23.11.1978
Sameinað þing: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. einn og átta frá Alþfl. og Alþb. hafa flutt till. til þál. á þskj. 18 um sérstakt gjald á veiðileyfi útlendinga, sem veiða í íslenskum ám. Umr. um þessa till. hófst fyrir réttum þrem vikum og er umr. því nokkuð slitin í sundur og erfiðara um vik að fella saman í heild svör við ræðu frsm. og aðra þátttöku í umr. heldur en ef hún færi fram samfellt.

Till. þessi kann ýmsum að virðast sakleysisleg og ekki mikils virði við fyrstu sýn. En sé betur að gáð er hún að ýmsu leyti varhugaverð og að mér virðist stefna í ranga átt. Tillagan virðist í fyrsta lagi byggð á nokkuð einhliða og yfirborðslegri athugun þessa máls frá einum sjónarhóli, ímynduðum sjónarhóli veiðimannsins, hins íslenska leigutaka, án þess að hugsað sé um hagsmuni veiðiréttareigenda eða þess gætt, hverjar afleiðingar kynnu að verða fyrir veiðimálin í heild ef till. væri samþykkt. Á hinn bóginn verður því ekki varist að sá grunur læðist að manni, að till. sé í raun afsprengi þess pólitíska, e.t.v. kratíska hugsunarháttar, sem illa þolir frjálsræði í viðskiptum, og kannske allra síst að þeir fasteignaeigendur, sem hér er um að ræða, veiðiréttareigendur í landinu, geti leigt hlunnindi sín þeim, sem þeim best líkar, og haft af því nokkurn hagnað. Till. ætti e.t.v. að bera yfirskriftina: „Till. til þál. um skattlagningu og takmarkanir á ráðstöfunarrétti veiðiréttareigenda á eignum sínum.“

Till. þessi fjallar um tvennt: Í fyrsta lagi um að taka sérstakt gjald eða skatt af veiðileyfum útlendinga sem veiða í íslenskum ám. Þetta er aðalatriði till. og notað sem aðferð til þess að ná megintilgangi hennar, sem virðist vera að reyna að koma í veg fyrir leigu á laxveiðiám og laxveiðileyfum til útlendra manna. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að fjármunum þeim, sem nást með þessari skattlagningu, verði varið til tilrauna í fiskrækt. Þetta virðist vera algert aukaatriði till., vegna þess að ef megintilgangur hennar næst fellur gjaldtakan niður og ekkert fé verður til ráðstöfunar til fiskræktartilrauna. Hér er um að ræða þversögn í þessari till. og hefur verið bent á það í umr. um hana áður.

Í grg. með þessari þáltill. eru settar fram ýmsar fullyrðingar, — fullyrðingar sem hv. 1. flm. málsins reyndi að styðja nokkrum rökum í sinni framsöguræðu. Áður en horfið er að því að ræða þessar fullyrðingar sérstaklega er e.t.v. rétt að reyna að gera sér einhverja grein fyrir því, hvernig við viljum haga samskiptum okkar við útlenda menn. Er það meining okkar Íslendinga að loka landinu fyrir erlendum ferðamönnum? Viljum við draga sem mest úr samskiptum við aðrar þjóðir, lifa einangraðir í landi okkar á sviði ferðamála, á því sviði að nýta hlunnindi eða á annan hátt? Ég skal ekki fara að flækja inn í þetta þeim þætti þessa máls sem snertir viðskipti almennt. Mætti það raunar kallast of langsótt, slíkir hagsmunir sem bundnir eru viðskiptum okkar við aðrar þjóðir.

