22.11.1978
Efri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

49. mál, félagsmálaskóli alþýðu

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Sem einn af flm. þessa frv. þarf ég ekki að hafa mörg orð umfram það sem hv. 1. flm. kom inn á í framsöguræðu sinni fyrir frv. Hann rakti þar forsögu þess og eins það, hvernig þetta var á sínum tíma ákveðið sem stjórnarfrumvarp, að mestu leyti óbreytt nú flutt, og um það náðist á þeim tíma fullkomið samkomulag við launþegasamtökin og þau væntu sannarlega góðs hér af. En það tókst ekki að koma því frv. í gegnum Alþ. og síðan frá valdatíma þeirrar ríkisstj. sem þá sat, hefur þessu máli ekki verið hreyft af stjórnvöldum.

Hér var auk þess flutt við umr. á dögunum afburðagóð ræða af hv. þm. Jón G. Sólnes, sem nú er því miður fjarverandi og því ekki rétt að fara út í þau einkennilegu viðhorf sem þar komu fram. Eins og oft vill verða hjá þeim hv. þm., var maður ekki viss hvort í alvöru var talað eða því aðeins slegið fram til þess að stríða flm. og koma af stað aukaumr. um málið. En út í einstök atriði þess er auðvitað ekki hægt að fara þar sem hv. þm. mun nú jafnvel farinn af landi brott.

Varðandi athugasemdir sem hljóta að vakna varðandi þetta frv., þá verður sú auðvitað mest áberandi, hvaða aðilar eigi hér að fara með stjórn. Í frv., eins og það er núna, er óbreytt tilhögun frá því sem var í stjfrv. frá 1973, þ.e.a.s. tveir tilnefndir sameiginlega af Menningar- og fræðslusambandi alþýðu og Alþýðusambandi Íslands og einn án tilnefningar, sem væri formaður skólanefndarinnar. Hér hafa komið fram nokkrar athugasemdir við það, t.d. um viðbótaraðila í þessum efnum, fjölmenn launþegasamtök sem þarna eiga ekki aðild að. Vissulega ber að skoða það varðandi aðila eins og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Farmanna- og fiskimannasambandið, eins og var minnt á af síðasta ræðumanni. Þó hygg ég að svo fjölmenn samtök sem Alþýðusamband Íslands er hljóti að eiga fullan rétt á því, að ríkið stuðli rækilega að sérstökum félagsmálaskóla fyrir það fólk, og þá alveg sérstaklega vegna þess að innan þeirra vébanda er auðvitað mjög mikið enn þá — þó kannske í minnkandi mæli — um ófaglært fólk að ræða sem hefur ekki notið mikillar skólagöngu og þeirrar félagslegu skólunar sem í henni felst og á þess vegna í raun og veru viðbótarrétt til þess að fá skólavist af slíku tagi.

Það er auðvitað rétt, að í 2. gr. kemur fram um fræðsluhlutverkið, hvaða aðalatriði þar eru lögð til grundvallar. Ég veit það af gamalli reynslu, á meðan samningar voru ekki eins flóknir og þeir eru nú og réttindamál ekki eins mörg komin fram og nú er, að fyrir hinn óbreytta mann var hér um allerfitt mál að ræða að átta sig fyllilega á, og í sumum félögum var þessu sinnt, öðrum ekki. Svo er sjálfsagt enn í dag, að auðvitað hvílir viss lágmarkskylda á hverju verkalýðsfélagi að kynna félagsmönnum sínum eins vel og rækilega og mögulegt er þann rétt, sem þeir eiga, og þá samninga, sem eftir er farið hverju sinni.

Það má áreiðanlega með réttu deila á verkalýðsfélög almennt, þó að e.t.v. séu þar og að ég vona góðar undantekningar frá því, að þau stundi ekki sjálf næga kynningarstarfsemi af þessu tagi. Og þó að menn hafi þetta e.t.v. í þykkum bæklingum fyrir framan sig, um samninga og annan rétt sinn, þá er það hvergi nærri nóg. En einmitt á þessu sviði er nauðsynlegt að fá leiðbeiningar til handa forustumönnum og til handa ýmsum félagsmönnum, hvernig þeir geti best komið þessari fræðslu á framfæri í hinum einstöku félögum sínum.

Það var minnt á það áðan af hv. 5. þm. Vestf., að e.t.v. væri hér um þátt að ræða, sem ætti að koma inn í skólakerfið. Ég get verið honum algjörlega sammála um það, að svo miklu leyti sem það nær þar tilgangi sínum. En auðvitað getur sá þáttur, sem inn í skólana kemur, aldrei notið sín gagnvart ýmsu af því sem þetta frv. lýtur að. Það held ég að sé útilokað. Þetta nægir ekki heldur gagnvart þeim eldri í dag, þeim meðlimum stéttarfélaganna sem í dag þurfa vissulega á því að halda að fá þessa fræðslu og eiga ekki, a.m.k. á meðan fullorðinsfræðsla okkar er ekki komin í betra horf en hún er, þess kost að fá þá þekkingu og fræðslu sem hér er um að ræða.

