16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

332. mál, málefni Landakotsspítala

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni á þessari fsp. og því svari sem veitt var við henni. Það er búin til fsp., sem lýtur að því að sýna fram á að tiltekinn læknir hafi haft óeðlilega miklar tekjur af tiltekinni starfsemi, og hæstv. ráðh. svarar spurningunni þannig, að það lítur út fyrir að svona hafi málið raunverulega legið fyrir. Veit ekki heilbr.- og trmrn. það, sem hér var upplýst, að þessi læknir á eftir þeim upplýsingum, sem hér hafa komið fram, stóran hluta af þeim tækjum sem notuð eru? Veit ekki rn., að þessi læknir leggur til mannskap til þess að vinna að þessu starfi? Eða er þetta ósatt, sem hv. 8. landsk. þm. upplýsti? Mér finnst ástæða til þess að fram komi, hvort það er virkilega þannig, að rn. viti þetta ekki og gefi þá upplýsingar samkv. bestu vitund eða hvort þessu sé vísvitandi haldið leyndu og þá í hvaða tilgangi.

Ég er enn fremur furðu lostinn yfir því, að það sé haft í flimtingum, hverjir eigi sæti í fulltrúaráði þessa spítala. Aðalatriðið í mínum augum er: Hafa þessir menn unnið störf sín og hafa þeir unnið þau þannig, að viðunandi sé og kannske til fyrirmyndar? Ef svo er ekki er ástæða til að víkja þeim frá. En ef þeir hafa unnið störfin vel, samviskusamlega og með hagsmuni stofnunarinnar fyrir augum, þá á að þakka þeim, en ekki gera gys að tilnefningu þeirra.