21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

329. mál, fæðingarorlof

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Forsaga þessa máls, sem eins og hv. fyrirspyrjandi sagði hefur æðioft komið til umr, á hinu háa Alþ. nú síðustu árin, er í stuttu máli þessi:

Með lögum nr. 56 frá 1975 voru konum, sem forfölluðust frá vinnu vegna barneigna og voru fullgildir meðlimir í verkalýðsfélögunum, áskildar atvinnuleysisbætur í 90 daga og skyldu greiðast úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Í ákvæði til bráðabirgða við þessi lög var ríkisstj. falið að kanna fyrir 1. jan. 1976 á hvern hátt mætti veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni. Reglugerð um fæðingarorlof var gefin út 20. jan. 1976. Með lögum nr. 28 frá 1977 voru felld niður skerðingarákvæðin sem verið höfðu í upphaflegu lögunum og vörðuðu tekjur maka. Jafnframt voru tímamörk bráðabirgðaákvæðisins ákveðin að nýju og nú miðað við 1. jan. 1978, eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á.

Þrátt fyrir þetta náði takmark bráðabirgðaákvæðisins ekki fram að ganga í tíma, enda mun töluverður ágreiningur um mál þetta og þó einkum það, hvort þessar bætur skuli greiðast áfram úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða frá almannatryggingum, en fjármögnun þessara kerfa er sem kunnugt er með ólíkum hætti.

Nefnd, sem starfað hefur undanfarin ár að endurskoðun laga um almannatryggingar og skilaði tveimur frv. á síðasta ári, tók ekki afstöðu til þessa máls, og sama er að segja um n. sem vinnur að endurskoðun laga um Atvinnuleysistryggingasjóð. Hún gerði í mars s.l. grein fyrir störfum sínum, en tók þá ekki afstöðu til fæðingarorlofsmálsins, lét reyndar það álit sitt í ljós, að fæðingarorlof ætti ekki heima í lögum um Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Sennilega mun n. þessi, sem er undir forustu Benedikts Sigurjónssonar, hæstaréttardómara, skila áliti til ráðh. í byrjun næsta árs. En ég tel afar ósennilegt, sbr. það sem áður segir, að hún muni gera ráð fyrir að leggja þessar greiðslur á Atvinnuleysistryggingasjóð, og ég tel slíkt raunar ekki eðlilegt, enda er geta sjóðsins til að gegna upphaflegu hlutverki sínu þegar tilfinnanlega skert af völdum þeirra. Þannig hafði sjóðurinn hinn 31. ágúst s.l. greitt á þessu ári alls 287 millj. kr. í fæðingarorlof eða nokkru hærri upphæð en nam öllum atvinnuleysisbótum og kauptryggingu samtals á þessu sama tímabili.

Gert er ráð fyrir því í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj., að hún beiti sér fyrir endurskoðun á lögum um almannatryggingar þannig að aukin áhersla verði lögð á tekjujöfnunaráhrif tryggingakerfisins, eins og þar stendur.

Ég er þessa dagana að undirbúa nefndarskipun til að annast þetta verk. Sú n. fær jafnframt það hlutverk að koma með till. um það, hvernig fæðingarorlofi verði best fyrir komið innan tryggingakerfisins. Vissulega er þörf mikilla breytinga frá því fyrirkomulagi sem nú er í gildi. Álit mitt er það, að allar konur eigi með einum eða öðrum hætti að njóta fæðingarorlofs.