Ég tel að í samskiptum við útlendinga og við erlendar þjóðir varðandi ferðamál á Íslandi þurfi að ýmsu leyti að hafa nokkra varúð, hafa nokkra gát á. Það er ekki vafamál, að að ýmsu leyti má sumt betur fara í sambandi við ferðamál útlendinga í okkar landi. Ég hygg þó að það sé samdóma álit þeirra, sem til þessara mála þekkja, að þeir erlendir ferðamenn, sem hingað koma til þess að stunda veiðar í íslenskum ám, séu einhver besti hluti þeirra erlendu ferðamanna sem sækja þetta land heim. Þá á ég við besti hlutinn fyrir okkur Íslendinga sjálfa og fer ekki í manngreinarálit hvað þetta snertir að öðru leyti. Hér er um menn að tefla sem skila verulegum tekjum í gjaldeyri til okkar þjóðar. Hér er um menn að tefla sem ekki ganga ósæmilega um íslenska ferðamannastaði eða íslenska náttúru. Yfirleitt er hér um menn að tefla sem umgangast íslenska náttúru, umgangast íslenskar veiðiár með miklum sóma. Vel má vera að undantekningar finnist frá þessari reglu, en ég hygg að þær séu fáar. Ég tel að það sé í sjálfu sér ekki af þessum sökum nein ástæða til þess að torvelda að útlendingar geti veitt í íslenskum veiðiám.

Þá er það aftur hin hlið þessa máls, hvort hér sé um slíka ásókn útlendinga að ræða í íslenskar veiðiár að verði til að hindra það að Íslendingar sjálfir geti nýtt þessi hlunnindi sér til ánægju og hagsbóta eins og vera þyrfti. Þetta atriði málsins kom meir til tals í þeirri umr. sem hófst fyrir þremur vikum og e.t.v. ekki ástæða til að fara langt út í það frekar. Hins vegar kom þar fram, að verulegur hluti af leyfðum stangarveiðidögum í íslenskum veiðiám er ekki notaður. Það kom fram, að af tæplega 33 þús. stangarveiðidögum í íslenskum laxveiðiám, sem Veiðimálastofnunin hefur leyft að notaðir væru, hafa Íslendingar notað um 19 þús. veiðidaga, útlendingar, eftir því sem næst verður komist, um 5 þús. veiðidaga, og ónotaðir eru 8900 veiðidagar, sumpart vegna þess að veiðiréttareigendur sjálfir hafa kosið að friða árnar hluta af þeim tíma sem leyfilegur er. Þessar upplýsingar benda ekki í þá átt sem fullyrt er í grg. með þessari þáltill. og í ræðu hv. 1. flm., Árna Gunnarssonar, að veiðar útlendinga í íslenskum laxveiðiám torveldi mjög eða hindri það að Íslendingar sjálfir geti nýtt þessi hlunnindi í landi sínu.

Það er fullyrt að Íslendingar hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að standast þá samkeppni sem þeir verða fyrir af útlendum veiðimönnum á þessu sviði. Þessar fullyrðingar eru að mínum dómi ákaflega hæpnar og vafasamar. Það byggi ég á því, að ég hef nokkurn kunnugleika á þessum málum af eigin raun. Ég hef átt sæti í stjórn eins veiðifélags í allmörg ár. Ég hef staðið að leigu á veiðiám til útlendra manna, og ég hef staðið að útboðum og síðan ákvörðunum í sambandi við þau boð sem komið hafa. Ég hef orðið vitni að því, að útlendingar hafa verið boðnir frá, en ekki hið gagnstæða, þannig að ég hygg að þarna hallist lítið á. Það er hins vegar rétt, að í ýmsum tilvikum muni útlendingar bjóða þátt í allra bestu veiðidagana, allra besta tíma ársins í sumum bestu veiðiánum. Þó var til þess vitnað hér í umr. fyrir þrem vikum, að Íslendingar sjálfir eru fúsir til þess að greiða háar fjárhæðir fyrir veiði í íslenskum ám, jafnvel allt að 100 þús. kr. fyrir veiðidaginn í bestu veiðiánum, og fá þá daga færri en vilja að því er virðist. Því er ég nákunnugur, þannig að þar virðist enginn hörgull á, þó útlendingar komi hvergi nærri. Fullyrðingar af þessu tagi af hálfu manna, sem ekki þekkja þessi mál af eigin raun, eru því nokkuð mikið út í bláinn.

