16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

332. mál, málefni Landakotsspítala

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þessar fsp. eru sumar hverjar ákaflega undarlegar, því að svar við þeim liggur auðvitað alveg ljóst fyrir, um skipun fulltrúaráðs Landakotsspítala, stjórn og annað.

Það hefði mátt spyrja hvort þeir hefðu laun, en það leit út fyrir að hv. fyrirspyrjandi yrði fyrir miklum vonbrigðum þegar enginn af þessum mönnum tók nokkur laun. Það var, held ég, aðallega verið að sækjast eftir að vita hvort það væru nú ekki einhverjir sem væri hægt að klekkja á sem hefðu tekið laun. Hann hvarf líka af fundi rétt á eftir, því að það var svo lítið að smjatta á. Hann smjattaði þó aðeins á yfirmanni rannsóknadeildar spítalans og var ekki lengi að reikna laun hans út á verðlagi í dag. En hann sleppti alveg því, sem hv. síðasti ræðumaður skýrði frá og skýrði réttilega, að hér er í raun og veru ekki um laun eins læknis að ræða eða eins starfsmanns, heldur rekstur á sérstakri deild þar sem viðkomandi tæknir á meginhluta af tækjunum. Þess vegna er rangt og villandi og bein fölsun að tala í þessu sambandi um laun eins manns. Þetta vil ég að komi fram.

Hv. fyrirspyrjandi sagði um val fyrrv. heilbrmrh. á fulltrúaráðsmönnum í þetta fulltrúaráð, að í því væru nokkuð margir frímúrarar. Mér láðist alveg að hafa til hliðsjónar félagaskrá frímúrarareglunnar og get ekkert sagt um það, hverjir þarna eru frímúrarar og hverjir ekki. Ég er allsendis ókunnugur þeim félagsskap. Ástæðan fyrir skipun um helmings af þeim mönnum, sem þetta fulltrúaráð skipa, er sú, að það kom til tals að breyta þessu sjúkrahúsi í sjálfseignarstofnun og voru fyrri eigendur — St. Jósepssystur — búnir að ræða við ákveðna menn sem áttu að vera aðilar að þessari stofnun. Við í heilbrmrn. töldum eðlilegt að verða við óskum seljenda í þeim efnum. En síðar var bætt við nokkrum öðrum mönnum, aðallega frá hendi ríkisvaldsins, fulltrúum frá rn., frá Tryggingastofnun ríkisins, og nokkrum öðrum mönnum til þess að hafa víðari sjóndeildarhring varðandi þessa sjálfseignarstofnun.

Ég tel ekkert áhorfsmál að það hafi verið rétt, sem gert var í fyrrv. ríkisstj. og var gert að minni till., að stofna til þessarar sjálfseignastofnunar og spara ríkissjóði 200 millj. kr. á verðlagi ársins 1975, og það er líka rétt að hafa samanburð í rekstri þessa kerfis.

Ég er ósammála hv. síðasta ræðumanni um það, að um sé að ræða óskapnað í stjórn spítala á höfuðborgarsvæðinu, heldur fer það að lögum og ódýr er stjórnin á þessum spítala. Hitt tek ég undir með honum að betri og meiri samræmingu þarf á starfsemi spítala á höfuðborgarsvæðinu og að því hefur verið unnið á undanförnum árum og er unnið að því enn þá.