16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

25. mál, samstarf Norðurlanda á sviði sjónvarpsmála

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég er í sjálfu sér persónulega andvígur miklum umr. um fsp., en það er hægara að kenna heilræðin en að halda þau sjálfur. Ég vil í fyrsta lagi árétta það sem fram kom hjá hæstv. menntmrh., hvort sem menn vilja kalla það stefnu eða ekki, að það hefur verið ofan á, að reynt hefur verið að fylgjast með því sem fram fer um þetta gervihnattamál. Ég held að eins og er séu óvissuatriðin svo mörg í þessu efni, tæknileg, fjárhagsleg, og þá um leið óvissa um hvenær gæti komið til framkvæmda að það sé ekki of seint að hefja umr. um málið á þeim nótum sem hv. fyrirspyrjandi telur að hefði þurft að gera fyrr. Ég tel að þarna sé um svo stórt mál að ræða, að það hefði verið óforsvaranlegt að fleygja frá sér þessum möguleika með því að fylgjast ekkert með því sem þarna fór fram.

Varðandi ummæli hv. þm. Páls Péturssonar um að ekkert væri aðhafst núna í dreifingarmálum útvarps, þá verður sjálfsagt rætt nánar í sambandi við fsp. um það mál. En af því að hann minntist á að ég hefði í byrjun þessa árs gert grein fyrir ýmsum áformum vil ég minna á, að þegar ég gerði grein fyrir þeim áformum, hvort sem það var hér eða í fjölmiðlum, þá hafði ég mjög sterka fyrirvara um að margt gæti komi í veg fyrir að áætlanir stæðust nákvæmlega, og við höfðum engar tímasetningar. En ég hef rætt við þá menn sem að þessu vinna núna, því að mér leikur forvitni á að fylgjast með þessu, og ég veit ekki betur — og það mun áreiðanlega koma fram í svari ráðh. — en það sé unnið fullum fetum að öllum þeim framkvæmdum sem áformaðar voru. Ég tel fráleitt að vera að ónotast út í litvæðinguna. Það er hún sem stendur undir þessum framkvæmdum. Það er með þetta eins og fleira, að það er ekkert hægt að framkvæma nema hafa til þess nokkurt fjármagn. Ég vék að þessu alveg sérstaklega til að árétta að af minni hálfu voru hafðir fyrirvarar um tímasetningar, því að það er ótalmargt sem grípur þar inn í. Sumt er eftir að fullrannsaka, það getur staðið á afgreiðslu á tækjum, það geta komið fyrir óvæntar bilanir og óvænt verkefni sem skyndilega þarf að grípa inn í o.s.frv.