Nú eru hér enn fullyrðingar um það, að gjaldeyrisskil vegna veiða útlendinga í íslenskum veiðiám séu ekki í lagi. Um þetta vil ég ekki á nokkurn hátt fullyrða, og það er sjálfsagt, ef einhverjar grunsemdir eru um að gjaldeyrisskil séu ekki lögum samkvæmt, að þá sé það rannsakað af réttum yfirvöldum. Fulltrúar veiðiréttareigenda hafa lagt á það mikla áherslu, að engin tortryggni væri í sambandi við þau mál, og hafa ekkert að fela. Þess vegna er það veiðiréttareigendum síður en svo á móti skapi að allt hið rétta sé upplýst í þeim málum og hvað eina í sambandi við gjaldeyrisskil af hálfu útlendra veiðimanna sé lögum samkv. og í lagi. Á þetta vil ég leggja áherslu.

Enn er hér að finna dylgjur, bæði í grg. og í ræðu hv. 1. flm., um lögbrot af hálfu íslenskra veiðiréttareigenda, lögbrot í sambandi við samninga við útlendinga. Það var, meira að segja nokkuð nærri mér höggvið í ræðu 1. flm., Árna Gunnarssonar, þar sem hann dylgjar um að það kunni að hafa verið gerður ólöglegur samningur um Vatnsdalsá á sinni tíð. Ég verð nú að segja það, að það hefði verið stórmannlegra af þessum nýju siðbótarmönnum, hv. þm. einum og átta sem flytja þessa till., að höfða mál til þess að fá skorið úr því, hvort um löglegan samning eða ekki væri að ræða, heldur en að dylgja um lögbrot í þskj. eða úr þessum ræðustól. Ég kann því ákaflega illa að slíkar dylgjur séu á borð bornar sem ekki er hægt að fá skorið úr, hvort séu réttar eða réttar ekki, nema fyrir dómstólum. Og ef hv. flm. þessa máls vilja halda slíku áfram, þá óska ég eftir að það sé gert fyrir dómstólum landsins, en ekki dylgjað um það í þskj. eða úr þessum ræðustól.

Ég átti hlut að þeim samningi sem gerður var við John Ashley Cooper á sínum tíma varðandi Vatnsdalsá, og sá samningur hlaut staðfestingu Stjórnarráðs Íslands. Ég á ekki von á því, að þar hafi verið staðfestur samningur sem hafi strítt gegn íslenskum lögum.

Þótt hér hafi verið vitnað til tiltekinnar grg. eftir einn löglærðan mann, þá er slík grg. engin sönnun í slíku máli þar sem hann lætur liggja að tilteknum hlutum og allsendis óviðeigandi.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að tíunda mikið af því sem sagt var í þessum umr. fyrir þrem vikum. Það er e.t.v. rétt að rifja aðeins upp nokkur atriði af því sem þar kom fram.

Það hefur verið sagt, að gjaldeyristekjur vegna veiða útlendinga í íslenskum veiðiám á síðasta ári muni hafa numið um 700 millj. kr. Það kom þar einnig fram hjá hv. 1. flm., að hann væri ekki viss um að þessi gjaldeyrir hefði allur skilað sér til banka. Eins og ég hef þegar komið að, tel ég eðlilegt að það sé rannsakað. Íslenskir veiðiréttareigendur vilja að hið sanna komi í ljós um það efni, og ég get tekið undir með hv. þm. Árna Gunnarssyni, að það sé athugað betur, og legg áherslu á að hið sanna komi í ljós hvað það snertir.