Hitt er svo rétt, að með grunnskólalögunum var lagður verulega bættur grunnur að því, að hinum félagslega þætti í skólanáminu væri sinnt. Auðvitað er það misjafnt enn í dag, hvernig skólarnir sinna þessum þætti. En með grunnskólalögunum og reglugerðum í framhaldi af þeim er óneitanlega brotið í blað í þeim efnum og hinum smærri skólum t.d. veitt mjög aukið svigrúm til að sinna hinum félagslega þætti. Það hlýtur svo að fara eftir hverjum skóla, að hve miklu leyti hann rækir þennan þátt. En á meðan ég stjórnaði skóla saknaði ég þess sárlega, að svigrúm míns skóla til þessara félagslegu þátta var í raun og veru ekkert nema þá bara í hinum venjulegu kennslustundum, sem vildu þá auðvitað fara í hið hefðbundna námsefni, þannig að hitt varð útundan. Og þó að bæði í mínum skóla og auðvitað í flestum skólum hafi eitthvað verið gert í þessum efnum í sjálfboðaliðsstarfi, þá auðvitað féll það ekki sem eðlilegur þáttur að skólanáminu og var auðvitað misjafnt eftir því, hvernig aðstæður voru og hvernig kennarar voru einnig.

Ég held sem sagt að þrátt fyrir þennan þátt, sem vissulega er ástæða til að minna á og leggja áherslu á að skólarnir ræki enn betur, þ.e.a.s. hinn félagslega þátt, að þeir mennti nemendur sína verulega í félagsstörfum og ýmsu sem lýtur að stjórnun og félagslegu fræðslustarfi, þá nægir það ekki í dag og ekki heldur í náinni framtíð. Ég held að hér dugi ekkert minna en það átak sem hefur auðvitað þegar verið gert að nokkru af launþegasamtökunum sjálfum, en er gert ráð fyrir að færa á víðari grunn og fella betur inn í okkar félagsmálafræðslu almennt.

Ég ætla ekki að fara út í það, hvernig skólanefndum hinna einstöku skóla er skipað hér á landi í skólum sem ríkið kostar orðið nær alfarið eða alfarið, sbr. Verslunarskólann og Samvinnuskólann, svo að dæmi séu nefnd, en því fer auðvitað víðs fjarri, að þar hafi ríkið alla stjórn mála. Mér er nær að halda að ríkið sé aðeins aðili að 1/5 hluta varðandi stjórn þessara skóla, og þá getur hlutfallið 1 á móti 2 þarna vart talist hættulegt. Hins vegar er auðvitað spurningin — og þá spurningu skil ég vel sem varpað hefur verið fram af ýmsum þeim, sem að þessu hafa staðið, varðandi þann Félagsmálaskóla sem nú er og Menningar- og fræðslusamband alþýðu, að þeir vilji kanna þá möguleika, að þeir séu með þennan skóla alfarið í sínum höndum, og við það hef ég vitanlega ekkert að athuga, síður en svo.

Ég ætla aðeins að minna á það, af því að það erindi liggur nú fyrir okkur í fjvn., að til þessara tveggja þátta eru í frv. til fjárlaga: til Menningar- og fræðslusambands alþýðu og til Félagsmálaskóla alþýðu, 6.5 millj. kr., að ég held rétt. Það er hins vegar glöggt, að þó að þessir aðilar fari mjög vægilega í sakir, þá eru fjárveitingabeiðnir þeirra margfaldar á við þetta og það er auðskilið mál, þó að kostnaði sé eins stillt í hóf og mögulegt er. Ég hygg t.d. að fyrir Félagsmálaskólann sjálfan, sem nú eru ætlaðar aðeins 3 millj. í frv. til fjárlaga, sé mjög hógvær beiðni til fjvn. um 15 millj. kr., þ.e.a.s. fimmfalda þá upphæð sem er í frv. til fjárlaga. Við skulum vona að það lagist í meðförum okkar í fjvn.

Ég minni á þetta vegna þess, að auðvitað hefur verið nokkuð um bætt, eins og hv. 1. flm. kom inn á um fjárstuðning til þessa skóla. Þó er enn víðs fjarri því — eins og kemur fram í óskum og bréfum frá félagsmálaskólanum og frá Menningar- og fræðslusambandi alþýðu.

Ég vil svo að lokum segja það, að í einu eða öðru formi er nauðsynlegt að koma hér á fastari skipan. Hér kann að vera rétt að kanna ýmsa þætti, bæði varðandi stjórn og annað því um líkt, sem hefur verið minnt á, og ég hygg að við flm. höfum þar ekki neitt á móti. En ég held að það sé höfuðnauðsyn að koma fræðslustarfsemi hjá verkalýðssamtökunum á fastari grunn og öruggari en hefur verið og jafnframt að leggja á það höfuðáherslu — og það var kannske aðalerindi mitt í þennan ræðustól að minna á það — að verkalýðsfélögin sjálf séu svo virk í sínu fræðslustarfi að þau sinni þessum þætti innan sinna vébanda eins og þau mögulega geta, en á það vantar mikið í dag. Einn þátturinn, kannske veigamesti þátturinn í að bæta þetta, er einmitt að koma slíkum skóla í fast form og gera hann að verulega góðum skóla sem geti útskrifað frá sér eftir vissan námstíma fólk sem er fært um það í sínum fagfélögum að veita öðrum fræðslu og greina fólki þar nánar frá rétti sínum en nú er gert, og þó alveg sérstaklega að fólk, eins og komið er að í 1. gr., viti bakgrunn sinnar hreyfingar, eins og hv. 1. flm. kom rækilega inn á, — viti bakgrunn sinnar hreyfingar og skilji eðli hennar. Það er viss nauðsyn til þess og mikil nú á okkar tímum, að fólk þekki þennan bakgrunn, viti um þá baráttu, sem það hefur kostað að ná því fram sem þegar er fengið, og skynji um leið stöðu sína í þjóðfélaginu, þar sem auðstéttin ræður ríkjum að eins miklu leyti og hún mögulega getur.