23.11.1978
Sameinað þing: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

18. mál, gjald á veiðileyfi útlendinga sem veiða í íslenskum ám

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér mjög í almennar umr. um þetta mál; sem þegar eru orðnar nokkuð langar. Verð ég þó að segja, að hvorki líkar mér blær sá, sem á till. er, né heldur ýmis orð sem hér hafa fallið af vörum hv. ræðumanna.

Ég skil vel áhuga íslenskra veiði- og útivistarmanna á íslenskum ám og íslenskri náttúru og tel sjálfsagt að það eigi að greiða fyrir þeim eftir föngum þegar þeir ganga á vit íslenskrar náttúru og vilja njóta útivistar. En ég tel á hinn bóginn fjarstæðu að taka svo til orða, eins og ég held að rétt sé haft eftir hv. 4. landsk. þm., að útlendinga eigi að reka úr öllum veiðiám í Íslandi. (StJ: Bola þeim burtu.) Eða bola þeim burtu. Ég get aðeins minnst á síðustu ræðuna sem hér var haldin, þar sem hv. 1. þm. Vesturl. benti á hvað yrði um það markmið ýmissa manna að gera Ísland að ferðamannalandi og byggja upp mikilvæga atvinnugrein hér á Íslandi, ef útlendingum yrði bolað burt úr öllum veiðiám.

Það er ýmislegt fleira sem hefur komið fram í máli manna, eins og hin snjalla hugmynd hv. 5. þm. Norðurl. e. að stofna laxalögreglu, sem yrði væntanlega deild í Rannsóknarlögreglu ríkisins á borð við vatnalögreglu í ýmsum öðrum ríkjum. Þá mætti líka fara nokkrum orðum um þá að nokkru leyti ágætu ræðu, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. flutti hér. Honum lágu nú venju fremur sáttarorð á tungu, talaði um að sætta ætti landlausa menn eða landleysingja og veiðiréttareigendur eða handhafa veiðiréttar. Það er auðheyrt að útivist og veiði hafa haft mannbætandi áhrif á þennan hv. þm. og hann hefur eignast margar auðnustundir í veiðiferðum sínum. Hann talaði margt mjög skáldlega, og það má segja að máli hans rann Norðurá fegurst áa lygnum straumi í fögru umhverfi, þó að blóð litaði bakka hylja í Húnaþingi.

En það var aðallega eitt atriði sem fékk mig til að segja fá orð, og raunar skaut þessi hv. ræðumaður því fram í máli sínu. Það er nefnilega í grg. vikið sérstaklega að leigunni á Laxá í Dölum, og hv. 4. þm. Norðurl. e. lét orð falla um þann leigusamning. „Leigusamningar af þessu tagi eru óhæfa," sagði hann. Ég hef ekki séð þennan samning, svo að ég get ekki rökrætt um hann sérstaklega við hv. þm. En þegar þetta mál kom á dagskrá þingsins eða var borið fram, þá fékk ég senda frá vinum mínum í Dölum vestur úrklippu úr blaði, grein sem skrifuð var fyrir einu og hálfu ári eða svo og var svar við annarri blaðagrein Reykvíkings sem fjallaði um leiguna á Laxá í Dölum. Ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa nokkrar setningar úr þessari grein sem mér var send:

„Þar sem vikið var að Laxá í Dölum get ég ekki látið hjá líða að svara og skýra hvers vegna Laxá í Dölum er leigð Bandaríkjamönnum. Á árunum fyrir og eftir 1970 og allt til 1974 var Laxá leigð stangveiðifélagi í Reykjavík, en það endurleigði svo stangveiðimanni í Reykjavík besta hluta veiðitímans. Hann leigði svo Bandaríkjamanni sem seldi veiðileyfin á sínum heimaslóðum. Þar með vorum við bændur í Laxárdal orðnir fimmta hjólið í þessari leigu. Á þessu sést að það voru íslenskir stangveiðimenn sem fyrst komu með útlendinga til veiða í Laxá í Dölum. Við tókum því þess vegna fegins hendi er okkur gafst kostur á því að leigja beint til veiðimannanna sjálfra og losna þannig við þrjá núllliði.“

Ég ætla svo ekki að rekja þessa grein miklu lengra, þó að hér komi ýmislegt fram sem vekja mætti athygli á. Þannig segir höfundur þessarar greinar eitthvað á þá leið, að greinarhöfundur sá, sem hann er að svara, telji mikla óhæfu að leigja útlendingum íslenskar laxveiðiár. Hann segist vera honum algerlega ósammála, telji eðlilegt að leigja þeim árnar, a.m.k. að einhverju leyti, enda veiti ekki af að fá þann gjaldeyri í þjóðarbúið sem hægt er. Og það má, eins og hv. 1. þm. Vesturl. gerði áðan, vitna í lög um lax- og silungsveiði, nr. 76 frá 1970 14. kafli þeirra laga fjallar um Fiskræktarsjóð og styrkveitingar til fiskræktar. Þegar rætt er um tekjur þessa sjóðs er nefnt 2% gjald af skírum veiðitekjum er innheimtist af veiðifélögum. Það gefur því auga leið, að það skipti miklu máli að hægt sé að leigja árnar fyrir nokkurt fé þannig að meira renni í þennan sjóð svo að auðveldara verði að efla fiskræktina.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri, en ljúka þeim á því að vitna aftur í það bréf sem mér barst í hendur. Það verða lokaorð mín að þessu sinni:

„Í Laxárdal hafa bændurnir sjálfir alltaf haft forgöngu um ræktun Laxár, en þar voru fyrst sett seiði fyrir síðustu aldamót og síðan 1934 hafa verið sett seiði í ána á hverju ári, en án þess væri Laxá ekki svo góð veiðiá sem hún nú er. Ég tel eðlilegt að eigendur njóti árangurs erfiðis síns.“