Það er hins vegar rétt að víkja að því nokkrum orðum, hvort þetta fyrirkomulag um veiðar útlendinga í íslenskum veiðiám hafi orðið til góðs eða ills, hvort það sé til góðs eða ills fyrir veiðimálin í landinu í heild að frjáls samskipti, frjáls leigumáti á þessum hlunnindum sé eða ekki. Mér er engin launung á því, að ég tel miklu varða að þessi hlunnindi séu áfram í eigu og umsjá bændanna sjálfra. Ég skal rökstyðja það nokkrum orðum, en aðeins víkja að því áður, að í ræðu hv. 1. flm. kom fram að hann taldi að eignarform, sem er í Bandaríkjunum og víðar, að ríkið eigi þessar fasteignir alfarið, væri kannske það hagkvæma og eðlilega. Hann hafði í frammi viðvaranir og dulbúnar hótanir í garð veiðiréttareigenda ef þeir yrðu ekki góðu börnin og upp væri tekin sú regla sem hann gerir hér að till. sinni í sambandi við sérstaka skattlagningu á útlendinga. Reynslan hefur sýnt að laxveiði í íslenskum ám hefur farið sívaxandi á undanförnum árum. Í tölum talið sést að á 5 árum, árin 1946–1950, veiddust að meðaltali 17 373 laxar á ári hér á landi. 5 ára meðaltal 1971–1975, 25 árum seinna, er 64 575 laxar, hefur þannig nærri fjórfaldast. Árið 1977 er talið að veiddir laxar í íslenskum ám hafi verið sem næst þessari tölu meðaltalsins 1971–1975, og 1978 er mikill meiri hluti af þessum laxi stangaveiddir laxar, og stangaveiddir laxar eru að verða æ meiri hluti af heildarveiðinni. Þetta sýnir að laxveiðin hefur farið sívaxandi og orðið vaxandi tekjulind fyrir þjóðarheildina, sumpart fyrir veiðiréttareigendur, enn þó fyrst og fremst fyrir þjóðarheildina, og að því ber auðvitað að stefna. Þetta sýnir þá um leið, að það skipulag, sem á þessum málum hefur verið, hefur a.m.k. ekki verið með öllu illt. Það hefur haft það í för með sér, að laxveiði hefur farið vaxandi, tekjurnar hafa farið vaxandi. Hvers vegna skyldi þetta hafa gerst? Að mínum dómi hefur það gerst vegna þess að meginhluti af þessum hlunnindum í landinu hefur verið í eigu bændanna sjálfra. Þeir hafa í flestum tilvikum bundist félagslegum samtökum um hvert vatnasvæði og nýtt það sér til hagsbóta, en þó jafnframt alltaf með það fyrir augum að reyna að bæta það, reyna að auka hlunnindin, bæta þau, auka verðmætin, gera tekjumöguleikana meiri. Þáttur í þessu er það að geta haft verulega samkeppni um laxveiðileyfin, þ. á m. af hálfu útlendinga. Ef sá þáttur væri burt numinn, þá má vera að tekjumöguleikarnir yrðu ekki eins miklir, hagnaðarvonin hyrfi eða stórminnkaði, og þá er mjög hætt við að veiðiréttareigendurnir mundu ekki sinna þessum málum af slíkri kostgæfni, ekki hafa eins mikla hvatningu til þess að auka og bæta þessi verðmæti. Þessa speki eiga kannske þeir hv. siðbótarþm. einn og átta frá Alþfl. og Alþb. erfitt með að skilja, en það verður þá að hafa það. En einhvern veginn fannst mér samt í umr. hér í gær, þegar rætt var um þingfararkaup, að sumir þessara hv. þm., sem höfðu jafnvel sem fréttamenn gagnrýnt kjör þm. og ýmsa kostnaðarliði, sem þeir fá greidda, meðan þeir voru og hétu fréttamenn, væru komnir allt í einu upp í þennan ræðustól og farnir að gerast merkisberar í kjarabaráttu alþm., sem mér hefur virst vera ókunn og ekki hafa sést fyrr á hinu háa Alþ. Kannske kann einhver þeirra skil á því, að hagnaðarvonin getur haft einhverja þýðingu í vissum tilvikum. En hvað um það.

