22.11.1978
Efri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

95. mál, leiklistarlög

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í 2. gr. leiklistarlaga segir svo með leyfi forseta:

„Ríkið rekur og kostar Þjóðleikhús og Leiklistarskóla Íslands eftir því sem fyrir er mælt í löggjöf um þessar stofnanir og í fjárlögum.

Alþingi veitir einnig árlega fé í fjárlögum til stuðnings annarri leiklistarstarfsemi: I. Til Leikfélags Reykjavíkur. Il. Til Leikfélags Akureyrar, III. Til Bandalags ísl. leikfélaga. IV. Til almennrar leiklistarstarfsemi. V. Til leiklistarráðs.“

IV. liðurinn, sem hér var nefndur, almenn leiklistarstarfsemi, er ætlaður þeim mörgu áhugaleikfélögum sem setja upp leikverk víðs vegar um land, og á fjárl. ársins 1978 voru ætlaðar 11 millj. kr. til þeirrar starfsemi. Upphæðinni er hins vegar skipt í réttu hlutfalli við fjölda leikverka sem sett eru upp, þannig að upphæð er fyrir hvert leikverk og því miður mjög lág upphæð vegna þess hvað heildarfjárhæð skiptist til margra áhugaleikfélaga. Spurningin verður þá sú, hvar eigi heima þeir leikhópar sem telja sig atvinnuleikhópa, en flokkast þó ekki undir Leikfélag Reykjavíkur eða Leikfélag Akureyrar, þá tvo atvinnuleikhópa sem hér eru sérstaklega nefndir. Það er allmikið um atvinnuleikhópa af þessu tagi, en með ströngum skilningi á þessum lögum hafa ýmsir komist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri grundvöllur til þess að veita slíkum hópum neinn stuðning. Þeir fá ekki neinn stuðning samkv. III. lið 2. gr. og ekki heldur samkv. IV. lið, þar sem um er að ræða atvinnuleikhópa. Og jafnvel þótt þeir kæmust undir þann lið, þá mundi það engu breyta um fjárhag slíkra hópa vegna þess að þeir setja upp leikverk og sýna á mörgum sýningum, öndvert við það sem gerist þegar um áhugaleikhópa er að ræða, sem venjulega hafa ekki mjög margar sýningar. Þeir kosta miklu meira til, og þær upphæðir, sem hér var um að ræða, mundu draga mjög skammt.

Það er einróma álit þeirra sem til þekkja, að ekki hafi verið ætlunin með frv. til leiklistarlaga að ekki mætti styrkja leikstarfsemi af framangreindu tagi. Menn hafa að vísu deilt fast um það, hvort þetta gæti rúmast innan núgildandi laga eða ekki, og það er einmitt aðaltilgangur þessarar lagabreytingar að taka nú af öll tvímæli um það, að rétt sé og skylt að fjárveitingar Alþingis nái bæði til tiltekinna atvinnuleikhúsa, eins og greinir í lögunum, og einnig til starfsemi áhugaleikfélaga, eins og verið hefur um langa hríð, og þar að auki til sjálfstæðra leikhópa sem ýmist eru skipaðir atvinnuleikurum eða bæði atvinnu- og áhugaleikurum.

Það er tilgangurinn með flutningi þessa frv., að við afgreiðslu fjárl. verði hægt að taka tillit til þessarar lagabreytingar, og þarf því að hafa hraðan á að afgreiða þetta mál ef vilji er fyrir hendi að afgreiða það á annað borð. Ég vil því eindregið skora á hv. menntmn. Ed. að taka þetta mál tafarlaust til meðferðar og skera úr um það fyrir sin leyti, hvort hún treystir sér til að veita þessu máli brautargengi. Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til hv. menntmn. að lokinni þessari umr.