22.11.1978
Efri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

49. mál, félagsmálaskóli alþýðu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil strax segja það, að hér er um merkilegt frv. að ræða að mínu áliti. Hér er um að ræða viðfangsefni sem er þess eðlis, að það er rétt að sinna því og fá lausn á því. Í mínum huga orkar það ekki tvímælis, að það sé rétt að verða meðlimum verkalýðsfélaganna úti um ýmsa þekkingu sem varðar starf verkalýðsfélaganna og kaupgjaldsbaráttuna, og ég lýsi mig fullkomlega samþykkan tilgangi þessa frv. Það orkar ekki tvímælis, að eitt af því, sem ræður mestu um framvindu mála í þjóðfélagi okkar, eru samskipti aðila vinnumarkaðarins, launþega og atvinnurekenda.

En þegar talað er um að koma upp fræðslu í þeim tilgangi sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þá hlýtur að vakna óhjákvæmilega ein spurning, og hún er sú, með hverjum hætti er best að koma þessari fræðslu fyrir.

Við höfum nú umfangsmikið skólakerfi sem óþarft er að minna á. Í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að til fræðslumálanna sé varið yfir 30 milljörðum kr. Sú spurning vaknar, hvort það geti verið hyggilegri og hagkvæmari leið að koma þessari kennslu fyrir innan skólakerfisins eins og það er, þ.e.a.s. að láta hina almennu skóla annast þessa fræðslu með einum eða öðrum hætti. Þetta er ótvíræð spurning þegar við lítum til fjárhagshliða þessa máls, en mér virðist að þetta sé einnig spurning þegar litið er til þess, hvað sé haldbesta leiðin til þess að ná þeim tilgangi sem frv. gerir ráð fyrir. Það er sem sagt að mínu áliti spurning um það, hvort það geti verið, að það sé hægt að ná tilgangi frv. betur með því að fella þá fræðslu, sem þar um getur, inn í hið almenna skólakerfi heldur en að stofna sérskóla.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir sérskóla og gert er ráð fyrir að það verði ríkisskóli, að ríkið kosti þennan skóla, kosti rekstur skólans. Það væri hægt að hugsa sér að þetta væri ekki ríkisskóli, heldur stæðu t.d. aðilar vinnumarkaðarins að skólanum. Það hefur komið fram hjá 1. flm. þessa frv., að verkalýðsfélögin mundu ekki hafa fjárráð til þess. Ég skal ekki tjá mig um það efni. Ég vil ekki mótmæla því. En verkalýðshreyfingin hefur, að ég ætla, töluverð fjárráð, og það fer þá eftir því, hvað verkalýðshreyfingin metur tilgang þessa frv. mikils, hvort hún vill láta þetta mál kannske að einhverju leyti ganga út á aðrar þarfir sem verkalýðshreyfingin telur að þurfi að sinna og kosta fjármuni. En ef við göngum út frá því, að skólinn sé ríkisskóli, þá vaknar sú spurning, hvort það sé þá ekki eðlilegt að eins fari með þennan skóla og aðra ríkisskóla, þ.e.a.s. að skólinn verði alfarið undir stjórn ríkisins.

Nú er hins vegar gert ráð fyrir því, að það verði sérstök skólanefnd, sem skipuð verði með sérstökum hætti, sem fer með stjórn skólans, ríkið sjálft komi þar ekki við sögu. Mér finnst að þetta sé, svo ekki sé meira sagt, nokkuð vafasamt. Ég held að það sé ákaflega þýðingarmikið að saman fari ábyrgð og skyldur í þessu efni eins og jafnan og spurningin sé þá hvort það sé ekki eðlilegt að ríkið hafi alfarið stjórn skólans. Nú er, eins og ég sagði áður, gert ráð fyrir að svo sé ekki. Ef sá möguleiki er tekinn til athugunar, þá vaknar aftur sú spurning, hvernig skólanefndin eða stjórn skólans skuli skipuð, og þá er ég ekki viss um að þau ákvæði, sem eru núna í frv. um þetta efni og er að finna í 5. gr. frv., séu fullnægjandi. Þar er gert ráð fyrir að ráðh. skipi tvo skólanefndarmenn eftir sameiginlegri tilnefningu Menningar- og fræðslusambands alþýðu og Alþýðusambands Íslands og einn án tilnefningar.

Ég held, ef á að gefa launþegum aðild að stjórn skólans, að þá þurfi þar að vera um víðtækari aðild að ræða en þarna er gert ráð fyrir. Ég nefni í því sambandi, að það hlýtur að koma til álita hvort ekki sé rétt að fulltrúi frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja eigi þarna aðild að. Það hlýtur að koma til álita, hvort fulltrúi frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands komi ekki til greina í þessu sambandi. Þetta er um launþegasamtökin. En samkvæmt eðli frv. og tilgangi og því, sem kveðið er á um námsefni í þessum skóla, finnst mér og eðlilegt að hinn aðili vinnumarkaðarins komi einnig til greina, þ.e.a.s. að þá eigi líka aðild að stjórn skólans fulltrúar frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna.

Þetta eru aðeins almennar hugleiðingar um þetta mál sem mér þóttu þess eðlis, að það væri rétt að koma fram með þær þegar við 1. umr., þó að mál þetta komi til nefndar sem ég á sæti í.