20.11.1978
Neðri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að kynna fyrir hv. deild frv. til l., sem við Eiður Guðnason flytjum, um breyt. á l. frá 1964, um þingfararkaup alþm. Eins og fram hefur komið er hér ekki um nýtt frv. að ræða, heldur fluttu þeir Gylfi Þ. Gíslason og Ellert B. Schram frv. þessu samhljóða fyrir u.þ.b. ári, en það hlaut ekki afgreiðslu.

Það skal segja eins og er, að ástæða fyrir því, að þetta frv. var sett fram núna, er sú, að þegar þfkn. kom saman á einn af sínum fyrstu fundum og teknar voru ákvarðanir um hækkanir á því sem kallað hefur verið hliðargreiðslur til alþm., þá var í þingflokki Alþfl. ekki samstaða um það, hvernig að þessum málum skyldi staðið. Það var hins vegar ljóst, að í þingflokki Alþfl. er vilji fyrir því að breyta fyrirkomulagi þessara mála í þá veru sem þetta frv. gerir ráð fyrir. M.ö.o. gengur þetta frv. út á það að flytja í Kjaradóm ákvarðanir um launamál alþm.

Nú þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að undanfarin ár hafa launakjör alþm. sætt gagnrýni, og um margt er það auðvitað tímanna tákn. Þegar svo er, að allt efnahagslífið er á þeysireið, ef svo má að orði komast, hækkanir eru 40, 50 og 60% á ári og allir þrýstihópar samfélagsins eru að reyna að verja sig með einum eða öðrum hætti, — þetta er svo sem þjóðfélagsleg og efnahagsleg lýsing sem menn þekkja, — þá er út af fyrir sig eðlilegt að þm. eins og aðrir grípi til einhverra aðgerða í varnarskyni. En það verður samt þannig, að við þm. verðum að taka því að sæta meiri gagnrýni í samfélaginu, sæta því að hingað sé frekar horft en kannske í aðrar áttir. Og svo hefur farið undanfarin ár, að ég hygg að það sé ekki ofmælt þegar sagt er að margar af þeim hækkunum, sem til þm. hafa farið, hafa ekki mælst vel fyrir úti í hinu stóra samfélagi og það jafnvel að vonum.

Kjarni þessa máls er sá, að það sé einfaldara og síður til tortryggni fallið ef ákvarðanir eins og þær, sem hér hefur verið um fjallað, fara fram utan við þingið, hjá stofnun, sem ekki á hagsmuna að gæta og almennt og yfirleitt er hafin yfir grun, en svo hygg ég að sé með Kjaradóm.

Það má halda áfram að fjalla um þessi mál og reifa ýmsa umfjöllun síðustu ára. Það hefur mjög verið gagnrýnt, að margháttaðar hliðargreiðslur, sem í skaut þm. falla og efalítið eiga margar — jafnvel flestar — rétt á sér sem slíkar, hafa hins vegar ekki verið upp gefnar til skatts. Það er eðlilegt að þetta hafi verið gagnrýnt, vegna þess að það gildir fyrir Pétur og Pál úti í samfélaginu, að það er beinlínis til þess ætlast að greiðslur, þó þær séu frádráttarbærar frá skatti, séu gefnar upp, skattyfirvöld látin um þær vita, en þau síðan heimili frádrætti. Þetta hygg ég m, a. að hafi orðið valdur að því, að ýmislegt í kringum þessi mál, þ.e. launakjör þm., hefur ekki sem skyldi verið hafið yfir grun.

Ég er þeirrar skoðunar, þó ekki sé beinlínis svo ákveðið í þessu frv., en á er þó drepið í grg., að launakjör þm. eigi umfram allt að fara fram fyrir opnum tjöldum, þegar hækkanir eru ákveðnar eigi almenningur að fá um þær að vita þegar í stað. Á þetta hefur skort á undanförnum árum. Það er engu líkara en hér hafi verið um nokkurt pukur að ræða, og það er eins og þingið hafi sjálft reynt að koma í veg fyrir að upplýsingar um þetta bærust út.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson, núv. formaður þfkn., braut þó nokkuð í blað í sögu þessara mála utan dagskrár í Sþ. ekki alls fyrir löngu, þegar hann skýrði þinginu úr ræðustól frá nýafstöðnum hækkunum. Ég hygg að þar hafi farið fram nýjung, og ég hygg líka að það sé vel.

Ég hygg að það sé þessari stofnun til góðs að um hana leiki engin tortryggni. Þess vegna held ég í fyrsta lagi að það sé skynsamlegt að málum sé svo fyrir komið, að allur almenningur hafi á öllum tímum alla vitneskju um það, hvað þm. fá í laun og hvað þeir fá í aðrar greiðslur. Þetta hygg ég að skipti miklu máli. Í öðru lagi held ég, að það væri skynsamlegra fyrirkomulag að aðilar utan þings réðu því, hvað miklar greiðslur hér væri um að ræða. Lagt er til að það sé Kjaradómur sem slíkar ákvarðanir taki. Ef það fyrirkomulag gefst ekki vel, þá er Alþ. auðvitað í sjálfsvald sett að breyta aftur. Alþ. hefur auðvitað eftir sem áður æðsta löggjafarvald í þessu landi.

Ég er þeirrar skoðunar, og ég vil gera það að lokaorðum um þessi mál, að sú tortryggni, sem hefur umvafið þessi mál á undanförnum árum, hafi ekki orðið þessari stofnun til góðs, hafi beinlínis dregið úr áliti hennar. Þetta frv. til l. verður að skoðast sem skref í þá átt að þeirrar tortryggni gæti ekki lengur, allt fari fram fyrir opnum tjöldum og að ákvarðanir séu teknar af stofnun sem treysta má í hvívetna, en á ekki beinna hagsmuna að gæta.