22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að umbætur á kjaramálum þm. þurfi að vera í þremur skrefum: Í fyrsta lagi að þingið um sinn a.m.k. láti Kjaradóm um það að ákvarða þessi kjör. Fyrir því voru færð rök í framsöguræðu. Í annan stað þurfi að endurskoða rammalöggjöf um kjaramál þm. sem Kjaradómur fari ettir. Og í þriðja lagi þurfi sú meginbreyting að verða, að öll þessi störf, ætíð þegar til hækkunar komi, fari fram, eins og síðasti ræðumaður orðaði það, fyrir opnum tjöldum, um það séu sendar út opinberar tilkynningar og það sé alveg ljóst. Þetta hefur ekki verið gert fyrr en sennilega vegna þeirrar gagnrýni, sem fram hefur komið, að formaður þfkn. kvaddi sér hljóðs hér utan dagskrár ekki alls fyrir löngu á fundi í Sþ. og gerði grein fyrir þeim hækkunum sem orðið hafa. Það er rétt, að þm. hafa vitað um það. þegar laun þeirra hafa hækkað, en allur almenningur hefur hins vegar ekki vitað um það. Það hefur umvafið þessi mál tortryggni. Sú tortryggni hefur ekki aðeins orðið þinginu til skaða, hún hefur einnig orðið því til vansa. Það er það sem gerst hefur.

Af máli margra ræðumanna, einkum fyrrv. formanns þfkn., hv. þm. Sverris Hermannssonar, mátti skilja að það hafi verið svo undanfarin ár að tveir eða þrír götustrákar hafi vaðið uppi í samfélaginu og ráðist á minni máttar, 60 alþm., af hinum mesta fantaskap og þm. auðvitað ekki getað borið hönd fyrir höfuð sér fyrir þessum rógberum. Rismikill þykir mér þessi málflutningur satt að segja ekki vera.

Það, sem gagnrýnt hefur verið, er margt og m.a. þegar um það var tekin ákvörðun hér innan þingsins að fylgja Bandalagi háskólamanna, en ekki Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, svo sem verið hafði, vegna þess að það fól í sér mikla og skyndilega stökkbreytingu og kjarabót.

Hv, þm. Ellert Schram gerði að umræðuefni hér áðan að frv. það, sem hér er flutt, hafi verið tekið traustataki frá frv. — sem hann segist og áreiðanlega með réttu hafa samið — frá því í fyrra. Ég verð að segja það, að í fyrsta lagi var mér grunlaust um að 2. flm. frv, hefði samið það. En ég sé nú ekki betur en með þessu sé verið að gjalda líku líkt, því að þannig var að fyrir tveimur árum var flutt í þessari deild frv. til l. um nákvæmlega sama mál, að vísu aðeins öðruvísi orðað, og flm, að því og höfundur var Gylfi Þ. Gíslason. Ellert stal frá Gylfa og mér þótti sjálfsagt að stela frá Ellert í staðinn, úr því að deilt er um höfundarrétt að þessu máli. Það er alveg rétt, að þetta eru efalítið óviðkunnanleg vinnubrögð og ég skal lofa því að fara ekki aftur að frumkvæði og fordæmi Ellerts B. Schram í þessum efnum.

Þau rök hafa verið hér fram sett, að það er alveg augljóst að Alþ. getur á hverjum tíma ákveðið hvernig þessum málum er fyrir komið. Það gildir um lagasetningu um þessi efni eins og um önnur efni í samfélaginu, að vegna þeirrar umr., sem fram hefur farið, telja flm. þessa frv., að það skynsamlegt sé, eins og nú standa mál, að fela Kjaradómi að annast ákvarðanir um þessar hækkanir. Alþ. getur síðan, ef það þykir ekki gefast vel, hvenær sem er tekið ákvörðun um það annað hvort að taka þessi mál aftur sjálft eða koma þeim fyrir með einhverjum öðrum hætti sem í ljósi breyttra aðstæðna kann að þykja æskilegur. Hér er auðvitað ekki um neitt valdaafsal að ræða, eins og menn hafa sagt og ég hygg af misskilningi, heldur hitt, að um sinn komum við þessu máli nokkuð öðruvísi fyrir.

