21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

89. mál, Vesturlína

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil að það komi hér skýrt fram, að í tillögum Rafmagnsveitna ríkisins um framkvæmdir á árunum 1978 og 1979 var gert ráð fyrir því, að Vesturlína gæti orðið byggð á þessum tveimur árum. Það hefur verið rifjað hér upp, að í framkvæmdatillögum RARIK fyrir árið 1978 var gert ráð fyrir 693 millj. kr. til þessa verks. Var það miðað við hagstæða skiptingu verksins í tvö ár að áliti sérfræðinga RARIK. Það hefur enn fremur verið rifjað upp, að þessi tala var skorin niður í 408 millj. kr. í sambandi við afgreiðslu fjárl. og lánsfjáráætlun fyrir þetta ár.

Í framkvæmdatillögum Rafmagnsveitna ríkisins fyrir árið 1979 er gert ráð fyrir til Vesturlínu 2 milljarða 765 millj. kr. til línulagningar og 1 milljarðs 42 millj. kr. til aðveitustöðva, samtals rúmlega 3.8 milljarða kr. Rafmagnsveitur ríkisins gerðu þessa framkvæmdatillögu í því skyni að leggja til að línunni væri lokið á árinu 1979.

Í fjárlagafrv. nú er þessi tillaga mjög skorin niður. Til línulagninga eru aðeins ætlaðar 625 millj. kr. og til aðveitustöðva, er snerta þessa línulögn, 688 millj. kr.

Rafmagnsveitur ríkisins hafa í samráði við iðnrn. gert endurskoðaðar framkvæmdatillögur fyrir næsta ár. Í þeim tillögum er svo komið, að ljóst virðist að þessari Vestfjarðalínu verði eigi lokið á árinu 1979, og eru endurskoðaðar tillögur við það miðað að skipta þá verkinu á tvö ár. Í endurskoðuðum framkvæmdatillögum RARIK fyrir árið 1979 er gert ráð fyrir 2040 millj. kr. samtals til línubygginga og byggingar aðveitustöðva við Vesturlínu. Hvort þessi fjárhæð fæst inn við afgreiðslu fjárl. og lánsfjárætlunar veit sennilega enginn í dag eða a.m.k. ekki ég, en þó er mjög nauðsynlegt að mati Rafmagnsveitna ríkisins að það takist til þess að unnt verði að ljúka þessari línulögn á góðum tíma árið 1980.

Það hefur verið tekið fram margsinnis af hálfu forráðamanna Rafmagnsveitna ríkisins, að til þess að unnt væri að ljúka þessari línulögn á árinu 1979 þyrfti ákvörðun að liggja fyrir um mánaðamótin ágúst-september. (Forseti hringir.) Fyrirgefðu, hæstv. forseti, ýmsir ræðumenn hafa farið langt fram yfir tímann og annaðhvort er að halda tímamörk eða þau fara úr skorðum. Hér hafa ýmsir ræðumenn sagt, og það hefur komið fram hjá tveimur hæstv. fyrrv. ráðh., að fyrrv. ríkisstj. hafi tekið um það ákvörðun að leggja til að þessari línu yrði lokið árið 1979, og það mun hafa gerst í lok hennar valdaskeiðs. Því miður var það svo, að það barst ekki til Rafmagnsveitna ríkisins, eftir því sem rafmagnsveitustjóri hefur upplýst mig, og þeirri ákvörðun er kippt til baka af núv. ríkisstj. Um það eru engin tvímæli.

Ég ætla ekki að fara að ræða um það hér við hv. þm. Matthías Bjarnason, hvort þessi tímamörk hafa verið röng eða ekki og að vel hafi verið unnt að byggja línuna enda þótt ákvörðun lægi eigi fyrir um þessi mánaðamót. Um þetta vil ég ekki fullyrða, en treysti áætlunum RARIK og bendi á, að afgreiðslufrestur á efni til ýmissa þátta í línulögnum og byggingu aðveitustöðva er a.m.k. 12–14 mánuðir. Það er heldur skemmri tími sem þarf til þess að panta staura og ná þeim inn í landið, og það er skýringin á því sem hann gat um, að unnt var með skömmum fyrirvara að hefja það verk að reisa staura frá Hrútatungu og yfir að Glerárskógum, eins og hann minntist á. (Forseti hringir.) Ég skal stytta mál mitt, hæstv. forseti, en ég taldi ástæðu til þess að láta það koma fram, að í framkvæmdatillögum Rafmagnsveitna ríkisins hefur verið gert ráð fyrir því, að þessu verki lyki á tveimur árum, 1978 og 1979. Ég tel einnig að það sé nú ljóst, að þessu verði eigi komið fram. Ég tel að það sé ljóst, miðað við þær upplýsingar sem ég hef. Ég skil að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða vegna þess mikla olíukostnaðar sem leggst á Orkubú Vestfjarða þessa vegna.

Ég vil taka það fram, að stjórn Rafmagnsveitna ríkisins hefur mótað sér þær starfsreglur, ef um er að ræða óskir um að panta efni til verka sem ekki eru þegar komin á fjárlög ríkisins eða lánsfjáráætlun, að þá þurfi að liggja fyrir yfirlýsing-frá iðnrn. og frá fjmrn. um að þau muni beita sér fyrir því, að fjármagn, sem til þess þarf, verði í fjárl. næsta árs. Þess vegna hafa Rafmagnsveitur ríkisins ekki pantað efni til þessa verks á liðnu sumri, vegna þess að þá yfirlýsingu iðnrn. og fjmrn. skorti.

Að lokum, hæstv. forseti, vegna þess að hér hefur einum þm. ekki verið svarað, hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni, þar sem hann spyr um Ólafsvíkurlínu, þá má segja honum það í fáum orðum, að fjármagn til þeirrar línubyggingar er á fjárl. þessa árs, sömuleiðis til aðveitustöðvar í Ólafsvík.