16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

61. mál, atvinnumál á Þórshöfn

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er kannske ástæða til að ræða þetta mál meira en hægt er að gera í fsp.-tíma.

Ég vil taka undir með hv. þm., sem hér hafa talað, í sambandi við þau ummæli sem Kristján Ragnarsson lét falla um þetta málefni á aðalfundi LÍÚ í gær. Mér finnst líka ástæða til að koma fram með það hér, að ég held að Framkvæmdastofnunin hafi staðið ákaflega eðlilega að þessu máli. Ég vil minna á það, að opinberir aðilar eiga raun og veru að taka öðruvísi á þessu máli en mörgum öðrum, vegna þess að Þórshafnarbúar voru neyddir til að kaupa þetta skip. Þeir höfðu annað skip í huga, sem þeir gátu fengið erlendis frá, en fengu ekki leyfi til þess. En það er ekki tími til að rekja þá sögu hér.

Ég vil sérstaklega undirstrika það, að eins og stendur núna geta þeir ekki borgað vinnulaun, og mér finnst þessar aðgerðir hafa verið of seinvirkar. Ég verð að segja það, að mér þykir mjög leitt að þeir ráðh., sem eiga fyrst og fremst að vinna að þessu máli, eru því miður ekki staddir hér. En ég tel fulla ástæðu til að ýta við því, að það .má ekki henda að frystihúsinu verði lokað vegna þess að þeir geti ekki lengur greitt laun. Ég get sagt það líka í þessu sambandi, að ég er ekki ánægður með hvernig þessi staða er á Þórshöfn, því að það er enginn vafi er á því, að eins og allt er þar duga þeim ekki bátarnir, jafnvel þó þeir fái einhvern togarafisk. Ástæðan fyrir því, að svona er ástatt þarna núna, er eingöngu að skipið var svikið og mjög mikið gallað.