22.11.1978
Efri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

95. mál, leiklistarlög

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka hv. 3. þm. Austurl., Helga Seljan, fyrir ágætar undirtektir hans. Mér kom það sannarlega ekki á óvart, þar sem hann hefur áður vakið máls á þessu vandamáli í þinginu, þó að sú breyting, sem hann gerði till. nm, næði þá ekki fram að ganga. Ég vil líka þakka hv. 2. þm. Austurl., fyrrv. menntmrh. Vilhjálmi Hjálmarssyni, fyrir ágætar undirtektir. Hann þekkir þessi mál afar vel. Ég er sammála því sem fram kom hjá þeim, að það er afleitt hvað fjárveitingar til leiklistarstarfsemi í landinu hafa rýrnað á undanförnum árum. Úr því verður tvímælalaust að bæta.

En ástæðan til þess að ég stóð hér upp — aðalástæðan skulum við segja — var sú, að ég rak augun í að það hefur slæðst inn í frv. meinleg villa sem ekki átti þar að vera. Hér segir í 1. gr.: Liður IV í 2. gr. laganna orðist svo: Til leiklistarstarfsemi áhugaleikfélaga“. Á þessu stigi við undirbúning þessa máls var talið skynsamlegt að orða þetta á þennan veg, að tala um áhugaleikfélög. En við nánari skoðun fannst mönnum miklu eðlilegra að tala hér nm áhugafélög, vegna þess að í mörgum tilvikum er um að ræða, að ýmis félög setja upp leiksýningar. Það eru verkalýðsfélög, það eru ungmennafélög og ýmis önnur félög sem setja upp leiksýningar sem eru að öllu leyti sambærilegar við leiksýningar áhugaleikfélaga og eiga því að hljóta styrk og hafa fengið styrk á undanförnum árum. Það er engin ástæða til að breyta þar neinu. Þetta orðalag gæti hins vegar valdið því, að þessi félög væru útilokuð frá að fá styrk. Þess vegna var búið að orða þetta á annan veg. En svona vill það nú vera, að þegar draugur kemst inn í frv., þá er stundum erfitt að kveða hann niður. Einhvern veginn hefur þetta fyrir nústök komist aftur inn í handrit, og ég vil mælast til þess við menntmn. Ed. að hún leiðrétti þessa villu. Það var alls ekki ætlun menntmrn. að málið yrði flutt með þessu orðalagi.