16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

332. mál, málefni Landakotsspítala

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég vil strax undirstrika það, ef það hefur ekki komið nógu skýrt fram, enda var fsp. reyndar byggð á því hver hefði fengið mestar greiðslur, að þessi maður hefur fengið langhæstar greiðslur. Í svarinu fólst að þetta væru brúttógreiðslur, hvar af hann greiddi 69% til baka aftur. Mismuninn reiknaði svo hv. fyrirspyrjandi út sjálfur, enda getur hvaða maður sem er gert það. Ekki skal ég svara því til, hversu mikið þessi umræddi sérfræðingur á af tækjum þeim, sem á sjúkrahúsinu eru. Því þori ég ekki að svara. Aftur á móti felst það í því, að 69% eru greidd til spítalans, að þar með eru greiðslur til starfsfólksins. Aths. hv. þm. Einars Ágústssonar er því ekki á fullum rökum reist.

Hv. fyrirspyrjandi þurfti að fara á fjvn.-fund. Ég held því, að hann hafi ekki verið að hlaupast undan merkjum á einn eða neinn hátt.

Ég vil ítreka það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að það er mikil nauðsyn á betri og meiri samræmingu. Við rekum hér þrjú stór sjúkrahús, mjög stór á okkar mælikvarða og með svipaðan rekstur. Þó er nú kannske ekki nema að hluta til um svipaðan rekstur að ræða, þau eru með ýmsar sérdeildir hvert út af fyrir sig. En það þarf miklu meiri samræmingu. Þau eru t.d. öll með skurðstofur mannaðar allan sólarhringinn. Við erum með mannskap á skurðstofuvakt eins og í stórborg. Ýmislegt mætti því samræma betur og það er einmitt það sem er verið að gera. Það er búið að vinna heilmikið að hagræðingarmálum og tillögum um ríkissjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu, en fyrirmæli mín til þess manns, sem er að vinna að þessum hagræðingarmálum, voru einmitt að koma með till. um samræmdan rekstur þeirra allra. Það verður erfitt verk að koma því í kring, þegar þær till. liggja fyrir, og það þarf mikinn pólitískan vilja til þess, þykist ég vita, en alla vega verðum við að vita hvað við erum að tala um áður en við förum að gera miklar ráðstafanir. En ég ítreka það og endurtek að við þurfum meiri og betri samræmingu.