22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Gunnlaugur Stefánsson:

Forseti. Launamál alþm. hafa verið hér til umr. Einnig hefur blandast inn í þessa umr. frv. sem ég flutti fyrr á þessu þingi, þar sem fjallað er um að þm., öðrum en ráðh., verði meinað að taka laun fyrir önnur störf en þingstörf. Ég vil leggja á það áherslu, að þetta frv. fjallaði ekki um að þm. mættu ekki vinna aukastörf, heldur að þeir mættu ekki þiggja laun fyrir önnur störf.

Ég vil sérstaklega taka fram í tilefni af orðræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Eiðs Guðnasonar, að það er mjög auðvelt að setja slík ákvæði sem þessi í lög með því hreinlega að setja þau og treysta þm. til þess að virða þau og fara eftir þeim. Ég held að þm. sé til slíks treystandi.

Ef ég vík þá að því frv., sem hér er til umr. sérstaklega, þá er ég þeirrar skoðunar, að laun alþm. eigi að vera há og góð til þess að tryggja efnalegt sjálfstæði þeirra og til þess að reyna að koma í veg fyrir að óbreyttum lögum að þeir sæki eins stíft út í atvinnulífið og raun ber vitni. Eigi að síður tel ég að launin í dag séu í því hámarki sem þau hafa verið ef við lítum t.d. á 7–8 ára tímabil. Ég tel að það sé ekki rétt, sem fram kemur í þessari grg., að launin séu eitthvað lakari nú en þau voru fyrir 3–4 árum. Ég held að það megi segja sem svo, að við síðustu kjarasamninga og eftir að þm. hurfu frá því að taka mið af þriðja hæsta launaflokki Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fluttu viðmiðun sína yfir í BHM, Bandalag háskólamanna, þá hafi styrkur launanna eflst fram yfir það sem hann hafði verið áður ef við miðum við sömu starfsstéttir fyrr. Þetta held ég að við ættum að athuga öllu nánar. En það, sem við erum fyrst og fremst að ræða hér, er að þm. eru alls ekki þeir tekjuhæstu í þjóðfélaginu. Það eru aðrir aðilar sem eru tekjuhærri í þjóðfélaginu og þm. ýmsum svíður e.t.v. að finna það, að þeir eru mjög tekjulágir ef tekið er mið af ýmsum starfstéttum. Þetta er annað vandamál sem að nokkru leyti er sök þingsins. Það er þetta svokallaða stóra, hrikalega launabil sem viðgengst hér í landinu, — launabil sem er á bilinu 1–2 millj. Það er algengt að menn hafi fyrir ein og önnur störf í samfélaginu laun á bilinu 700 þús. upp í 11/2 millj. kr. eftir því hvar þeir starfa, forstjóralaun og annað í þá veru, og ég get skilið að ýmsum þm. svíði það svolítið að vita af slíku og vita einnig að þetta er að verða nokkuð algengt. Eigi að síður tel ég það ekki hlutverk þingsins að reyna að hækka laun þm. til móts við þetta, heldur að setja lög sem miða að því að lækka laun þessara hátekjumanna í samfélaginu, og það ætti að vera markmið okkar.

Það hefur ekki verið minnst á það í þessum umr., heldur í tveggja manna tali stundum — að þm. ýmsum þyki sárt að vita til þess, að ýmsir embættismenn í ríkisgeiranum þiggja langtum hærri laun en þm. sjálfir, t.d. ráðuneytisstjórar. Mér skilst t.d. að ráðuneytisstjórar séu ekki í neinum venjulegum launaflokkum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eða launaflokkum Bandalags háskólamanna, heldur séu þeir í einhverjum sérstökum stjörnuflokkum og þiggi laun samkvæmt þeim sem eru langtum hærri en almennir kjarasamningar segja til um á hverjum tíma.

Um það, hvort við ættum að fara þá leiðina sem mælt er fyrir í þessu frv., sem sagt að Kjaradómur fjalli um þessi mál og ákvarði þau, þá tel ég það ekki skipta meginmáli hverjir ákveða þetta. Ef Kjaradómur tæki þetta hlutverk að sér, þá gæti þingið alltaf haft lokaorðið um það, hver kjörin ættu að vera, með því að setja hreinlega löggjöf ef þingið og þm. væru óánægðir að einhverju leyti með úrskurð Kjaradóms. Eigi að síður tel ég að það ætti að fara þá leiðina, að Kjaradómur ákvarðaði þetta. Þingið getur alltaf varið sjálfstæði sitt með því að setja löggjöf um þessi efni ef það sættir sig ekki við niðurstöðu Kjaradóms.