Auðvitað er það skoðun flm. þessa frv., eins og ég hygg allra sem hér hafa tekið til máls, að eðlilegt sé að þm. hafi góð laun, eins og það er kallað, og umfram allt að þeir séu efnalega sjálfstæðir. Það segir sig sjálft að slíkt er ævinlega nauðsynlegt. Eins er með þá, sem búsettir eru fyrir utan Stór-Reykjavíkursvæðið og þurfa jafnvel að setja upp annað heimili og hafa mikinn ferðakostnað, að auðvitað er sjálfsagt að þetta sé greitt og menn hafi ekki efnahagslegan skaða af því að sitja á Alþ. Sá, sem býr á Langanesi, á að hafa nákvæmlega sama rétt efnahagslega og að öðru leyti til að sitja á þingi eins og hinn, sem býr kannske rétt hjá þinghúsinu.

En þetta er óvart ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá, að þó að margar af þessum hliðargreiðslum, sem svo hafa verið kallaðar, séu sjálfsagðar, þá eru aðrar sem orka tvímælis. Það orkar t.a.m. tvímælis að menn búsettir í Kópavogi og á Seltjarnarnesi njóti sérstakra dagpeningagreiðslna, eins og hér hefur verið vikið að. Það orkar líka tvímælis að há laun ráðh. bætist ofan á laun þm. Ég er ekki að fella dóm að svo stöddu, ég er að segja það eitt, að þetta orkar tvímælis. Það orkar tvímælis að menn, þó að búsettir séu úti á landi einhvers staðar, en eiga íbúðir í Reykjavík, fái engu að síður greiddan húsaleigukostnað. Svona getum við haldið áfram að telja. Ég er ekki að fella efnisdóma í þessum efnum, ég er aðeins að segja að það er Alþ. fyrir bestu að um þessi mál leiki ekki hin minnsta tortryggni, og það er kjarni málsins.

Hér hafa skattamál þm. verið gerð að umræðuefni. Ég hygg að þegar almennt er um þessi mál fjallað, þá sé ekki leyft í samfélaginu að vinnuveitandi og launamaður komi sér saman um að greiða tiltekna upphæð á mánuði, 600 þús. kannske, helmingur af henni sé laun, sé þess vegna gefið upp til skatts, hinn helmingurinn gangi í kostnað. Með dóm í þessu efni fara skattayfirvöld. Þess ber líka að gæta, að þessar hliðargreiðslur, sem svo hafa verið kallaðar, eru ekki fyrir útlagðan kostnað gegn nótum, heldur eru það fastar greiðslur sem koma með föstu og reglulegu millibili og að því leyti eru þær skyldari launum heldur en útlögðum kostnaði sem kæmi gagnvart nótum. Öll almenn ákvæði um skattamál í landinu hafa verið í þá veru, að slíkt skuli gefa upp til skatts, færa inn og út, en endanlegt ákvörðunarvald sé hjá skattayfirvöldum. Kjarni málsins er einfaldlega sá, að slíkar reglur gilda fyrir Pétur eða Pál. Vinnuveitendur og launþegi geta ekki tveir komið sér saman um þetta, og slíkar reglur ættu einnig að gilda um Alþingi. Gagnrýni hefur beinst að þessu og það hefur verið gagnrýnt með réttu. Það eiga að gilda sömu reglur um alþm. og samskipti þeirra við kannske sjálfa sig, vinnuveitendur sína, eins og gilda um samskipti vinnuveitenda og launþega úti í hinu stóra samfélagi. Á þessari gagnrýni er því hægt að standa fyllilega, og þetta er einnig liður í því, að Alþ. á að vera umfram allt og 100% hafið yfir grun í þessum efnum.

