21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

331. mál, útbreiðsla sjónvarps

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tek undir með þeim mönnum sem vilja auka og efla dreifingu sjónvarps á Íslandi. En ég vil vekja athygli hv. Alþingis á því ófremdarástandi sem ríkir í sambandi við það sem við gamlir útvarpsmenn köllum stundum „gamla gufuradíóið“. Þar er svo ástatt enn, að útvarpið heyrist ekki nema illa í allmörgum byggðarlögum, og hefur ekki verið tekið til höndum eins og vera ber í þeim efnum. Skyldu menn þó sérstaklega hafa það hugfast, að Ríkisútvarpið sem slíkt er eitt af helstu öryggistækjum þessa lands og er einn aðalliðurinn í almannavörnum á Íslandi. Ég vil því eindregið hvetja til þess vegna þessarar umr., að málefni útvarpsins sem slíks verði höfð í fyrirrúmi þegar verið er að ræða um dreifingu á sjónvarpsefni og dreifikerfi sjónvarps hér á landi.