27.11.1978
Neðri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að lýsa því yfir, að eins og unnt er munum við sjálfstæðismenn greiða fyrir því, að afgreiðslu þessa frv. verði lokið fyrir mánaðamót, en áskiljum okkur þó allan rétt til þess að fjalla ítarlega um efni frv. og afla þeirra upplýsinga og gagna sem nauðsynleg eru til þess að endanleg málefnaleg afstaða verði tekin.

Við þm. höfum nú haft í 3–4 vikur á borðum hjá okkur frv. til l. um kjaramál, sem er frv. til staðfestingar á brbl. sem núv. ríkisstj. setti í byrjun starfsferils síns í byrjun septembermánaðar s.l. Í dag er svo útbýtt á borð okkar frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu.

Það er fróðlegt að bera þessi frv. saman. Frv. til l. um kjaramál, staðfesting á brbl. ríkisstj., var hornsteinn stjórnarsamvinnunnar, endurtekið stefið frá kosningabaráttunni á s.l. ári um „samningana í gildi.“ Og hvað gerðist samkv. þessum brbl.? Það gerðist í fyrsta lagi, að þeir hæst launuðu fengu 10–12% kauphækkun? Það gerðist í öðru lagi, að þeir, sem unnu t.d. við fiskvinnslu og unnu venjubundinn yfirvinnutíma eða ákvæðisvinnu, fengu 3.5–4% kauphækkun. Það gerðist, að engin hækkun kom til lág- og millitekjufólks samkv. brbl. hæstv. ríkisstj. Þetta var árangurinn af söngnum „samningarnir í gildi“. En meðaltalshækkun launakostnaðar í landinu var um 6%. Niðurstaðan, ályktunarorð af brbl., var í sem stystu máli á þann veg, að í raun voru samningarnir ekki settir í gildi, vegna þess að þaki var viðhaldið eftir sem áður, þótt því væri lyft eilítið. Fjármögnunin eða framkvæmdin varðandi launahækkunina átti sér stað í niðurgreiðslum annars vegar sem fjármagnaðar voru með skattlagningu hins vegar sem og hallarekstri ríkissjóðs. Í stuttu máli voru landsmenn sjálfir látnir greiða niður laun sín. Hér var á ferðinni slík svikamylla sem var raunar í rökréttu áframhaldi af glamuryrðum fyrrv. stjórnarandstöðuflokka í kosningabaráttunni. Hér var á ferðinni í raun og veru þegar með setningu þessara brbl. afhjúpun á einhverjum mesta blekkingavef okkar daga í stjórnmálabaráttu landsins. Því skyldi maður ætla að jafnvel slíkar vanefndir hefðu getað staðist, ef marka mátti málflutning fyrrv. stjórnarandstöðu og núv. stjórnarsinna, en því er ekki að heilsa. Hér er komið nýtt frv. á borð alþm. sem heitir: „Frumvarp til laga um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu“. Á það hefur verið minnst, að þetta frv. er undarlegrar gerðar og óvenjulegt að formi og raunar einnig að efni, og að því skal vikið síðar. En kjarni þessa frv. er sá, að ekki skuli greitt kaup samkv. kaupgjaldsvísitölu, það skuli skerða útborgun kaups um 8%. Fram hjá þessu verður ekki vikist. „Samningarnir í gildi“ með brbl. í sept. höfðu ekki í för með sér neina kauphækkun til hinna lægst launuðu. Nú á samkv. þessu frv. að lækka kaup hinna lægst launuðu um 8%. Það væri nú athyglisvert að fá skýringu t.d. þeirra hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar og Guðmundar J. Guðmundssonar á þessu. Og það væri fróðlegt að vita í hverju snúningur þeirra er fólginn, þegar klökkt þakkarbréf var lesið upp af hálfu Verkamannasambands Íslands hér áðan. En batnandi mönnum er auðvitað best að lifa, og nú munu hvorki þessir þm. né aðrir stjórnarsinnar, sem voru fyrrv. stjórnarandstæðingar, segja að launakostnaður skipti ekki neinu máli, að það skipti engu máli t.d. hvaða laun eru greidd í fiskvinnslu, það ráði ekki úrslitum í baráttunni gegn verðbólgunni, það ráði ekki úrslitum varðandi rekstrarafkomu atvinnuveganna, það ráði ekki úrslitum til þess að tryggja atvinnuöryggi í landinu. En núna hafa þessir menn söðlað um, og þeir segja með þessu frv., að auðvitað skipti launakostnaður í landinu máli ef við viljum tryggja atvinnuöryggi, ef við viljum tryggja ótruflaðan rekstur atvinnuveganna, ef við viljum berjast gegn verðbólgu.

