22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

42. mál, upplýsingaskylda banka

Flm (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 45 leyft mér að leggja fram frv. um upplýsingaskyldu banka og annarra lánastofnana. Það er rétt að taka það fram í byrjun, að frv. sama efnis var lagt fram á síðasta Alþ., en varð þá ekki útrætt, og flm. þess var þá núv. hæstv. menntmrh. Ragnar Arnalds.

Frv. er í fjórum greinum, og ég vil leyfa mér að lesa í meginatriðum þessar frv.-greinar. Í 1. gr. segir:

„Tilgangur laga þessara er að tryggja að almenningur eigi þess kost að kynna sér og hafa eftirlit með útlánum lánastofnana.“

Í 2. gr. segir:

„Bankar, sparisjóðir, fjárfestingarlánasjóðir og aðrar lánastofnanir skulu birta opinberlega lista yfir öll veðlán, sem veitt hafa verið á liðnu ári, einnig hvers konar útlán, sem nema hærri fjárhæð en 4 millj. kr. og veitt eru til lengri tíma en tveggja ára, ásamt upplýsingum um nöfn lántakenda, lánskjör og yfirlýstan tilgang lánanna. Þá skal einnig birta lista yfir einstaklinga, félög og stofnanir, sem skulda við áramót meira en 6 millj. kr. í viðkomandi stofnun.

Upphæðir þær, sem nefndar eru hér í greininni, skulu breytast árlega í réttu hlutfalli við vísitölu byggingarkostnaðar 1. jan. 1979.“

Og í 3. gr. frv. segir á þessa leið:

„Útlánalistinn skal lagður fram í afgreiðslu stofnunarinnar áður en liðinn er fyrsti mánuður næsta árs og afhentur hverjum sem vill gegn hæfilegri þóknun, sem svarar til kostnaðar við prentun.“

Það er ljóst af þeim frvgr., sem ég hef hér lesið, að megintilgangurinn með flutningi þessa frv. er að sjálfsögðu sá að gefa öllum almenningi kost á því að fylgjast með allri meiri háttar útlánastarfsemi í landinu. Ekki er nema eðlilegt að menn spyrja: Er nokkur ástæða til að haga þessu svo? Um það vil ég segja, að í okkar þjóðfélagi, þar sem geisað hefur jafnmikil verðbólga um langt skeið eins og öllum er kunnugt, er óhætt að slá því föstu, að það sé vart finnanleg í þjóðfélaginu eftirsóttari fyrirgreiðsla heldur en einmitt sú að fá í hendur eins mikið lánsfé hjá lánastofnunum og mögulegt er. Þetta á við bæði um fyrirtæki og einnig um einstaklinga.

Það fór hér fram fyrir ekki löngu í þessari hv. d. mikil umr. og löng um vaxtamál. Var vakin athygli á því í þeim umr., hvernig hagnaður verður oft á tíðum til í okkar verðbólguþjóðfélagi, þegar aðilar eiga þess kost að mynda meiri háttar eignir með því að afla til þess lánsfé sem síðan er greitt kannske svo og svo löngu síðar með langtum verðminni krónum. Menn hefur greint á um það, eins og kom fram í umr. um vaxtamálin um daginn, hvort hugmyndir um hækkun vaxta væru líklegar til þess að draga úr verðbólgunni. Þar sýnist sitt hverjum, eins og þá kom fram. Ég hygg hins vegar að tæplega geti verið um það mikill ágreiningur, að ein helsta leiðin í þjóðfélagi okkar til þess að hagnast og mynda meiri háttar eignir sé sú að draga saman lánsfé frá lánastofnunum og nota það síðan til þess að byggja upp eignir sem halda sínu fulla verðgildi á sama tíma og krónan rýrnar. Og það er við þessar þjóðfélagsaðstæður, sem það hlýtur að vera áhugavert að menn eigi þess almennt kost að fá upplýsingar um hverjir njóti lánafyrirgreiðslu í stórum stíl, hvaða aðilar í þjóðfélaginu það séu. Og enda þótt ég vilji leyfa mér að gera ráð fyrir því, að í flestum tilvikum reyni stjórnendur lánastofnana, bankastjórar og aðrir slíkir, að gera það eitt í þessum efnum sem þeir telja rétt og þeirra samviska býður þeim á hverjum tíma varðandi það hverjum þeir veita lán og hverjum ekki, þá er það engu að síður svo, að þarna er um svo mikilvæga fyrirgreiðslu að ræða, að það er full ástæða til að veita stjórnendum lánastofnana af þjóðfélagsins hálfu það aðhald sem í því felst, að þeim sé gert skylt að leggja fram lista yfir allar meiri háttar lánveitingar.

