21.11.1978
Sameinað þing: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

35. mál, bundið slitlag á vegum

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Þetta eru orðnar langar umr. og ætla ég ekki að hafa orð mín mörg, enda varla fjórðungur þm. viðstaddur til þess að heyra hvað ég segi.

Ég er á vissan hátt mjög þakklátur fyrir svona þáltill., þó að fram hafi komið hjá hv. þm. Vilhjálmi Hjálmarssyni, formælanda þessarar till., að hann meinar ekki nema lítið af því sem hann segir í till., Þetta er nú kannske ekki endilega bundið við hringveginn, þetta er nú kannske ekki endilega bundið við 10 ár og þetta er nú ekki endilega bundið við að afgreiðast svona, heldur á einhvern annan og þá skemmtilegri máta. En ég er í engum vafa um að við getum orðið sammála um mikla þýðingu þessa máls. Mér er hins vegar ekkert undrunarefni þó að þeir hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson og Gunnlaugur Stefánsson séu á ólíku máli um þýðingu þess að efla verulega vegagerð á landinu, þar sem annar býr við besta vegakerfi, sem til er á Íslandi, en hinn við eitt það ömurlegasta.

Um þetta vil ég segja einnig, að það er ekki alveg víst að við eigum að fara að setja bundið slitlag á þjóðvegi landsins eingöngu eftir þeirri reglu hversu fjölfarnir þeir eru. Það eru fleiri þættir sem koma þarna inn í. Vegir eru mismunandi þjóðfélagslega þýðingarmiklir, ekki bara eftir tölu bifreiðanna sem skoppa eftir þeim. T.d. álít ég að það sé verulega þýðingarmikið að halda áfram með slitlagið frá Rangárvallasýslu austur til Austfjarða. Ég held líka að a.m.k. verulegur hluti af vegakerfi Snæfellsness þurfti verulega mikið á bundnu slitlagi að halda. Svona mætti fleira upp telja. En miðað við breytta tækni við lagningu slitlags hef ég það eftir verkfræðingi Vegagerðarinnar að sú aðferð, sem notuð var í sumar við að ég held þrjá kafla: kafla hjá Blönduósi, við Hafnarfjall og á Þingvallavegi, sé það ódýr framkvæmd að hún borgi sig á þremur árum, ef miðað er við meðalviðhald malarvega á Íslandi. Og þá sjáum við hvað bundið slitlag á þennan hátt er geysilega hagkvæmt og ekki afskaplega mikið fyrirtæki.

Ég vil svo aðeins árétta það, að mér finnst að þessi mál þurfi að ræða vandlega og kannske ekki bara með snubbóttum till. Þær eru þó góðra gjalda verðar.