Það er fróðlegt ekki eingöngu að bera saman þetta frv., sem í dag var borið á borð þm., við brbl. frá því í sept. Við skulum bera þetta lagafrv. og efni þess — meginatriði og kjarna þessa frv. — saman við efnahagsráðstafanirnar í febr. og brbl. í maí, og þá kemur fram mjög athyglisverður munur. Samkv. lögunum í febrúar og enn frekar samkv. lögunum í maí var gert ráð fyrir því, að sérstök láglaunauppbót væri í lög leidd. Full verðbót var tryggð þeim, sem höfðu 88 þús. kr. í mánaðartekjur, miðað við desemberlaun 1977, og skerðingin, sem svarar til hálfrar vísitöluuppbótar, varð ekki að fullu fyrr en launin voru komin í 176 þús. kr. Samkv. maílögunum var full vísitöluuppbót á 115 þús. kr., einnig miðað við desemberlaun 1977, og skerðingin af hálfri vísitöluuppbót varð ekki fyrr en um það bil þegar mánaðarlaunin í dagvinnu voru komin í 240 þús. kr. Er einhver slík ákvæði að finna í þessu frv. sem alþm. sáu í dag? Ekkert einasta ákvæði þess efnis, að sérstaklega skuli hyggja að láglaunafólki, sem þó var bæði í febrúarlögunum og í brbl. í maí.

En hvernig voru viðbrögð fyrrv. stjórnarandstæðinga við þessum lögum? Hvernig voru viðbrögð Verkamannasambands Íslands? Það var hvatt til ólögmætra verkfalla, það var boðað til útflutningsbanns og aðrar ráðstafanir hafðar í frammi til þess að trufla atvinnustarfsemi landsmanna og koma í veg fyrir að þessi lög næðu tilgangi sínum. En værum við nú ekki betur staddir, Íslendingar, ef þessi lög hefðu náð tilgangi sínum? Hvað segir hæstv. forsrh. um tilgang þessa frv., sem hann talaði fyrir rétt áðan, hvað snertir baráttu gegn verðbólgunni? Hvað segja aðrir stjórnarsinnar um tilganginn hvað snertir baráttu gegn verðbólgu? Jú, það er von stjórnarsinna, að unnt verði að koma verðbólgunni niður í 30% með tilkomu þess frv. og eftir verði fylgt með samsvarandi ráðstöfunum varðandi greiðslu vísitölubóta á næsta ári. Sá árangur, sem á að nást, er að verðbólgan sé komin í um það bil 30% í lok 1979. En hefðu febrúarlögin náð yfirlýstum tilgangi sínum og hefðu skemmdarverk ekki ráðið ferðinni og hefði sýndarmennska núv. stjórnar varðandi brbl. í sept. s.l. ekki séð dagsins ljós, sem nú eru þurrkuð út eins og dögg fyrir sólu, þá hefði verðbólgan nú í lok ársins 1978, frá upphafi til loka árs, verið 30%. Ef við erum að tala um baráttu gegn verðbólgu, þá hafa aðgerðir hv. fyrrv. stjórnarandstæðinga og núv. stjórnarsinna seinkað baráttunni um a.m.k. heilt ár með þar af leiðandi tjóni fyrir alla launþega þessa lands, með þar af leiðandi skaða fyrir alla landsmenn.