Ég fagna því, að hv. þm. Halldór E. Sigurðsson hefur lýst yfir stuðningi við þetta frv. Hann rakti raunar lauga raunasögu um kjaramál þm. Sumt í því er efalítið rétt, annað ekki. Sama gerði hv. þm. Lúðvík Jósepsson sem lýsti sig andvígan þessu frv. Hann rakti langa raunasögu um kjaramál þm. Ég hygg líka að eins sé farið um það, að sumt í því sé rétt, annað ekki, m.a. vegna þess að kjör manna eru mismunandi, líka vegna búsetu. Til þessa hefur ekki nærri nægjanlegt tillit verið tekið í þeim reglum sem hingað til hafa gilt um þessi mál.

Ég endurtek það, sem ég tel að eigi að vera aðalatriði þegar nýskipan þessara mála kemst á, miðað við þá réttmætu gagnrýni sem undanfarin ár hefur verið haldið á lofti um þessi mál. Í fyrsta lagi er eðlilegt að þessi mál verði flutt í Kjaradóm og út á það gengur þetta frv. Í öðru lagi tel ég að setja þurfi ný rammalög sem m.a. taki tillit til margs af því sem fram hefur komið í umr. um þetta frv. En í þriðja lagi, og það tel ég kannske skipta mestu máli, fari þessar ákvarðanir alfarið fram fyrir opnum tjöldum. Formaður þfkn., hv. þm. Garðar Sigurðsson, spurði hvort svo hefði ekki alltaf verið. Svo var ekki. Ég minnist þess þegar við sem nú erum þm., Eiður Guðnason og ég, vorum með sjónvarpsþátt fyrir þremur árum, að ég hygg, um þessi mál, þá hafði ekki farið fram umr. af því tagi sem þó fór fram þá, enda leynir sér ekki ef flett er í gegnum bók þfkn. og litið í bókun þfkn. um þessi tilmæli sjónvarpsmanna á þeim tíma, þá er augljóst að nm. voru óvanir því að þurfa að gera grein fyrir kjörum sínum á opinberum vettvangi. Og ég man eftir því, að það stóð mikið til og tók langan tíma að koma þessum sjónvarpsþætti á toppinn. Það nánast þurfti að draga svörin með töngum út úr þáv. hv. formanni, Sverri Hermannssyni, og fleirum. Það tókst og um þetta hófst umræða í samfélaginu, umræða um mál sem þá hafði of lengi legið í þagnargildi. Enda sést það ef flett er í gegnum fundagerðarbók þfkn., að kjörin 1974, svo að dæmi séu tekin, voru um margt miklu betri en þau eru í dag. Ég skal nefna eitt dæmi, að 1974, — og vitna til þess sem ég gerði í morgun að fletta í gegnum þessa fundargerðabók, — fyrir húsaleigu voru þá greiddar 23 þús. kr. á mánuði. Í dag eru það 55 þús. kr. og þó er nýafstaðin hækkun. Það segir sig sjálft, að ef verðlagi hefði verið fylgt, þá hefði þessi greiðsla hækkað miklu meira.

Nú er ég ekki að leggja á það dóm, hvað sé rétt eða rangt í þessum efnum, hvort talan færð til verðlagsins í dag er réttari 1974 en hún er 1978. Ég er aðeins að segja það, að gagnrýnin hefur augljóslega haft áhrif, að sumu leyti til góðs, þetta hefur verið opnað, — kannske til ills að því leyti, að auðvitað eiga menn að fá greiddan réttan kostnað t.d. fyrir húsnæðismál. En kjarni málsins er sá, að Alþ. á ekki að þurfa að eyða tíma sínum í umr. um þessi mál. Það er bæði einfaldara og sennilega réttlátara líka að sanngjarn og traustverður aðili utan þingsins annist þessi mál. Ef hann misnotar vald sitt með einhverjum hætti, þá getur Alþ. hvenær sem er breytt því aftur. Það er inntak þessa frv. og til þess er það fram lagt.