20.11.1978
Efri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

63. mál, tollskrá

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm., sem hafa tekið til máls um þetta frv., og þær undirtektir, sem þeir hafa veitt þessu máli. Ég vil taka undir það með hv. þm. Stefáni Jónssyni, að það er margt í sambandi við svona mál sem þarf vissulega að taka til skoðunar. Og ég get sagt það hér, að það var ekki síður áform okkar flm., umfram það sem frv. sjálft fjallar um, að vekja athygli á málefnum öryrkja og lamaðra og fatlaðra og annarra í okkar þjóðfélagi sem hafa skerta lífsorku. Það er mála sannast, að við höfum sjálfsagt gengið með hálflokuð augu á undanförnum árum í sambandi við mörg slík mál. Og ég vil undirstrika það, sem hér hefur raunar komið fram og ég tók einnig fram í framsöguræðu minni, að það er mjög mikil nauðsyn að tryggingakerfið í heild sé tekið til gaumgæfilegrar endurskoðunar, miðað við að það nái þeim megintilgangi að koma fyrst og fremst til hjálpar þeim sem þurfa á samhjálp að halda. Þetta er að mínu mati mjög brýnt, og miðað við þá reynslu, sem margir hafa orðið fyrir, og t.d. í sambandi við sögu þess sjómanns, sem ég sagði frá í minni framsögu, er vissulega tímabært að skoða þessi mál vandlega. Það er sannarlega þörf fyrir mannlegan skilning í stofnun eins og Tryggingastofnun ríkisins umfram það sem lagabókstafurinn sjálfur hljóðar upp á. Þetta eru viðkvæm mál, þetta fólk þarf á uppörvun að halda, en ekki að reka sig alls staðar á vegg. Getur hver heilbrigður maður ímyndað sér hvað þetta er stórt atriði ef hann reynir að setja sig í spor þess fólks sem hefur búið við þessa lífsbaráttu og reynslu.

Í sambandi við misnotkun, sem gæti komið til greina í sambandi við eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af bifreiðum, tel ég, eins og framkvæmd laganna er nú, að girt hafi verið fyrir þetta a.m.k. eins og mögulegt er og ekki síst miðað við það, að Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra og Öryrkjabandalagið eru beinir þátttakendur í þessari úthlutun. Eins og kom fram í framsögu er þessi nefndarskipun nú þannig, að í nefndinni eru 4 læknar í staðinn fyrir 2 áður, sem fjalla um þetta mál, og ég held að það hljóti að vera mikilvægt að þarna þurfi ekki að óttast um misnotkun.

Í sambandi við síðasta lið till., þar sem talað er um gervilimi, áhöld og tæki, settum við þetta þarna inn fyrst og fremst sem áhersluatriði. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, að gert er ráð fyrir að þetta sé greitt fyrir þetta fólk. En því miður er kerfið þannig, að fólk rekur sig sífellt á örðugleika í sambandi við þetta. Ég hef sjálfur rætt við tollstjóraembættið og eins við þá aðila í fjmrn. sem fjalla um slík mál, og ég hef rekið mig á að þótt þeir séu allir af vilja gerðir er það samt sem áður þannig, að það koma ýmis atriði þarna inn sem eru ekki nógu skýrt afmörkuð í meðferð málsins. Þess vegna leggjum við áherslu á að þetta verði sett greinilegar inn í tollskrárlögin en það nú er og því verði þannig fyrir komið, að þetta sé sjálfsagt mál, eins og það á að vera.

Ég skal ekki tefja hér umr., en ég vil segja í sambandi við talstöðvarnar, að ég get tekið undir það sem kom fram hjá Stefáni Jónssyni, hv. 4. þm. Norðurl. e., að þetta mál ætti að vera sjálfsagt mál. En því miður eru þarna í kerfinu atriði, sem hann m.a. kom inn á og gera það að verkum að þetta virðist ekki vera auðvelt mál fyrir þá sem eiga að framkvæma það. En ég tek undir það, að vel væri að gert ef þessar umr. hér og þetta frv., ef að lögum verður, yrðu til þess að greiða fyrir því, að þetta mál væri gert auðvelt, ekki síst fyrir þetta fólk. Það ætti að vera hægt, og fyrsti vísir yrði vissulega ef tækist að koma inn í lögin þessu ákvæði, sem frv. gerir ráð fyrir.

En ég vil endurtaka að lokum, að ég tel nauðsyn að þetta mál fái hraða afgreiðslu hér á hv. Alþ., og tek undir það með hv. þm. Helga Seljan og raunar hv. þm. Stefáni Jónssyni einnig, að þetta mál fái mjög greiða afgreiðslu hér í gegnum Alþ. og sú n., sem fjallar um málið, athugi vel málið með það fyrir augum að afgreiða það og jafnvel gera það enn þá víðtækara en kemur fram í frv. sjálfu.