Það er einnig athyglisvert að íhuga þróun kaupmáttar. Hvað þýddi krafan: samningarnir í gildi? Þegar forvígismenn launþegasamtakanna úr hópi Alþb. og Alþfl., en það voru einkum þeir sem misnotuðu aðstöðu sína innan verkalýðssamtakanna í flokkspólitískum tilgangi, voru inntir eftir því hvað þessi krafa þýddi, þá sögðu þeir að tryggja ætti þann kaupmátt sem stefnt var í með kjarasamningunum 1977. Og hver var sá kaupmáttur sem stefnt var í með þessum kjarasamningum? Ef kaupmáttarstigið er sett 100 í byrjun yfirstandandi árs, þá var það að meðaltali á síðasta ári 92 og þá var með kjarasamningunum 1977 stefnt í að kaupmátturinn væri 112 í lok þessa árs og síðan a.m.k. ekki lægri á næsta ári, enda áttu samningar nú fyrir 1. des. að tryggja það.

Hver verður nú raunin við tilkomu þessara laga? Kaupmáttarstigið hefur kannske með brbl. farið upp í um það bil 108 stig frá 1. sept. til 1. des. En með tilkomu þessara laga hrapar kaupmátturinn um 8% og fellur niður í það sem var í byrjun þessa árs í raun og veru. Og það er boðað meira. Í grg. þessa frv. er sagt að stefnt skuli að því að greiða ekki meiri vísitölubætur á laun 1. mars n.k. en að hámarki 5%. Nú er það kunnugt og upplýst í skýrslu vísitölunefndar, að verðlag mun hækka á bilinu 8–10%. Það á sem sagt enn á ný að láta fella niður 5% af kaupgjaldi. Samtals er þarna um að ræða niðurfellingu á 13% af kaupgjaldi á þriggja mánaða tímabili. Með því að benda á þetta er ég ekki að segja að þetta kunni ekki að vera nauðsynlegt í baráttunni gegn verðbólgu, í baráttunni fyrir atvinnuöryggi og til þess til lengdar að tryggja kaupmátt launa. En ég bendi á þetta sem sönnun og staðfestingu á því, að hv. stjórnarsinnar margir hverjir eru ekki samkvæmir sjálfum sér í stjórnarandstöðu og sem stjórnarsinnar.

Það er rétt að við gerum okkur líka grein fyrir því, hver er afkoma atvinnuveganna með tilkomu þessa frv. Það er talið svo, að fyrir tilkostnaðarhækkun 1. des. séu frystihúsin í landinu rekin jafnvel með halla, en þegar best lætur almennt séð á núlli. Saltfiskverkunin er rekin með miklum halla. Útgerðin er rekin með miklum halla, a.m.k. sumar tegundir útgerðar. Og í kjölfar 6% kauphækkunar nú um mánaðamótin kemur fiskverðsákvörðun um áramótin. Ég er ekki með neinar hrakspár eða að örva menn til kröfugerðar varðandi fiskverðsákvörðun, en ég held að flestum hér inni sé ljóst, að jafnvel þessi takmarkaða kauphækkun nú um mánaðamótin leiðir til frá 6 og upp í 12% fiskverðshækkun. Þegar á það er litið og þá verðlagshækkun sem fram undan er á næsta kaupgreiðsluvísitölutímabili, þá er ljóst að við stefnum í áframhaldandi gengisfellingu.

