16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

25. mál, samstarf Norðurlanda á sviði sjónvarpsmála

Friðrik Sophusson:

Forseti. Ég fagna því, að þessi fsp. skuli koma fram á Alþ. Mér finnst sjálfsagt að við Íslendingar vinnum áfram í norrænu samstarfi um þetta mál. Mun vera stefnt að því, að undirbúningsvinnu að þessu máli verði lokið næsta sumar, þannig að þá geti legið fyrir frumniðurstöður málsins. Að vísu hefur komið dálítill afturkippur í málið, einkum og sér í lagi vegna afstöðu Finna til málsins, en þeir hafa hreyft því, að aftur beri að kanna þá hugmynd sem hæstv. ráðh. minntist á og var kallað TV över gränserna, þ.e.a.s. áætlanir frá 1974. Mun vera ætlun sérfræðinganna að kynna sér það mál aftur, ekki síst með tilliti til kostnaðarhliðar málsins.

Það er sjálfsagt öllum ljóst, að á þessu máli og jarðstöðvarmálinu, Intersat, er mikill munur. Hér er um að ræða gervihnött, sem sendir beint til notenda og gefur ótal marga og mikla möguleika. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. hefur einkum verið rætt um það (eða gert ráð fyrir því kannske án umr.), að við tækjum aðeins þátt í greiðslu bæði stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar eftir höfðatölu, sem mun vera nú um 0.9 %, þannig að auðvelt er, ef áætlanir standast, að reikna út, hvað þetta kostar, og meta þann ávinning sem við gætum haft af slíku samstarfi.

Mér er ljóst að vandamálin eru að sjálfsögðu mjög mörg í þessu máli, og ýmsir hafa lýst sig andvíga þessu samstarfi og þá einkum rithöfundasamtökin og önnur slík.

En vegna þess að það eru önnur atriði, þó einkum tvö, sem ég vil nefna, sem eru mjög athyglisverð, þá held ég að full ástæða sé til þess, að ríkisstj og íslensk stjórnvöld móti sér stefnu í þessu máli. Þessi tvö atriði eru annars vegar að þetta geti komið að notum fyrir Íslendinga sem dreifikerfi á landinu og þó einkum á miðunum í kringum landið, en það er vandamál sem þegar hefur verið tekið til umfjöllunar í nefnd og þ. á m. í nefnd þm. sem starfaði hér í fyrra. Hitt atriðið, það síðara að lokum, herra forseti, er varðandi skólasjónvarp. Nordsat gefur að sjálfsögðu ótal möguleika í sambandi við það, en það er kannske sá þáttur sjónvarpsmálanna hér á landi sem mest hefur verið vanræktur.