18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

4. mál, stjórnarskipunarlög

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég veit að hv. 1. þm. Vestf. er vandur að vinum og hefur miklar áhyggjur af því, ekki síður en kerlingin í Gullna hliðinu um sálina hans Jóns síns, í hvílíkum félagsskap við Íslendingar lendum. Í grg. með þessu frv. eru aðeins talin upp þau lönd í Evrópu sem lögleitt hafa 18 ára kosningaaldur, og hv. 1. þm. Vestf. til hugarhægðar, þegar hann fer að líta í kringum sig og skoða selskapinn, þá get ég upplýst hann um það, að öll fylki í Bandaríkjunum miða við 18 ára kosningaaldur, einnig fylkið Alabama. Ég held að ég muni það rétt, að það hafi verið lögleitt í fylkinu Alabama undir leiðsögn fylkisstjórans George Wallace, þannig að ég vænti þess, að hv. 1. þm. Vestf. sé léttara í skapi að fengnum þessum upplýsingum.