Ég hef heyrt frá 1. þm. Austurl. í umr. um efnahagsmál, bæði efnahagsráðstafanirnar í febr. og í opinberum umr. varðandi brbl. í maí sem og það sem af er þessu þingi, að sumir stjórnmálamenn sjái engin ráð og engar lausnir í efnahagsmálum nema gengislækkunarleið. En hvaða ráð sér þessi hv. þm., hvaða ráð sjá Alþb.-menn í efnahagsmálum önnur en gengislækkunarleiðina? Jú, þeir komu með ákveðnar tillögur fyrr á þessu ári, jafnvel fyrir kosningar, ítrekaðar eftir kosningar í stjórnarmyndunarviðræðunum, að gengisfelling væri alveg ónauðsynleg og það væri hægt að leysa það mál með tilflutningi frá hinum ríku til hinna fátæku, frá fyrirtækjunum til launþega. Það reyndist þó svo, að núv. ríkisstj. reyndist nægilega erfitt að skattleggja landsmenn svo að nægði til þess að standa undir niðurfærslu vöruverðs 1. sept. og hingað til, án þess að unnt væri að sýna fram á hvernig ætti að afla tekna til þess einnig að standa undir halla atvinnuveganna og atvinnufyrirtækjanna í landinu. Það dæmi hefur aldrei verið gert upp. Þeir Alþb.-menn hafa aldrei bent á þá tekjustofna í landinu, sem gætu staðið undir því að styrkja aðalatvinnuveg landsmanna, fyrir utan það, hvað það er heimskuleg stefna að grundvallaratvinnuvegur landsmanna eigi ekki að standa undir sér. Auðvitað verður að reka hann með hagnaði. En það er bersýnilega stefna Alþb. að hafa það miðstýrða ríkisvald svo sterkt, að það sé hægt að taka án takmarkana frá einum og láta öðrum í té til þess að styrkja valdakerfi sósíalismans, sem er draumsýn þeirra varðandi þjóðskipulag á Íslandi.

Nú er upplýst, að ríkissjóður verður rekinn með 4.5 milljarða halla á þessu ári, þótt fráfarandi ríkisstj. skildi þannig við, að ríkissjóður mundi verða rekinn með jöfnuði á þessu ári hefði fram verið haldið sem horfði. Það er m.a. verkefni þingsins nú fyrir jól að jafna þennan halla, og ráð framsóknarmanna var, eins og kunnugt er, að lengja árið úr 12 mánuðum í 16 mánuði til þess að ná þessum jöfnuði. En frv. til fjárl., sem liggur fyrir þessu þingi, er þannig útbúið að á skortir um 8 milljarða kr. til þess að jöfnuður náist. Og nú, ef á að fara bókstaflega eftir þeim hjákátlegu greinum sem eru í I. kafla þess frv. sem hér er á dagskrá, þá ættum við, ef við tökum þær bókstaflega, — en það er bara ekki hægt að taka þessar greinar bókstaflega, það sér hver og einn, — en ef við ættum að gera það mundi það kosta um 16 milljarða kr. Kann að vera að ríkissjóður spari nokkur hundruð millj. kr. vegna þess að fjárlagafrv. byggist á að kaup í desember muni hækka um 7.5%, en það mun ekki hækka nema um 6.1%. Við spörum e.t.v. um 700 millj. kr. á ársgrundvelli samkv. þessu. En fjárvöntunin er geysileg, ef við eigum að taka greinarnar í l. kafla þessa frv. alvarlega, sem engan veginn er hægt. Og þá er spurningin sem ósvarað er: Hvernig ætla stjórnarsinnar að afla þessa fjármagns? Ég sé að hæstv. fjmrh. er farinn af þingi. Mér þykir ekki ólíklegt að honum hafi blöskrað hvað er verið að gera og hann hafi beinlínis flúið af hólmi. Ég vona að hann komi sem fyrst aftur endurnýjaður af kjarki og þreki til að fást við þann vanda sem við er að glíma, en hér er stefnt í fullkomna botnleysu.

