16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

332. mál, málefni Landakotsspítala

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil færa hæstv. ráðh. kærar þakkir fyrir mjög glögg og greinargóð svör og hef raunar litlu við þau að bæta. Ég vek aðeins athygli á því, að mér skilst að þeir læknar, sem vinna þjónustu eins og þá sem var tilefni fsp. minnar m.a., fái greitt fyrir verknaðinn án tillits til þess, hvort þeir eru viðstaddir þegar rannsóknin í þessu tilviki fer fram, jafnvel án tillits til þess hvort þeir séu á vakt eða ekki þegar vinnan fer fram.

Eftir upplýsingum hæstv. ráðh. nema beinar launagreiðslur til þess læknis, sem nefndur var sem eina dæmið í svarinu við fsp. minni, á árinu 1977 röskum 20 millj. kr. fyrir þá þjónustu, sem hann innti af höndum á Landakotsspítala það ár. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir hækkun launakostnaðar milli ára hjá ríkisstofnunum um 67%, svo að láta mun nærri að þetta samsvari 35 millj. kr. launagreiðslum á árinu 1978. Ég tek það fram, að hér er um að ræða þær launagreiðslur sem greiddar eru fyrir þessa tilteknu þjónustu, eftir því sem mér skilst án þess að tillit sé tekið til þess, hvort sá, sem ábyrgð ber á framkvæmdinni — í þessu tilviki yfirlæknirinn er viðstaddur rannsóknina eða hvort hún er t.d. að fullu unnin af því rannsóknarfólki sem spítalinn leggur til.

Ég vil ekkert fjalla um það og hef enga skoðun á því, hvort þetta er æskilegt kerfi eða ekki. Ég vildi aðeins vekja athygli á því. En hitt fannst mér meira gaman að heyra, að hæstv. fyrrv. heilbrrh. hefur valið vel fulltrúaráð þessarar stofnunar. Þar er valinn maður í hverju rúmi og minnti mann helst á kapplið Óðins í Valhöll í því tilliti að þeir gátu vart fallið þar. Þessir fulltrúaráðsmenn falla nú sennilega að lokum, en á meðan þeir standa standa þeir vel og sjálfsagt inna þeir gott og merkilegt starf af höndum. En mér fannst nú, þegar þessi lestur var þulinn yfir okkur, að við gætum alveg eins verið staddir á fundi í einhverri frímúrarareglu í Reykjavík, nema hvað ég stórefast um að nokkur frímúrararegla hafi jafnmiklu mannvali á að skipa og fulltrúaráð Landakotsspítala. Ég veiti því athygli, að hæstv. forsrh. samþykkir það mjög eindregið.