Hitt má einnig benda á, að það kannske skýtur dálítið skökku við, að þm. séu að vísa þessum málum frá sér til Kjaradóms á meðan tvisvar til þrisvar og stundum oftar á ári telur þingið sig hæft og náttúrlega hefur rétt til þess að hnika til gerðum kjarasamningum í landinu og stilla svo til friðar og reyna að breyta þeim á einn eða annan hátt og skammta mönnum laun í samræmi við það sem þingið telur réttlátt og skynsamlegt á hverjum tíma. Þetta hefur valdið gagnrýni og deilum þegar það gerist, og veit enginn nema slík lög eigi eftir að sjá dagsins ljós hér á hinu háa Alþ. áður en langt um líður. Og kannske finnst einhverjum dálítið skrýtið að þm. geti ekki ákvarðað eigin laun á meðan þeir keppast við að ákvarða laun allra stétta í landinu. Það eru tvær hliðar á öllum málum. Samt sem áður tel ég að það geti verið jafnskynsamlegt út af fyrir sig, þegar maður horfir á þetta mál sérstaklega, að Kjaradómur fjalli um þetta, en þingið hefur alltaf og getur haft síðasta orðið í þessu efni, ef það sættir sig ekki við þá niðurstöðu sem Kjaradómur ákveður og sérstaklega ef lítur út fyrir að Kjaradómur ætli á einhvern hátt að fara að skerða efnalegt sjálfstæði þm.

Ég vildi að þessi sjónarmið kæmu fram, herra forseti. En að lokum vil ég aðeins koma að því sem hér hefur verið rætt, það snertir kannske ekki fyrst og fremst höfuðtilgang þessa frv., en það eru hlunnindagreiðslur þm. Ég hef átt dálítið erfitt með að skilja ýmislegt í þeim. T.d. hef ég átt dálítið erfitt með að skilja þá skynsemi sem liggur að baki því að borga hv. þm. Austurlands til þess að ferðast um eigið kjördæmi sömu upphæð til ferðalaga í kjördæmi og hv. þm. í Reykjavík. Við hljótum að sjá í þessu mikið ósamræmi og litla skynsemi. Vissulega þarf hv. þm. í Reykjavík að aka nokkrar vegalengdir og sérstaklega ef hann er mjög duglegur að keyra rúntinn, þá náttúrlega getur hann farið hæglega með það að eyða 500 þús. kr. En ég tel að sá, sem ekur Austfjarðaleiðina, eða réttara sagt sá hv. þm., sem er þm. Austurl., þurfi jafnvel á einhverju meiru að halda, ef við teljum að 500 þús. dugi svona rétt sæmilega fyrir þann hv. þm. sem býr í Reykjavík. Þetta er eitt dæmi um þá óraunhæfni sem er í þessum málum og mætti taka til frekari skoðunar.

Hitt hefur mér alltaf fundist dálítið skrýtið, að þm. utan af landi þurfi að borða eitthvað svolítið meira en þm. annars staðar og þess vegna þurfi að greiða þeim einhverja sérstaka dvalarkostnaðarpeninga til þess að hafa ofan í sig og á. Mér hefur alltaf skilist sem svo um þingfararkaupið, sem greitt er alþm., að ætlast sé til þess að þm. noti það til venjulegs framfæris. Þm. fá greidda upphæð til þess að reka íbúð hér í bænum, annaðhvort eigin íbúð eða þá leiguíbúð, mér skilst að það séu 55 þús. kr. á mánuði, en mér hefur alltaf fundist skrýtið að bæta ofan á þetta 4 þús. kr. á dag, sem mér skilst að séu ætlaðar til að fæða þessa hv. þm.

Það er aftur á móti annað mál, sem mætti athuga nánar, með þá þm. sem búa fjarri Reykjavík og þurfa að aka nokkurn spöl, stundum langan spöl. Og þá dettur mér í hug t.d. hv. þm. sem býr í Keflavík og er fjarri heimili sínu allan þingdaginn frá morgni til kvölds. Að því er sannanlegur kostnaður sem rétt er að taka að einhverju leyti tillit til, og það getur verið mjög hár kostnaður. En að greiða þm., sem búa heimilislífi í Reykjavík allan þingtímann, einhverja sérstaka upphæð til þess að fæða sig og klæða vegna þess að þeir eru nefndir utanbæjarþm., það hefur mér alltaf fundist dálítið skrýtið. Þetta hefur líka orðið til þess, að sumum þm. í Reykjavík, sem hafa boðið sig fram í kjördæmi úti á landi, í landsbyggðarkjördæmi, en hafa haft áður búsetu hér, hefur þótt sérlega hagstætt að flytja fljótlega lögheimili sitt í viðkomandi kjördæmi, og hafa stundum gengið sögur um það einmitt, að eyðibýli hafi sérstaklega verið notuð til þess arna á undanförnum árum, til þess að skrá hv. þm. einhvers staðar í viðkomandi kjördæmi, þannig að hann geti notið þessara greiðslna sem í boði eru hér á hinu háa Alþingi. Hvort slíkt gildir nú veit ég ekki, en einhverjar sögur hafa farið um að þetta hafi tíðkast hér áður fyrr.