Varðandi þá kenningu 1. þm. Austurl. og þeirra Alþb.-manna, að hægt sé að komast hjá gengisfellingu, hvernig hafa þeir staðið við þessa kenningu sína nú þegar ráðin eru í þeirra höndum? Ég áfellist þá ekki fyrir 15% gengisfellingu í byrjun sept., það var óhjákvæmilegt. En hvað hefur gerst eftir það? Ætli gengissigið sé ekki til viðbótar þessum 15% orðið nálægt 5%? Hvað þarf til þess að gengissig eigi sér stað? Það eru ekki bara vondu mennirnir í Seðlabankanum sem ráða gengisskráningunni, það þarf annað og meira til. Það þarf leyfi frá hæstv. viðskrh. Og ef ég man rétt frá reynslu fyrri stjórnar, þá var þetta leyfi eða svigrúm Seðlabankans skammtað í um það bil tveim prósentustigum í senn. Nú er hæstv. viðskrh. búinn að gefa út ekki bara eitt, ekki bara tvö, heldur sjálfsagt þrjú slík leyfi, Og annaðhvort þarf hann að halda áfram að gefa út slík leyfi, halda áfram gengislækkunarleiðinni, eða hreinlega fella gengið í einu stökki upp úr áramótum, þegar búið er að ganga frá fiskverði, jafnvel þótt þetta frv. verði samþ. og dregið úr kauphækkunum eins og ráð er fyrir gert í þessu frv. Það er auðveldara um að tala en í að komast fyrir þá Alþb.-menn. Þeir hafa gengið á bak allra sinna stóru orða frá því þeir voru í stjórnarandstöðu.

Ég sagði áðan, að þetta frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu væri hið furðulegasta að allri gerð og innihaldi raunar líka. Í 1. gr. þessa frv. er talað um að ríkisstj. sé heimilt að auka niðurgreiðslu vöruverðs frá því, sem hún er í nóv. 1978, sem svarar 3% af verðbótavísitölu þeirri sem gildir fram að 1. des. 1978, og eigi síðan að tilkynna kauplagsnefnd ákvarðanir sínar og hún að meta það og gera grein fyrir niðurstöðum sínum. Nú vil ég gjarnan að einhver leiðrétti mig, ef það er ekki rétt að ríkisstj. hefur út af fyrir sig heimild til þess að auka niðurgreiðslur. Hún þarf auðvitað að sjá um fjáröflun, ef hún er ábyrg, en ekki ábyrgðarlaus ein og núv. hæstv. ríkisstj. hefur því miður sýnt sig vera hingað til hvað snertir aukningu niðurgreiðslna á þessu ári. En efni málsins í 1. gr. er auðvitað það, að niðurgreiðslur eða lækkað vöruverð, sem tekur ekki gildi fyrr en eftir 1. des., á að reikna inn í vísitöluna henni til lækkunar, vegna þess að vísitöluútreikningurinn fer fram samkv. vöruverði 1. nóv. Þetta er e.t.v. út af fyrir sig réttlæting á þessari grein í frv. En það er alls ekki þörf á þessari grein. Í 4. gr. segir þetta skýrt og skilmerkilega, að hvað sem líður mati eða útreikningi kauplagsnefndar skuli ekki greiða verðbætur á laun samkv. annarri verðbótavísitölu en 151 stigi. Það er aðalatriði málsins og skiptir engu máli hvað kauplagsnefnd metur niðurgreiðsluna til eða frá. Það á að greiða samkv. kaupgreiðsluvísitölu 151 stig, það á ekki að greiða nema 6.1% kauphækkun í stað 14.11, sem kaupgreiðsluvísitalan segir til um.

