21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

331. mál, útbreiðsla sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 58 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um útbreiðslu sjónvarps.

Sjónvarp og hljóðvarp teljast í dag sjálfsögð þjónusta, sem allir íbúar landsins, hvar sem þeir búa, eigi að fá að njóta, og einn sá þáttur í daglegu lífi manna sem fæstir vilja án vera. Þótt mikið vanti á að allir landsmenn búi við nægilega góð hljóðvarpsskilyrði er krafan um að sjónvarpið nái til allra landsmanna sterk og hefur aukist ár frá ári, ekki síst eftir að litsjónvarp kom til sögunnar. Kaup á litsjónvarpstækjum hafa orðið miklu meiri en áætlanir voru um og þar með tekjur af sölu þeirra. Skráð litsjónvarpstæki hjá innheimtudeild sjónvarps voru 1. ágúst s.l. 11 467 tæki, og frá 1. ágúst til þessa dags hafa verið skráð 4167 tæki til viðbótar. Eru því skráð litsjónvarpstæki í dag 15 630. Er dagleg sála þeirra mjög mikil áfram að sögn verslana. Endurnýjun sjónvarpstækja fer öll fram í kaupum á litsjónvarpstækjum.

Viðurkennt er að sjónvarpsdreifingin um landið hefur gengið miklu betur en menn þorðu að vona í fyrstu. En mikið vantar enn á að allir landsmenn búi við sama rétt hvað þetta varðar. Er því eðlilegt að landsbyggðarfólk vilji ekki una við að fá ekki að njóta þess til jafns við þéttbýlið og hafi brennandi áhuga á því að vita hvað fram undan er í þessum málum, og ekki síður sjómenn við störf á hafinu í kringum landið. Þess vegna tel ég eðlilegt að bera fram hér á hv. Alþingi fsp. um framgang málsins.

13. júlí 1976 skipaði fyrrv. menntmrh. nefnd til að athuga og gera áætlun um dreifingu sjónvarps. Í n. voru alþm. Steingrímur Hermannsson, formaður, Sverrir Hermannsson og Ingi Tryggvason. Hlutverk n. var einkum tvíþætt: að gera tímasetta áætlun um dreifingu sjónvarps til þeirra landsmanna sem nú njóta engra eða allsendis ófullnægjandi sjónvarpsskilyrða og að gera tillögur um fjáröflun til þessara framkvæmda. N. þessi mun hafa skilað störfum í árslok 1976. Niðurstöður og till. n. komu fram í eftirfarandi tillögum:

Lokið verði við að koma sjónvarpi til allra notenda hér á landi á næstu 4 árum, 1977–1980, og hafin bygging endurvarpsstöðvar fyrir fiskimiðin fyrir árið 1979. Ákveðin verði 5 ára framkvæmdaáætlun sem auk þess að ná til ofangreindra atriða nái til annarra nauðsynlegra framkvæmda á sviði sjónvarps á tímabilinu. Innflutningur litsjónvarps verði gefin frjáls, afnotagjöld af litsjónvarpstækjum verði hærri en af svarthvítum tækjum. Tolltekjur renni óskiptar til framkvæmda samkv. framkvæmdaáætlun. Í afnotagjöldum verði gert ráð fyrir fjármagni til endurnýjunar dreifi- og útsendingarkerfisins meira en nú er gert. Fjárvöntun verði mætt með lántöku, sem endurgreiðist fyrir 1989. Á 5 árum framkvæmdaáætlunar er fjárvöntun áætluð 494 millj. kr., tekjur til ársins 1989 eru hins vegar áætlaðar 875 millj, kr. hærri en þekkt framkvæmdaþörf á sama tímabili. Allar tölur og áætlanir eru miðaðar við verðlag í nóv. 1976. Áætlanirnar verði endurskoðaðar í árslok 1977.

Till. n. voru aldrei formlega staðfestar né gerðar að opinberri áætlun, en þó farið eftir þeim í sumum atriðum, enda hefur þessi úttekt verið ítarleg og mikil vinna verið í hana lögð, nm. greinilega haft mikinn áhuga á málinu og bent á skynsamlegar leiðir til að ná settu marki, ekki síst í sambandi við fjármögnun. Ljóst er að till. n. hafa orðið til þess að miklar framkvæmdir voru hafnar. Tel ég því nauðsyn bera til að hér á hv. Alþ. komi fram, hvernig þessi mál standa, og þess vegna eru spurningar mínar þessar, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað líður framkvæmdum við útbreiðslu sjónvarps sem ákveðnar voru á þessu ári?

Hvaða framkvæmdir eru ráðgerðar á árinu 1979? Er fylgt þeirri framkvæmdaáætlun sem unnin var á vegum menntmrh, haustið 1976?

Hvað eru tollatekjur af sjónvarpstækjum áætlaðar í ár og árið 1979?“

Ég vænti þess, að hæstv. menntmrh. upplýsi málið.