16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

322. mál, öryggisbúnaður smábáta

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans, þar sem m.a. kom fram að n. hefur verið skipuð til þess að sinna þessu verkefni, og ég fagna þeirri skoðun hæstv. ráðh., að lagaheimild skorti ekki til að koma þessu máli fram. Enn fremur þakka ég fyrrv. hæstv. samgrh. fyrir upplýsingar hans um þetta mál og einnig stuðning hv. þm. Stefáns Jónssonar.

Ég á samt nokkuð erfitt með að skilja það, að ekki skuli hafa tekist með velvilja allra þessara ágætu manna að koma fram reglugerð um þetta efni nú s.l. sumar. Ég vil minna á það, að þegar þetta mál var til afgreiðslu á síðasta Alþ. barst Alþ. áskorun undirrituð af öllum fulltrúum á Slysavarnaþingi þess efnis að afgreiða þetta mál og hraða framgangi þess. Ég minni á það, að forráðamenn Slysavarnafélags Íslands hafa árum saman lagt fram tillögur að reglugerð í þessu efni, og ég minni á það, að í framsöguræðu minni um þetta mál í fyrra vitnaði ég nokkuð í slíkar tillögur frá Slysavarnafélagi Íslands og vakti athygli á því sérstaklega sem minni skoðun, að reglur af þessu tagi mættu ekki vera þungar í vöfum, ekki of flóknar og ekki of kostnaðarsamar í framkvæmd, ef þær ættu að verða virkar. Ég hef séð sérstakan útbúnað á smábátum sem er í samræmi við skoðun Slysavarnafélags Íslands á því, hvernig búnaður þeirra skuli vera. Mér hafa sagt eigendur slíkra báta, að sá búnaður kosti vart meira en 2–3 þús. kr. Þó svo þar væri um einhverja hærri fjárhæð að ræða, þá er hér um svo léttan og einfaldan búnað að ræða, að það á ekki að kosta nefndarstörf í marga mánuði, ef ekki missiri eða ár, að leggja grunn að reglugerð sem sett verði. Ég skal ekki ræða þennan þátt málsins meir. Ég vænti þess, að reglugerð um þetta efni verði nú komið fram. Ég ítreka, að hún má ekki vera of viðamikil eða flókin eða kostnaðarsöm í framkvæmd. Þetta er ekki mál sem á endilega að heyra beint undir Siglingamálastofnun ríkisins, vegna þess að þá er hætt við að of mikill kostnaður fylgi.

Mér er kunnugt um það, að á sumum svæðum landsins bíða lögreglumenn eftir því að fá í hendur einhverjar heimildir til þess að hafa eftirlit með þessum málum, einhverjar reglur til þess að starfa eftir, reglur til þess að gera eigendum báta skylt að fara eftir og hafa síðan heimildir til þess að grípa inn í mál eftir því sem þeim þykir við þurfa. Ég tel víst að þannig muni vera víðast eða kannske alls staðar um landið, að unnt sé með litlum kostnaði að semja við lögregluyfirvöld um að hafa framkvæmd þessara reglna í sínum höndum í samstarfi við slysavarnadeildir og aðra þá aðila sem hafa áhuga á þessum málum.

Ég skal ekki ræða þetta mál frekar hér, enda tími minn sjálfsagt að verða búinn. Sú reglugerð, sem Hjálmar R. Bárðarson siglingamálastjóri hefur unnið að í samvinnu við menn frá Norðurlöndunum um skemmtibáta af stærðinni 6–12 metra, er naumast nákvæmlega það sama og hér er rætt um. Þó að ég hafi ekki séð þá reglugerð, þá er hætt við að hún sé viðameiri og ítarlegri en þörf er á fyrir báta sem eru innan við 6 metra og það geti ekki að öllu leyti farið saman. Ég vænti þess, að málið verði ekki flækt og tafið of lengi við það að reyna að negla það saman við slíka norræna reglugerð sem er kannske mörg ár í smíðum með samstarfi fulltrúa frá Norðurlöndunum öllum.

Ég þakka svo að endingu hæstv. samgrh. fyrir svör hans og vænti þess, að málið verði afgreitt og reglur þessar verði komnar til framkvæmda áður en sá árstími hefst sem slysahætta er mest.