Hvaða fordæmi eru fyrir orðalagi eins og í 2. og 3. gr.? Ég vona að það séu ekki til fordæmi í tíð fyrrv. ríkisstj., og ef þau skyldu vera til, þá bið ég auðmjúklega afsökunar á slíku fordæmi. Í 2. og 3. gr. segir: „Ríkisstj. mun beita sér fyrir lagasetningu“ — og í 3. gr.: „Ríkisstj. mun beita sér fyrir aðgerðum og lagasetningu.“ Ég get ekki skýrt eða skilið tilgang með slíku orðalagi. Annaðhvort leggur ríkisstj. fram frv. til l. eða hún gerir það ekki. Á löggjafarþingið, Alþingi, að segja fyrir hönd ríkisstj., að ríkisstj. muni beita sér fyrir einu eða öðru. Þetta væri kannske skiljanlegt í þáltill., en ég tel það vera fyrir neðan virðingu alþm. að standa að þessu sem lögum frá Alþingi, þó ekki væri nema formsins vegna. Það eru ýmsar spurningar sem koma upp í huga manna þegar þeir lesa þessar greinar, sem bersýnilega eiga að vera einhvers konar plástur á þá Alþb.-menn sérstaklega, e.t.v. Alþfl.-mennina líka. Þetta á e.t.v. að vera einhver dulbúningur hvað snertir raunverulegt efni þessa frv., að það er nauðsynlegt að skerða útborgun kaups samkv. kaupgreiðsluvísitölu. Ef þarna stæði, að ríkisstj. legði fram lög um lækkun skatta og gjalda af lágtekjum fyrir áramót og efni þeirra skuli metið af kauplagsnefnd, og sama breyting yrði á 3. gr. væru þessar greinar þó skiljanlegar. Af hverju er kauplagsnefnd ekki falið að meta gildi þessa, alveg eins og kauplagsnefnd er falið að meta gildi niðurgreiðslna samkv. 1. gr.? En í raun og veru skiptir þetta ekki höfuðmáli, vegna þess að það er búið að ákveða í 4. gr., að hvað sem líður efndum eða niðurstöðu varðandi þau mál, sem nefnd eru í 1., 2. og 3. gr., þá skuli kaup greitt samkv. ákveðinni kaupgreiðsluvísitölu. Alþb.-menn segja sem svo, og ég veit að hv. þm., sem fyrr á þessu ári stóðu fyrir ólöglegum verkföllum, útflutningsbanni, hrópum og köllum á almannafæri, að um kauprán væri að ræða, en standa nú fyrir alveg nákvæmlega sams konar aðgerðum, nema langtum alvarlegri og án þess að gæta hagsmuna hinna lægst launuðu að einu eða neinu leyti, — þeir munu segja: Jú, jú, vissulega er kaupið lækkað óneitanlega um 8%. En launþegar fá þetta bara allt saman aftur, hverja einustu krónu. — Við skulum athuga þessa röksemd þeirra, ef röksemd skyldi kalla.

Hver er heildarlaunakostnaðurinn í landinu? Hann mun vera um þetta leyti um 300 milljarðar kr. á ári. Ef við bætum tekjum sjómanna og bænda við, þá eru þetta um 340 milljarðar kr. á ári. Ef þessir menn vilja standa við þessa skýringu sína á því, að þeir fallist á kauplækkun um n. k. mánaðamót, þá ættu þeir í raun og veru að geta sýnt fram á það, að 27.5 milljörðum kr., ef ég kann að reikna í flýti, væri varið til þess sem um getur í 1., 2. og 3. gr. Ef þeir geta það ekki er í raun og veru um kjaraskerðingu að ræða hjá almenningi í landinu. Við skulum samt sem áður fara heldur vægar í sakirnar og segja sem svo, að 1., 2. og 3. gr. kosti ríkissjóð: 1. gr., 3% af verðbótavísitölu með 1.7 núlljörðum á hvert prósentustig, ætti að kosta 5.1 milljarð. Við getum sagt, að 2. gr., ef miðað er við sjúkratryggingagjaldið þar sem hvert stig kostar 3 milljarða, mundi kosta 6 milljarða. Við getum sagt að 3. gr., sem fjallar um ýmsar félagslegar umbætur og á að þýða 3% af verðbótavísitölu þeirri sem gildir fram að 1. des. 1978, — við skulum fara heldur í lægri kantinn og segja 2 milljarða miðað við hvert prósentustig, og er þá farið bil beggja hvað niðurgreiðslustigið kostar og hvað skattalækkunin kostar, — muni kosta 6 milljarða. Þetta er sem sagt komið upp í 17 núlljarða kr. Þarna er viðbótartekjuvandi, sem ég hef fært niður í um 15 milljarða kr., til viðbótar þeim 8 milljörðum sem núv. fjárlagafrv. ber með sér.

