20.11.1978
Neðri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

88. mál, tollheimta og tolleftirlit

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 96 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 59 frá 28. maí 1969, um tollheimtu og tolleftirlit. Frv. fjallar um það að bæta einu kauptúni í tölu tollhafna í landinu.

Um tollheimtu og tolleftirlit gilda nú lög, sem sett voru árið 1969. Í 7. gr. þeirra laga eru taldar upp 13 aðaltollhafnir og 20 tollhafnir á landinu öllu. Áður voru tollhafnir ekki taldar upp í lögum.

Í lögunum er skýrt hvað við er átt með þessum orðum. Aðaltollhöfn er höfn þar sem för í utanlandsferðum mega fá fyrstu og síðustu afgreiðslu hér á landi og þar sem hvers konar tollmeðferð á vörum má fara fram. Tollhöfn er höfn þar sem ferma má og afferma ótollafgreiddar vörur og geyma og tollafgreiða slíkar vörur án sérstakrar heimildar.

Það kauptún, sem ég legg til að bætist í tölu tollhafna, er Grundarfjörður á Snæfellsnesi. Þar hefur uppbygging orðið mjög ör. Sagt er að þar hafi ekki verið nema eitt hús árið 1939, en nú er þar kauptún þar sem 700 manns eru búsettir. Þess má geta, að hinn 22. jan. 1977 var ný og glæsileg höfn tekin í notkun í Grundarfirði.

Frv. þetta er flutt að beiðni heimamanna.

Frv. fjallar, eins og ég hef sagt, um tollhöfn í Grundarfirði. En að athuguðu máli þykir mér þó rétt og raunar skylt og sjálfsagt að benda hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, á að bæta landshöfninni í Rifi í tölu tollhafna auk Grundarfjarðarhafnar, svo fulls samræmis sé gætt. Lögin um landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi eru nr. 38 frá 14. mars 1951. Þar eru hafnarskilyrði mjög góð frá náttúrunnar hendi. Höfnin hefur byggst upp á undanförnum árum og er nú orðin allgóð, þó að enn þurfi um að bæta.

Eðlilegt er að höfnunum fjórum á norðanverðu Snæfellsnesi sé gert nokkuð jafnhátt undir höfði að því er tekur til þeirra mála, er hér um ræðir, og þær sitji nokkurn veginn allar við sama borð að þessu leyti. Sennilega hefur höfundum laganna frá 1969 þótt ofrausn að hafa fjórar tollhafnir á þessu svæði. Þeir hafa máske talið auðveldara og einfaldara að láta tvær hafnir nægja. Skal þetta því rætt nokkru nánar.

Undanfarin mörg ár hefur enginn tollþjónn verið á Snæfellsnesi. Á hinn bóginn hafa lögreglumenn starfað í öllum kauptúnum á norðanverðu nesinu. Hafa þeir annast tollgæslu jafnframt undir umsjón viðkomandi yfirvalda og haft nána samvinnu sín á milli í þeim málum sem og öðrum störfum. Hefur þetta fyrirkomulag þótt vel gefast. Í Rifi er og hefur verið búsettur hreppstjóri sem jafnframt hefur átt sæti í stjórn Rifshafnar og er öllum málum á staðnum mjög vel kunnugur.

Auðvitað má á það benda, að í lögunum um tollheimtu og tolleftirlit sé að finna heimildir sem nota megi, svo sem gert hefur verið, til að veita undanþágu við framkvæmd laganna án þess að þeim sé breytt að þessu leyti. En hver, sem rennir augum yfir upptalninguna í lögunum og les um þær 13 aðaltollhafnir, sem þar greinir, auk 20 tollhafna, hlýtur að sjá í hendi sér að hinar góðu hafnir í Grundarfirði og Rifi eiga þar heima.

Þetta vildi ég biðja hv. fjh.- og viðskn. að athuga, um leið og ég geri það að till. minni, að þangað verði frv.

þessu vísað að lokinni 1. umr.