22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

42. mál, upplýsingaskylda banka

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hvar eru nú allir kratarnir? Ég get nú ekki beinlínis sagt að ég sakni þeirra, en ég tek eftir því og vek á því athygli, að nú eru þeir ekki við. Það er að vissu leyti skaði, því að ég hefði haft ánægju af því ef þeir heyrðu mál mitt. En allt um það, ég vil ekki tefja framgang þessa máls og mun nú treysta mér til þess að mæla hér fáein orð þó að þeir séu ekki viðstaddir.

Ég kem hér til þess að lýsa stuðningi mínum við efni þessa frv. Ég get reyndar ekki látið hjá líða að velta vöngum yfir formi þess og uppsetningu. Mér finnst hún ofurlítið óvenjuleg. En það getur skeð að þetta sé þinglegt og falli vel að lögbókinni þegar þar að kemur. En það mætti líka hugsanlega fínpússa í nefnd. Það er einnig smekksatriði við hvaða tölur er miðað í frv. eins og þessu, og ég gæti ímyndað mér að það væri hugsanlegt að nefna einhverjar aðrar tölur, annaðhvort hærri eða lægri, og ná þó fram þeim kostum og því aðhaldi sem þetta frv. felur í sér. Ég er ekki alveg sáttur við allan tón í grg., en samt sem áður er ég hálfundrandi á neikvæðum móttökum síðasta ræðumanns við frv., hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar, sem einnig er bankaráðsmaður. Mér fannst hann líta svo á að þarna væri verið að birta einhverja sakaskrá eða gera lánþegum eitthvert óskaplegt ógagn, ljóstra upp einhverjum stórkostlegum leyndarmálum sem hættulegt væri fyrir þá að kæmust upp. Ég lít ekki þannig á þetta mál. Ég lít svo á að þetta eigi ekki að vera hinum almenna borgara eða hinum heiðarlega viðskiptamanni að neinu leyti til tjóns. Ég lít svo á að lánveitingar eigi ekkert að vera fremur en önnur viðskipti leyndarmál að einu eða neinu leyti, vegna þess að lánveitingar eru sem betur fer flestallar í okkar þjóðfélagi eðlileg viðskipti. Auk þess mundi birting á yfirliti eins og þarna er gert ráð fyrir verða til þess að slúðurkerlingar þjóðfélagsins hefðu handbær gögn svo að þær gætu farið með rétt mál og yrðu ekki óviljandi til þess að skrökva, og Don Quijotar vorir og sjónumhryggir riddarar þyrftu ekki að berjast við vindmyllur óvart.

Hvað varðar inneignir og skrár yfir þær, þá hygg ég að það kynni í sumum tilfellum e.t.v. að fæla menn frá að safna sparifé ef verið væri að gera sérstakt opinbert veður út af því að þeir ættu innistæður, og eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram er þjóðfélaginu auðvitað mikil nauðsyn að einhverjir fáist til þess að leggja sparifé sitt í banka.

En út af ummælum, sem hér voru viðhöfð, hef ég það fyrir satt, að það sé þannig í þjóðfélagi okkar, að ef skattayfirvöld æskja þess um einhvern tiltekinn mann, að viðskiptastofnanir gefi upp innistæður hans og vaxtagreiðslur, þá sé það gert.

Hvað varðar nafnleynd bankabóka sem hér hefur komið á dagskrá, þá held ég að það ætti að taka fyrir hana. Mér finnst að hún eigi ekki rétt á sér og eigi að vera óþörf. Ég get ímyndað mér að hugsanlegt væri að koma því svo fyrir að gefa mönnum einhvern umþóttunartíma. Það þarf að taka fyrir þetta með löggjöf, en gefa mönnum einhvern umþóttunartíma til þess að koma bókum sínum á nafn og skrá þær eins og eðlilegar bækur. Eftir einhvern ákveðinn tíma mætti hugsa sér að gera innistæðurnar upptækar til ríkissjóðs ef eitthvað stæði eftir.

Ég get ekki sagt að mér finnist þetta þurfa að vera leyndarmál, og ef heiðarlega er í pottinn búið er þetta ekkert leyndarmál.

Það er kannske rétt að rifja það upp hér og nú, að tekjur bænda t.d. í Austur-Húnavatnssýslu eru ekkert leyndarmál. Þeir hafa samþykkt það sjálfir að gefa út skrá á vegum Sölufélags Austur-Húnvetninga þar sem tekið er fram hvað hver bóndi leggur inn til sölumeðferðar af sláturgripum og af mjólk, bæði tölur og magn, jafnframt hvað hann hefur sett á fóður, þannig að menn gefa líka upp opinberlega hvernig þeir fara með skepnur sínar, og af þessu fæst talsvert góð mynd af búskap þeirra. Það vantar að vísu í þessa skrá hvað þeir eyða í þessa gripi, hvað þeir eiga eftir sem nettó-tekjur, enda væri það nokkuð mikil og flókin skrifstofuvinna sem fylgdi því að koma því öllu saman í lista. En okkur finnst sjálfsagt mál að vera ekkert að pukrast með það, hvað við leggjum inn, og vera ekkert að pukrast með það, hvernig bú okkar er fram gengið eða hverjir búskaparhættir okkar eru.

Það verður ekki ofsögum af því sagt hér í d. hvers lags Fyrirmyndarstofnun Framkvæmdasjóður er og Byggðarsjóður. Stjórn hans, sem sumir þm. hafa dundað sér við að tala um að væri pólitísk og spillt og stundaði óeðlilegar lánveitingar, hefur alla tíð birt lánveitingar. Sumar hafa verið ofurlítið gagnrýndar, en aðrar ekki. Ef ég ætti að fara yfir þessar lánveitingar Byggðasjóðs og gagnrýna þær í einstökum atriðum, þá man ég ekki eftir nema örfáum sem ég treysti mér til að nefna í gagnrýnisskyni, og hef ég þó lesið nokkuð þessar skrár. Fremur mundi ég gagnrýna það sem ekki hefur verið lánað til. En eins og menn vita hefur hlutur landbúnaðar í Byggðasjóði verið ákaflega lítill, og einn þátturinn í erfiðleikum landbúnaðarins er að hann hefur verið sniðgenginn og ekki átt kost á að fá sinn skerf af því ódýra fjármagni sem Byggðasjóður hefur haft með að gera. Að vísu hefur þetta ofurlítið lagast á seinni árum og miðar hænufet fram lánamálum landbúnaðarins, en raunar allt of skammt. En Byggðasjóði og Framkvæmdasjóði verður þá ekki heldur kennt um offjárfestingu í landbúnaði á Íslandi, eins og sumir vilja slá sig til riddara með því að tala um.