22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég held að þær umr., sem hér hafa farið fram, séu bæði þarfar og nokkuð gagnlegar, þó ekki væri nema fyrir þann hóp sem situr inni í þessum sal og fylgist með. Hins vegar finnst mér að mörgu leyti vanta höfuðkjarnann í þá umr., sem hér fer fram, og hann er einfaldlega þessi, hvort þm. eigi að geta lifað af launum sínum eða hvort þingmennska eigi að vera starf efnamanna. Þetta er kjarninn í því sem ég tel að við eigum að ræða hér varðandi laun þingmanna. Við þurfum ekki að líta langt til að sjá dæmi þess, að menn geta ekki tekið þátt í pólitískri baráttu nema þeir eigi að baki sér sterka bakhjarla peningalega, og er þá skemmst að minnast kosningabaráttu forsetaefna og annarra í Bandaríkjunum. Ég vil leggja höfuðáherslu á þennan þátt málsins í þessari umr. Í öðru lagi tel ég persónulega að léleg laun þm. bjóði heim ýmsum hættum fyrir þm. sem gætu e.t.v. verið veikir á svellinu gagnvart ýmsum peningagreiðslum fyrir tiltekin viðvik, án þess að það hvarfli að mér að halda því fram, að nokkuð slíkt hafi gerst á þessu þingi. Ég vil einnig að menn hugleiði örlítið laun þm. gagnvart launum annarra stétta í þjóðfélaginu. Alþingi er sett yfir stóran hóp embættismanna. Sá hópur ber úr býtum oft á tíðum mun hærri laun en þm. hafa sjálfir, og get ég í því sambandi minnst á t.d. ráðuneytisstjóra og með fyllstu virðingu skrifstofustjóra Alþingis.

Einu atriði í þessu máli vil ég koma að. Það eru þær endurgreiðslur sem þm. fá fyrir útlagðan kostnað, sem oft eru í daglegu nefndar „hlunnindi“. Ég tel að þm. eigi að gefa þær greiðslur upp ef skattstofur óska eftir. Dæmi eru um að skattstofur hafi gert það, og þess vegna ber þm. að gera það.

Ég skal ekki lengja mikið þá umr. sem fer fram. Mig langar aðeins til að geta þeirrar mismunandi aðstöðu, sem þm. hafa til þess að njóta launa sinna, ef svo mætti segja. Ég vil t.d. benda á þá aðstöðu sem þm. Reykjavíkur og nágrennis hafa fram yfir þm. sem koma úr dreifbýli. Ég vil minna á að það er talsverður munur á aðstöðu þm. úr dreifbýli þ.e.a.s. þeirra sem hafa fasta búsetu utan Reykjavíkursvæðisins og þeirra sem hafa búsetu í Reykjavík og þurfa að sækja í sitt kjördæmi.

Ég gerði það að gamni mínu vegna þessara umr. að taka saman samkv. nótum eftir kosningabaráttuna fyrir síðustu kosningar þann kostnað sem ég persónulega hafði haft af vikuferðalagi um kjördæmi mitt. Ég held að sá útreikningur allur hafi verið í neðri kantinum. Þess má geta, að ég eyddi ekki nema 5 þús. kr. á dag í fæði og húsnæði. Ferðakostnaður fyrir slíkt ferðalag reyndist mér vera 106 þús. kr. fyrir eina viku. Þætti kannske engum óeðlilegt að þm. færu í kjördæmi sitt fjórum sinnum á ári eða svo og eyddu viku þar, þannig að þarna er liður upp á liðlega 400 þús. kr., lágt reiknað. Eðlilega reiknað tel ég að þessi liður væri um 600 þús. kr., þ.e.a.s. fjórum sinnum vikuferð í kjördæmi að stærð eins og það sem ég er í.

Ef mér skyldi nú detta í hug að taka á leigu húsnæði í þessu kjördæmi sem ég þarf að sinna, þá get ég varla búist við því, að nokkur fari að leigja mér til skemmri tíma en hálfs árs í senn og leigan yrði varla undir 50 þús. kr. á mánuði. Þar er kominn liður upp á 300 þús. kr. ef ég fengi íbúð fyrir þennan skamma tíma. Hiti og rafmagn yrðu vart undir 60 þús., og símakostnaður, sem ég yrði að greiða, þ.e.a.s. innlagning síma, 40 þús. kr. Þessi liður yrði upp á 400 þús. kr. Hins vegar ef ég tæki þessa íbúð á leigu til eins árs yrði þessi liður 760 þús. kr.

Menn geta síðan deilt um það, hvernig þessum greiðslum eigi að haga. En ég verð að segja það hreinskilnislega, að á sama tíma og við þm. erum að óska eftir því, að almennir launþegar í landinu fari að einhverju leyti eftir óskum okkar í sambandi við launagreiðslur, þá getum við fjandakornið ekki farið að ákveða laun okkar sjálfir.

Ég er þess vegna fylgjandi því frv., sem hér liggur fyrir, og vil að aðrir menn en þm. sjálfir taki ákvarðanir um laun þingmanna.