Reynslan hefur sem sé sýnt að þetta fyrirkomulag hefur ekki reynst illa. Það má vera að það hefði mátt betur gera. Nú er það svo, að nokkrum fjárhæðum er varið af opinberri hálfu til fiskræktar í landinu. Þar er ekki um stórar fjárhæðir að tefla og mætti vera meira. En þó skal ég ekki mæla því mót, sem hv. 1. flm. þessa máls gerði að umtalsefni í sínu máli þegar hann flutti framsöguræðu, að veiðiárnar hefðu batnað fyrir tilverknað opinberra aðila, fyrir tilverknað ríkisins. Það er fjarri mér að ég vilji mótmæla slíku. Ýmsar aðgerðir opinberra aðila og stuðningur af hálfu ríkisins hafa orðið til góðs í þessum efnum og mátt í raun og veru vera meiri. Hins vegar tel ég að það, sem bændurnir sjálfir hafa aðhafst í þessum efnum, hafi verið enn þá þýðingarmeira, og þeir hafa sjálfir lagt fram miklu meiri fjármuni til þessara mála heldur en það sem gert hefur verið af hálfu opinberra aðila. Ég er ekki með nákvæmar upplýsingar um það, hve miklu veiðifélögin, þ.e. veiðiréttareigendur, hafa á undanförnum árum varið til fiskræktar í ám í landinu. En ég hef þó fengið hér skrá yfir allmörg veiðifélög, samtals 15, sem tekin eru af handahófi, og það er langt frá að það séu öll þau veiðifélög sem mynduð eru um bestu veiðiárnar. En þessi 15 veiðifélög hafa varið á árinu 1977 einungis til seiðakaupa 7 millj. 948.9 þús. kr. eða nærri 7 millj. 950 þús. kr. Auk þess verja þau til Fiskræktarsjóðs 2% af skírum tekjum sínum. Þetta er í sumum ánum meira en 1/3 af þeim tekjum sem sprottið hafa af leigu veiðiánna og í öðrum er það mjög mikið. Þetta er auðvitað misjafnt eftir einstökum veiðiám og sé ég ekki ástæðu til að fara að rekja það nákvæmlega. Ég get þó sagt t.d., vegna þess að hér situr hv. þm. Norðurl. e., að ein af þessum ám er Laxá í Aðaldal, þar sem á þessu ári var varið 2.2 millj. kr. til ræktunar. (StJ: Var þeim seiðum öllum sleppt í ána, í Laxá í Aðaldal?) Ég geri ekki ráð fyrir að stjórn þess veiðifélags hafi étið seiðin sjálf. (StJ: Hún seldi töluvert af þeim.) Kannske veit hv. þm. Stefán Jónsson betur um það. (StJ: Ég veit bara, að hv. þm. veit ekkert um þetta.) Vel má vera að hv. þm. Stefán Jónsson telji það blaður sem hér er sagt, en það er úr gögnum frá opinberri stofnun, og meðan hann afsannar ekki þau gögn ætti hann að tala í eigin ræðutíma. (StJ: Ég skal gera það.)

Ég tel að það, sem ég hef hér sagt, sanni það að veiðiréttareigendur, bændurnir sjálfir, hafi varið verulegum fjármunum til fiskræktar í íslenskum veiðiám á mörgum undanförnum árum, sums staðar, eins og ég sagði, sem svarar 1/3 af þeim tekjum sem af veiðinni spretta. Það er gert til þess að bæta þessi hlunnindi, auka þau og í þeirri von vitaskuld að fá meiri tekjur seinna. Væri nú að því horfið, eins og dulbúnar hótanir leyndust um í ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar, að taka þessi hlunnindi af bændum, gera þau að þjóðareign, og það er auðvitað ekkert nýtt þó að hv. þm. Árni Gunnarsson sé að láta liggja að slíku, sem hann gerði raunar ekki mjög ákveðið, því að hv. Flokksbræður hans hafa hér á Alþ. ár eftir ár flutt um það sérstakar till. En væri horfið að þeirri niðurstöðu, þá væri auðvitað ekki mikið kappsmál fyrir bændurna sjálfa, þá sem nú eru eigendur þessara verðmæta, að auka þau og bæta. Þar yrðu aðrir aðilar að koma til. Það væri þá flutt í hendur ríkisins og þá færi það væntanlega eftir því, hversu miklar fjárveitingar yrðu ákveðnar hverju sinni. Ég segi það fyrir mitt leyti, að ég hef ekki trú á því, að það yrði gert betur með þeim hætti en nú er.

