21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

327. mál, launakjör og fríðindi bankastjóra ríkisbankanna

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í stuttum fsp.-tíma á Alþ., þar sem þm. öðrum en fyrirspyrjanda er ætlaður lítill tími til umr., er ekki kostur að ræða það mál, sem hér er komið á dagskrá, en í raun þyrfti að skapa til þess sérstakan tíma hér á Alþ., því að við erum að ræða hér launakjör sem og annan aðbúnað margra þeirra manna sem á undanförnum árum hafa talað hvað hæst um að það væri nauðsynlegt í þessu landi að kreppa að kjörum almenns launafólks.

Ég held að þær upplýsingar, sem hér voru raktar, sýni greinilega að í æðstu stjórn bankakerfisins í landinu þrífst margs konar fjármögnun á einkaeyðslu og lífskjörum stjórnenda þessara stofnana, sem eru í algeru ósamræmi við þær almennu jafnréttiskröfur og önnur almenn skilyrði um launajafnrétti í þessu landi, sem við höfum margir hverjir sett á oddinn, svo að maður tali ekki um þær kröfur til almenns velsæmis í þessum efnum sem m.a. hafa hér á Alþ. verið settar fram gagnvart alþm. sjálfum. Þegar við berum svo þessar upplýsingar saman við það merka rit, sem lá á borðum okkar í dag þegar við komum hingað á fund, sem er skriflegt svar fjmrh. við fsp. frá Geir Gunnarssyni um utanlandsferðir á kostnað ríkissjóðs og ríkisstofnana, þá fáum við enn nánari innsýn inn í þá eyðslu sem er stunduð af kerfismennskufulltrúum þessa lands, þeim fulltrúum mörgum sem tala hvað hæst um það, að laun hins almenna launafólks í þessu landi séu of há. Við mjög lauslega athugun á þeim örfáu mínútum, sem liðnar eru síðan þessi merka bók kom hingað á borðið, kemur í ljós, að ferðakostnaður aðeins 5 bankastjóra á árinu 1977 hefur numið um það bil 9 millj. kr. Ferðakostnaður 5 bankastjóra til útlanda á árinu 1977 hefur numið um 9 millj. kr. Og ein ríkisstofnun, Póstur og sími, sem að vísu er ekki til umr. hér, hefur varið 17 millj. kr. á árinu 1977 til að fjármagna ferðalög ýmissa æðstu stjórnenda sinna til útlanda.

Ég held að þegar við erum að tala um nauðsyn á aðhaldi í íslenskum þjóðarbúskap og nauðsyn á almennu velsæmi og jöfnuði sem ríkja á í kjörum landsmanna, þá beri ríka nauðsyn til þess hér á Alþ., bæði í ljósi þeirra upplýsinga, sem komu fram í svari hæstv. viðskrh., og í ljósi þeirrar merku bókar, sem nú hefur verið dreift hér til allra þm., að Alþ. taki rækilega til meðferðar þá aðstöðu til umframkjara, sem ég vil kalla svo, sem ýmsir af æðstu stjórnendum þessa lands í embættiskerfi og ríkisstofnunum skapa sér í krafti þeirrar aðstöðu, sem þeir hafa þar, en hvergi hefur komið fram almennt opinberlega fyrr en nú. Ef Alþ. vill beita sér fyrir almennum lífskjarajöfnuði í þessu landi getum við ekki látið hjá líða að taka þessi mál til miklu ítarlegri meðferðar en gert verður hér nú.