16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

61. mál, atvinnumál á Þórshöfn

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Undanfarna mánuði hafa helstu atvinnufyrirtæki á Þórshöfn á Langanesi átt við óvenjumikla fjárhagsörðugleika að etja og yfir þeim hefur vofað stöðvun nærfellt hverja einustu viku. Ástæðurnar fyrir þessu ástandi eru vafalaust margþættar og yrði of langt mál að rekja þær hér. Skuldasöfnun hjá frystihúsi og togaraútgerð hefur verið gífurleg og það svo mikil, að sveitarfélagið ræður ekki lengur eitt við að leysa mál sín. Mönnum eru vafalítið minnisstæð kaupin á því fræga skipi Fonti, sem Þórshafnarbúar hafa reynt að reka, en gengið illa. Ástæðan er m.a. sú, að skipið hefur verið stórgallað allt frá upphafi og viðgerðarkostnaður orðið mikill auk aflatjóns vegna legu skipsins í landi og í viðgerðarstöðvum.

Fulltrúar frá Þórshöfn hafa leitað aðstoðar ríkisvalds og annarra aðila, sem mér er kunnugt um að hafa tekið málum þeirra vel. En margt kallar að og víða er fjárþörf í landinu. Nú er hins vegar ástatt svo á Þórshöfn samkv. símtali þangað í morgun, að frystihúsið á staðnum getur aðeins greitt laun starfsfólks á morgun, föstudag, útborgunardegi, en síðan er allt á huldu um framhaldið. Fái hins vegar álit framkvæmdastjóra Landssambands ísl. útvegsmanna á málefnum Þórshafnar, sem fram kom í fjölmiðlum í gær, að ráða ferðinni, þá getum við einfaldlega sent nokkra áætlunarbíla til Þórshafnar og látið þá flytja íbúa staðarins eitthvað nær fjölbýlinu, þar sem sumir vildu kannske heldur hafa þá.

Það blandast engum hugur um það, að Þórshöfn á Langanesi er fyrir margra hluta sakir harðbýll staður. Þar hefur hins vegar vaknað mikill framfarahugur á allra síðustu árum og þar hefur sest að fjöldi ungs fólks. Áhyggjur fyrirspyrjanda eru einkum þær, að þetta unga fólk leiti í burtu ef ekki reynist unnt að tryggja næga atvinnu á Þórshöfn. Það væri gagnstætt þeirri stefnu, sem flestir hv. þm. hljóta að fylgja, að jafnvægi í byggðum landsins sé þjóðinni nauðsynlegt. Af þessum sökum og vegna hins alvarlega ástands, sem nú ríkir á Þórshöfn á Langanesi, hef ég leyft mér að beina þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvað ríkisstj. hafi gert eða hyggist gera til þess að koma í veg fyrir stöðvun atvinnulífs á Þórshöfn.