Hv. þm. Árni Gunnarsson sagði í sinni framsöguræðu, — ég get lesið það hér orðrétt af því að búið er að prenta ræðuna — með leyfi hæstv. forseta:

„Allir, sem hafa áhuga á þessari íþrótt án tillits til efnahags, eiga að geta notið hennar. Það er röng stefna að sprengja upp verð á laxveiðileyfum og gera laxveiðiár að leikvöllum auðmanna. Þetta verða veiðiréttareigendur að skilja. Deila má um rétt þeirra til þessara hlunninda, vart ráða þeir rennsli ánna eða göngu laxins, og þeir hafa að mörgu leyti með stefnu sinni gefið byr undir báða vængi þeirri kröfu, að árnar og laxveiðirétturinn verði þjóðareign.“

Þá hafa menn það. Þessar dulbúnu hótanir sem ég hef verið að tala um, eru engin nýlunda í herbúðum hv. þm. Alþfl. En það er meira. Allir eiga að geta notið þessara hlunninda án tillits til efnahags, segir hann. Það þýðir að annaðhvort eiga þessi hlunnindi að verða afhent gefins hverjum sem vill nýta eða þá að vera í svo lágu verði að hver sem er, alveg án tillits til hvernig á stendur fyrir honum í fjármálum í það og það skiptið, geti nýtt þau. Þar með er burt horfin hagnaðarvonin sem ég gerði að nokkru umtalsefni fyrr í þessari ræðu. Þar með er burt numinn sá þáttur sem er uppspretta þess að gefa tekjur af þessum eignum. Og þá er ekki nema um eitt að velja, ef svo á að ganga til, að ríkið taki þetta á sína arma, setji upp sérstaka stjórnarráðsskrifstofu hér í bænum, hvort sem verður að kaupa eitthvert gamalt hús við Laugaveg eða Suðurlandsbraut eða annars staðar til þess að setja þá stofnun upp, og síðar verður úthlutað frá þeirri skrifstofu veiðileyfum vítt og breitt um landið, fyrst til handa sérstökum gæðingum, vinum, venslamönnum o.s.frv., en síðan hverjum öðrum sem hafa vill. Ef það er þetta sem við eigum að keppa að í veiðimálunum, þá vil ég ekki styðja þá hv. þm. einn og átta í þeim aðgerðum.

Ég fullyrði það, að bændum landsins, núv. veiðiréttareigendum, er best treystandi í þessum efnum. Þeir hafa sýnt það á undanförnum árum, að þeir hafa í rauninni unnið stórvirki í því að auka þessi verðmæti, auka tekjumöguleikana og bæta veiðiárnar. Af því hafa notið góðs sumpart þeir sjálfir, að verulegu leyti íslenskir veiðimenn, að nokkru erlendir veiðimenn, en þó umfram allt þjóðin sjálf, þjóðin í heild, og það er það, sem skiptir meginmáli. Þess vegna er ég því andvígur, að horfið sé að því að breyta þar nokkru um í eignarformi eða á annan þann hátt er gæti orðið til að raska þessu.

Þá er spurningin hvort gjaldtaka af veiðileyfum útlendinga hafi þarna eitthvað að segja. Ég hef dregið mjög í efa fullyrðingar hv. þm. Árna Gunnarssonar um það, að útlendir veiðimenn bjóði það hátt að þeir boli Íslendingum úr ánum. Það getur auðvitað borið við. Það er líka öfugt þar sem ég þekki sjálfur dæmi um. Staðreyndin er sú, að nokkuð af þessum réttindum er ónotað, en gjaldtakan mundi strax hafa veruleg áhrif á möguleika á leigu til útlendra manna — aukin áhrif, e.t.v. ekki svo ýkjamikil peningaleg áhrif, vegna þess að gjald þetta yrði kannske ekki mjög hátt. Það hefur raunar ekki komið fram, hvað sé ætlast til að það verði hátt, en ekki er víst að það yrði svo hátt að það hefði veruleg fjármunaleg áhrif á þessa menn. Þó hefur það auðvitað sitt að segja þegar þess er gætt, hve hörð samkeppni er um þessi mál og að stundum munar litlu hver verður ofan á af þeim sem bjóða í tiltekna veiðiá. Hitt hefur miklu meira að segja, að flestum mundi þykja það óeðlilegt ef farið væri að mismuna þannig mönnum sem vilja nýta þessi hlunnindi, og það mundi án efa verða til þess að stór afturkippur kæmi í veiði útlendinga, nema veiðiréttareigendur greiddu gjaldið sjálfir.