Það segir á einum stað í þeirri grg., sem frv. fylgir, eitthvað á þá leið, að það verði tæplega séð að nokkur einstök lánveiting geti átt rétt á sér nema því aðeins að hún þoli dagsins ljós. Sérstök ástæða er til að minna á það, að þegar Framkvæmdastofnun ríkisins var sett á fót fyrir nokkrum árum, var það leitt í lög, að allar lánveitingar á hennar vegum skyldu vera opinberar. Henni var gert það að skyldu og þeim sjóðum, sem undir Framkvæmdastofnunina heyra, að birta árlega lista yfir allar lánveitingar stofnunarinnar og sjóða hennar á viðkomandi ári. Ég held, að það sé alveg tvímælalaust, að þarna hafi verið stigið jákvætt skref, og ég kannast ekki við að þessu hafi fylgt nein þau óþægindi eða vandkvæði sem ástæða sé til að kvarta yfir, heldur þvert á móti. Og ég sé ekki heldur, að það séu nein gild rök fyrir því, að eitt eigi að gilda í þessum efnum um Framkvæmdastofnun ríkisins og þá sjóði, sem þar er stýrt, en annað um aðra lánastarfsemi í landinu. Mér er að sjálfsögðu kunnugt um það, að ýmsir aðilar í bankakerfinu telja slíka skýrslubirtingu um lánveitingar ekki heppilega og hafa vafalaust eitt og annað fram að færa í þeim efnum. Engu að síður get ég ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri, sem kemur fram í þessu frv., að það væri til bóta að hafa þetta opið.

Það er rétt að undirstrika, að samt sem áður er hér ekki verið að gera ráð fyrir að tínd sé til opinberrar birtingar hver einasta smálánveiting, við skulum segja minni háttar víxlar eða vaxtaaukalán sem einstaklingar fá. Slíkt yrði trúlega allmikil skriffinnska og hefur ekki mikið gildi. Hér er miðað við það, að nýjar lánveitingar, sem nái 4 millj. kr., skuli fara á þann lista, sem birtur er, og sömuleiðis skuldir við áramót, sem nema hærri upphæð en 6 millj. kr. Það má að sjálfsögðu um það deila, hvort eigi að miða endilega við þessar tölur eða einhverjar aðrar. Þar er engin ein tala heilög. Hitt þótti mér eftir atvikum eðlilegt, að láta þessar tölur vera með þeim hætti sem frv. ber með sér.

Það er rétt að taka það fram, að samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að sé hins vegar um veðlán að ræða, þá séu birtar upplýsingar um þau öll. Frv. gerir, eins og kom fram þegar ég fór yfir frvgr., ráð fyrir að þær tölur, sem þarna er miðað við, breytist árlega í réttu hlutfalli við vísitölu byggingarkostnaðar.

Ekki væri undarlegt að menn íhuguðu það, hvort ástæða kynni að vera til þess kannske ekkert síður að birta hér upplýsingar um bankainnstæður. Um það vil ég aðeins segja það á þessu stigi málsins, að hér á landi er í raun og veru miklu meiri ástæða til að birta upplýsingar um útlánin, vegna þess að þar er, eins og ég nefndi áðan, um að ræða mjög eftirsótta fyrirgreiðslu. Hins vegar tel ég að það sé að sjálfsögðu mjög æskilegt og ég vil segja nauðsynlegt að skattayfirvöld hafi fullan aðgang að upplýsingum um innstæður og vaxtagreiðslur af innstæðum.

