1874? Mér sýnist að það sé kominn tími til þess og að þm. ættu fremur að eyða kröftum sínum í það að láta hendur standa fram úr ermum við að koma á nýrri stjórnarskrá heldur en ræða það í upphafi þings, upphafi kjörtímabils, hvað það sé sem eigi að breyta í stjórnarskrá þegar næst verður kosið. Eða vilja þeir, sem standa að þessum frv., að þau verði samþykkt nú á næstu dögum og kosningar látnar fara fram til staðfestingar m.a. á þeim stjórnarskrárbreytingarákvæðum sem þeir flytja hér? Auðvitað er eðlilegt að tekið sé til athugunar hver aldur kjósenda eigi að vera. Það er mjög stutt síðan aldur kjósenda var lækkaður úr 21 ári niður í 20. Sú tala var fundin út á þann hátt, að í öðrum lögum miðast nú mjög mörg önnur réttindi og aðrar skyldur við 20 ára aldur. Hvað það er svo sem veldur því, að það séu einmitt 18 ár sem eigi að miða við, það veit ég ekki og það mun að sjálfsögðu verða rannsakað, nema þá það sé það fordæmi sem hér var bent á frá ríkjum sem búa fyrir austan okkur.