Ég skal ekki lengja þetta mikið. Ég tel mig hafa gert grein fyrir skoðun minni á þessu máli. Ég er tillögunni andvígur og tel að með henni sé stefnt í ranga átt. Hún stefnir ekki einungis gegn hagsmunum og vilja veiðiréttar eigenda, heldur mundi samþykkt till. og framkvæmd hennar verða til óheilla fyrir veiðimálin í heild og til niðurdreps á þá tekjumöguleika sem þjóðin hefur af þessum verðmætum sínum, og það er aðalmálið. Yfirborðsleg athugun á þessu máli frá ímynduðum sjónarhóli annars aðilans á ekki að ráða í þessum málum, þó að það sé í sjálfu sér skiljanlega fram sett af hálfu hv. 1. flm., fyrrv. fréttamanns.

Það kom mér nokkuð á óvart í þessum umr. fyrir þrem vikum, að hæstv. landbrh. skyldi finna sér tilefni til þess eða hag í að kalla eftir höfundarrétti á þessu máli. Hann gerði það nú samt, og ég verð að segja að mér þótti miður. Mér hefur fundist margt vel sagt sem hæstv. landbrh. hefur látið frá sér heyra síðan hann kom í það embætti, en mér þótti það nokkuð miður, að hann skyldi telja sig knúinn til þess að kalla eftir höfundarrétti á þessu máli, sem þó auðvitað var nokkuð stíft auglýst eftir af hálfu hv. 1. flm. En raunin er samt sú, að hæstv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, mun hafa flutt frv. til l. um rannsóknastofnun fiskræktar fyrir nokkrum árum — frv. sem m.a. hefur inni að halda ákvæði er beinast í sömu átt og þessi þáltill. Hæstv. ráðh. virtist þó hafa öðlast meiri yfirsýn en hann væntanlega hefur haft þegar hann flutti þetta frv. sitt, því að hann virtist skilja að sú aðferð, sem þar er stungið upp á og enn er komið á framfæri í till. þeirra hv. þm. sem ég hef leyft mér að kalla hv. þm. einn og átta frá Alþfl. og Alþb., — sú aðferð mundi ekki gegna neinum tilgangi, hún mundi einungis verða til þess að flækja þetta mál, verða átylla fleiri millliða og því ekki ná þeim tilgangi sem til er ætlast. Mér þótti betur að hæstv. ráðh. skyldi þó hafa sannfærst um þetta, enda þótt svo virtist sem andinn væri hinn sami, viljinn væri í raun og veru hinn sami og þegar hann flutti umgetið frv., aðeins að hann sæi ekki leið til þess að koma þeim vilja sínum fram. Þetta þótti mér miður eins og ég hef sagt, og ég harma að hæstv. ráðh. skyldi láta skína í það, að hann væri inni á þessari stefnu, vegna þess að það er andstætt hagsmunum þeirra sem hann er í forsvari fyrir í hæstv. ríkisstj. og hér á hinu háa Alþingi. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni. Ég hef hug á að fresta fundi nú kl. 3.) Herra forseti. Ég skal ljúka ræðu minni.

Ég skal ekki segja fleiri orð um afstöðu hæstv. ráðh., enda hann ekki sjálfur viðstaddur. Ég vil aðeins ljúka þessum orðum með því að ítreka það, að sú till., sem hér er flutt, virðist byggð á mjög yfirborðslegri þekkingu á þessu máli, — þekkingu sem virðist þó fengin frá hálfu annars aðilans. Þegar þannig er staðið að málum vill oft fara svo, eins og mér þykir hætt við að mundi gerast í þessu efni ef till. yrði samþykkt, að það yrði öllum til óþurftar og ekki síst þeim sem till. virðist vera flutt til að vernda. Það yrði öllum til óþurftar, veiðiréttareigendum, veiðimönnunum sjálfum, íslensku þjóðinni í heild. Þess vegna er að mínum dómi ekki áhorfsmál að fella þessa tillögu.