16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

61. mál, atvinnumál á Þórshöfn

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Mér eru allkunnar ástæður í atvinnumálum Þórshafnarbúa og hef fylgst með þeim og tekið þátt í ráðagerðum til þess að ráða bót á þeim vanda sem þeir hafa átt við að glíma á undanförnum árum og um nokkurra ára skeið. Það er út af fyrir sig e.t.v. ekki einfalt mál við það að fást, og svo er vissulega um fleiri staði í landinu og hefur löngum verið. Þórshafnarbúar hafa einasta lítið, snoturt frystihús, sem aðeins kostaði 204 millj. kr. fullbyggt, ég segi „aðeins“ vegna þess að það er ekki mikil fjárhæð miðað við afkastagetu þess og búnað ef tillit er tekið til verðlagsþróunar. Þeir stóðu myndarlega að byggingu þessa frystihúss og hafa eignast að því leyti ágæta aðstöðu. Illa getur tekist til fyrir mönnum sem hafa ónýt verkfæri í útgerð. Það kannað vera að vanþekking formanns LÍÚ í því efni stafi af því að hann hefur aldrei gert út skip, en það hef ég gert og ég þekki mýmörg dæmi þess að menn hafa farið rakleiðis á hausinn vegna þess að þeir hafa orðið fyrir þeirri ógæfu að hafa undir höndum skip sem ekki gagnaðist til fiskveiða, og þann veg háttaði til hjá Þórshafnarbúum varðandi skuttogarann Font.

Framkvæmdastofnunin hefur lagt sitt af mörkum til þess að ráða bót á þessum mikla vanda, og eins og hæstv. forsrh. rakti hafa ýmsar ráðagerðir verið uppi. Ég hef verið þeirrar skoðunar um nokkurt skeið, að það þurfi sérstaklega að taka til athugunar að breyta reglum um fiskveiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu í nágrenni Þórshafnar. Við vitum frá fiskifræðingum að þarna eru mjög miklar uppeldisstöðvar, í Þistilfirði og þar í kring, og ákvæði voru um að alfriðað skuli vera fyrir togveiðum frá Hraunhafnartanga réttvísandi norður og út úr okkar lögsögu og í norðaustur frá Fonti, sem er ysti oddi Langaness. Hins vegar liggur ljóst fyrir, að um þetta svæði gengur fullþroska fiskur löngum, og þyrfti að taka það til athugunar að leyfa sókn í þann fisk og ástæðulaust annað en það verði rannsakað sérstaklega, með hvaða hætti geti orðið að því staðið. Þess vegna er það, að smærri togbátar gætu e.t.v. unnið sér til gagns á þessum slóðum, og hlýtur nú innan tíðar að koma til álita að aflétta þessu algera banni.

Án þess að lengja mál mitt, enda enginn tími til þess, verð ég að segja að það er með allra sérkennilegasta hætti, sem ég hef séð gert á opinberum vettvangi, sem formaður LÍÚ vék að Þórshöfn í setningarræðu sinni á LÍÚ-þingi. Og það var eins og við manninn mælt, að vitanlega var lögð á þetta aðaláhersla í fréttum fjölmiðla. Þetta var tekið og étið hrátt og matreitt hrátt fyrir allan landslýðinn á augalifandi bili. Það kunni að vera eitthvað feitt á stykkinu og þá var ekki í það horft þótt þetta kæmi e.t.v. dapurlega við, að ekki sé meira sagt, við þær ástæður sem þetta fólk, 460 talsins, á við að etja nú þegar það horfir framan í atvinnuleysisvofu, sem er sú voveiflegasta sem getur að líta. Og allar ásakanir, sem komu fram í máli þessa manns um yfirstjórn Framkvæmdastofnunar á atvinnumálum á Þórshöfn, eru vitanlega út í hött. Ég vísa vitanlega á bug aðdróttunum um pólitíska misnotkun á almannafé í þessu sambandi. Framkvæmdastofnunin birtir ein stofnana allar úthlutanir á lánsfé sínu, þ.e.a.s. Byggðasjóðs og er tilbúin að ræða hverja eina og sérhverja hvenær og hvar sem er einnig við þennan formann LÍÚ.

Framkvæmdasjóður og Byggðasjóður á vegum Framkvæmdastofnunar hafa orðið meiri lyftistöng en nokkuð annað til hinnar hröðu uppbyggingar atvinnulífsins í landinu og þá einkum og sér í lagi fyrir sjávarsíðuna í uppbyggingu fiskiðnaðar og útgerðar. Þetta er öllum landsmönnum kunnugt. Þess vegna getur þessi hv. formaður LÍÚ látið það liggja milli hluta og þarf ekki að orðfæra það sérstaklega í sinni setningarræðu, því allir fulltrúar sem þar eru mættir, hljóta að vera gerkunnugir því. Þetta hefur haft mest áhrif á hina hröðu og glæsilegu uppbyggingu sem hefur átt sér stað. Þess vegna hlýtur málflutningur á borð við þetta að skjóta skökku við, og eins og ég segi, honum hlýtur að verða vísað til föðurhúsanna, enda er uppistaða hans gróusögur sem þessi maður hefur tínt upp af götu sinni.