16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

61. mál, atvinnumál á Þórshöfn

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er auðvitað mjög gott að fá þær upplýsingar, sem hæstv. forsrh. skýrði frá í sambandi við það sem ríkisstj. er að gera í atvinnumálum Þórshafnar, en jafnframt vil ég taka það fram, að við þm. höfum haft ágæta aðstöðu til þess að fylgjast með aðgerðum ríkisstj. til lausnar þessum vanda. Hins vegar má segja að fsp. geri sérstakt gagn núna — það hittist svo vel á — að hún gefur ástæðu til þess að gera sérstaklega að umtalsefni þær árásir, sem Kristján Ragnarsson framkvæmdastjóri LÍÚ gerði á Framkvæmdastofnunina og gerði reyndar á forustumenn atvinnumála á Þórshöfn í ræðu sinni á aðalfundi LÍÚ sem sjónvarpað var svo yfir landið í gær. Ég sé sérstaka ástæðu til þess að finna að, jafnvel að víta það, hvernig þar var til orða tekið, vegna þess að þar var í veigamiklum atriðum farið mjög rangt með.

Í fyrsta lagi er auðvitað rangt að Framkvæmdastofnunin geri út á Þórshöfn. Látum það nú vera þótt slíkt sé sagt. En þá er kannske enn þá verra það sem sagt var í ræðu Kristjáns Ragnarssonar framkvæmdastjóra LÍÚ, þegar hann tók svo til orða að síldarbræðslan á Þórshöfn væri ónýt og að ekki svaraði kostnaði áð gera við hana. Þetta er algerlega rangt. Komið hefur fram hjá málsmetandi mönnum, verkfræðingum og ýmsum öðrum sem hafa skoðað þessa verksmiðju, að hún er að vísu vanbúin á marga vegu, en það er hægt að koma henni í vinnsluhæft ástand fyrir tiltölulega lítið verð miðað við það sem kostar núna að byggja nýjar loðnubræðslur. — Þetta vil ég sérstaklega taka fram.

Í sambandi við það sem fram kom hjá hæstv. forsrh., þá hef ég haft aðstöðu til að fylgjast með því, hvað þar er á döfinni, og hef út af fyrir sig ekki nema gott eitt um það að segja. Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh., að það er aðalatriðið fyrir okkur öll að koma í veg fyrir stöðvun hraðfrystihússins. Þá kemur svo sannarlega til greina að afla hráefnis af aðkomuskipum og að efla bátaflota Þórshafnar. En auðvitað megum við ekki loka augunum fyrir því, að þó að illa hafi tekist til um útgerð Fonts af sérstökum ástæðum, sem enginn tími er til að rekja hér, þá megum við ekki algerlega útiloka þann möguleika, að gerður verði út togari frá Þórshöfn, því að vissulega er sá möguleiki fyrir hendi. En ég sé eigi að síður fulla ástæðu til það þakka hæstv. ríkisstj. fyrir þær aðgerðir sem hún hefur haft í frammi til að reyna að leysa þennan bráða vanda Þórshafnarmanna.