16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

322. mál, öryggisbúnaður smábáta

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Vegna þess, sem fram hefur komið í þessu máli og vitnað var til þess sem hér fór fram milli mín og hv, flm. málsins, hv. 2. þm. Norðurl. v., vil ég gera hér grein fyrir afskiptum mínum af þessu máli meðan ég var í samgrn.

Þetta mál var afgreitt frá Alþ. 5. maí s.l. „Föstudaginn 9. maí“ — ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessa frásögn — „kl. 15 komu saman á skrifstofu ráðuneytisstjóra þeir Brynjólfur Ingólfsson, Birgir Guðjónsson og Kristinn Gunnarsson, ásamt Hannesi Hafstein, Hjálmari R. Bárðarsyni og Páli Ragnarssyni. Tilefni fundarins var samþykkt þáltill. Pálma Jónssonar um eftirlit með smábátum. Birgir las upp þskj. nr. 77, till. og grg., ásamt áliti allshn. á þskj. 596. Hjálmar R. Bárðarson las bréf sitt til allshn., dags. 7. mars 1978. Birgir Guðjónsson kvað aðalatriði hvernig eigi að vinna eftir þál., þ. á m. hvort skipa skuli sérstaka n., enn fremur hvort hægt sé að byggja slíkar reglur á lögum um eftirlit með skipum eða hvort breyta þurfi lögum svo sem till. gerir ráð fyrir. Birgir benti á 3. mgr. 2. gr. laga nr. 52/1970 og taldi heimildina vera fyrir hendi.

Málið var nú rætt um stund og þ. á m. athuguð drög að reglugerðum um smíði báta 6–12 metrar að lengd og öryggisbúnað í þeim.

Samþykkt var að leggja til að reglugerð þessi yrði gefin út sem fyrst en þriggja manna n. ráðuneytis, Siglingamálastofnunar og Slysavarnafélagsins skipuð til samningar á reglugerðinni um minni báta samkv. heimild í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 52/1970, en sú heimild mundi nægja til að byggja reglugerðina á, og eins um hvers konar eftirlit með bátum undir 6 metra lengd.“

Þetta var meðferð þessa máls. Í framhaldi af því gerði ég till. 16. júní um það að skipuð skyldi n. Það var og gert 21. júní og þá voru skipaðir í n. Kristinn Gunnarsson, Hannes Hafstein og Hjálmar R. Bárðarson.

Ég hafði áður en þessar umr. enduðu hér á Alþ. kynnt mér álit deildarstjórans í samgrn., Birgis Guðjónssonar, og óskaði eindregið eftir því, að reglugerð yrði gefin út á þeim grundvelli sem þar var talinn vera finnanlegur. Hins vegar lauk ráðherradómi mínum nokkru seinna og þess vegna gat ég ekki fylgt málinu til loka.