Ég tók eftir því fyrir einu ári eða svo, eða rúmlega það, að í þessum efnum, varðandi upplýsingaskyldu banka og lánastofnana, var gerð nokkur breyting í einu nágrannaríkja okkar, Danmörku. Sú breyting, sem þar var gerð, fól það í sér, að þar voru sett lög sem kváðu á um það, að öllum bönkum og lánastofnunum væri skylt að afhenda skattayfirvöldum upplýsingar um allar bankainnstæður og allar vaxtagreiðslur. Áður mun þetta hafa verið svo þar, að skattayfirvöld gátu haft möguleika á að hafa meiri eða minni aðgang að upplýsingum um þessi efni, ef þan leituðu sérstaklega eftir því í sambandi við mál einhvers einstaks aðila. En breytingin var sú, að þarna var kveðið á um það í lögum, að lánastofnunum væri beinlínis skylt að afhenda skattayfirvöldum lista yfir allar slíkar bankainnstæður og allar vaxtagreiðslur, sem er ærið mikil breyting. Ég læt mér detta í hug, að ef við í okkar þjóðfélagi byggjum við álíka verðbólgustig og Danir, þá mætti segja að það væri eðlilegri byrjun að snúa sér að innstæðunum í þessum efnum, eins og þar var gert. En með tilliti til þess, hvað fast er sótt á um lánveitingar þegar verðbólgan er slík sem hér, þá taldi ég eðlilegra að leggja fremur fram frv. þess efnis sem hér hefur verið kynnt og er nú til umr.

Hins vegar fer það ekki milli mála, að frv. þetta miðar ekki aðeins við það, aðskattayfirvöld fái allar upplýsingar, heldur er gert ráð fyrir að allur almenningur eigi kost á að fá vitneskju um lánastarfsemina. Það er nú svo, að sú venja hefur ríkt og af mörgum þótt eðlileg, að ærin leynd ríkti innan lánastofnana, banka og annarra slíkra, og þar hefur verið ráð fyrir því gert, að margvísleg trúnaðarmál væru uppi sem ekki væru á annarra vitorði en stjórnar viðkomandi stofnunar og viðkomandi viðskiptamanns. Ég hygg að ýmislegt megi færa fram því til rökstuðnings, að á þennan hátt þurfi viðskiptin að vera. Sitthvað væri hægt að nefna því til rökstuðnings. En á móti kemur það, hvort ekki sé ástæða til að gera okkar viðskiptalíf almennt og fyrirtækjarekstur opnari, að almenningur hafi að því greiðari aðgang sem þarna fer fram í okkar viðskiptalífi, og að gera bönkum og öðrum lánastofnunum skylt að veita upplýsingar um alla meiri háttar lánastarfsemi, það lít ég á sem lið í slíkri viðleitni. Ég held að viðleitni í þá átt að draga fram sem allra flestar upplýsingar um hreyfingar fjármagnsins í viðskiptalífinu almennt sé jákvæð og eigi fullan rétt á sér.

Ég vil minna á það, áður en ég lýk mínu máli, að fyrir þinginu liggur fsp. til hæstv. viðskrh. frá hv. þm. Stefáni Jónssyni um nafnlausar bankabækur í okkar bankakerfi. Þar er spurt um hve margar slíkar bækur sé að ræða og hversu háar upphæðir. Þarna er um svolítið skylt mál að ræða því sem ég er hér að fjalla um, og þar er einn angi af þeirri hulu sem hvílt hefur yfir einu og öðru í sambandi við okkar bankastarfsemi. Ég hef spurst fyrir um það í sambandi við þessar nafnlausu bankabækur, hvort slíkir siðir tíðkist enn á öðrum Norðurlöndum, og þær upplýsingar, sem ég hef fengið í þeim efnum, eru að svo sé alls ekki, það sé orðið einsdæmi, sé miðað við Norðurlönd, að viðhalda þessum nafnlausu bókum. Ég nefni þetta hér vegna þess að þarna er um mjög skylt mál þessu að ræða. Hvort tveggja lýtur að þeirri svokölluðu bankaleynd sem frv. það, sem ég hef hér gert grein fyrir, miðar að því að draga úr.

Herra forseti. Ég hef lokíð mínu máli.