Nei, sannleikurinn er sá, að sjónhverfingar eins og þær sem Alþb.-menn hafa einkum gerst boðberar fyrir, að unnt sé að bæta launþegum þá kaupskerðingu sem þarna er á ferðinni, falla um sjálfar sig og finnast ekki í vasa launþega í landinu, í þeim kaupmætti eða þeim kjörum sem Alþb.-menn þykjast vilja stefna að. Hér er sem sagt ljóst, að það verður að greiða fyrir þessar hliðarráðstafanir. Enn hafa þm. ekki séð með hvaða hætti sú fjáröflun á að eiga sér stað.

Í II. kafla þessa frv. er í raun farið troðna slóð og sem betur fer sérstaklega tekið tillit til hagsbóta þeirra sem eingöngu hafa tekjutryggingu við að styðjast.

En óhjákvæmilega hlýt ég að gera nokkuð að umtalsefni innihald grg. frv., sem hæstv. forsrh. las upp í ræðu sinni áðan, vegna þess að séu ákvæði frv. sjálfs óskýr, þá er innihald grg, því fremur þokukennt. Þar er enn á ný sagt í 1. mgr., að verið sé að hugsa um efnahagsvandann 1. des., og hæstv. forsrh. og aðrir ráðh. hafa sagt, að hér sé einungis um bráðabirgðaúrræði að ræða. Þegar ríkisstj. birti samstarfsyfirlýsingu sína og fyrstu ráðstafanir í efnahagsmálum, var þar líka um bráðabirgðaúrræði að ræða. Þá var afsökunin fólgin í því, að vinstri flokkunum svokölluðu hafði ekki unnist tími til í 8 vikna stjórnarmyndunartilraunum sínum að komast niður á nein varanleg úrræði. Nú hefur hæstv. ríkisstj. bætt við þessar 8 vikur a.m.k. 12 öðrum, ef ekki heldur fleiri, og á 20 vikum eða um það bil 5 mánuðum hefur ríkisstj. ekki tekist annað en að koma sér niður á bráðabirgðaúrræði. Það er siglt frá einu kaupgreiðsluvísitölutímabili til annars í fullkominni óvissu um framhaldið. Og í grg, frv. eru nokkur snuð bersýnilega, sem sett eru upp í Alþfl. einkum og sér í lagi.

Það er mjög athyglisvert að lesa í 1. lið að verðlags- og peningalaunahækkanir 1. mars verði ekki meiri en 5%. Ég hef áður fjallað um að verðlagsspáin er um a.m.k. 8% hækkun og líklega yfir 10% hækkun. Það er vitað mál nú í dag. Hins vegar er þarna stefnumörkun, að launahækkunin eigi ekki að vera nema 5%, helmingur af því. Spurningin er: Hvað þýðir þessi grein? Á að greiða niður verðlagið um enn 5% til viðbótar þeim 3%, sem nú eru í þessu frv., og til viðbótar þeim 7.5%, sem voru í ráðstöfununum í sept. s.l., en hér er um verðhækkanir að ræða, sem eru að mestu leyti komnar fram? Hvernig hyggst ríkisstj. standa að þessu?

Þá er talað um að sami háttur verði hafður á við útborgun kaups önnur kaupgjaldsbreytingatímabil. Ég er ekki að fella dóm um það, hvort þetta sé nauðsynlegt. Ég er aðeins að benda á að það er þörf á stefnumörkun af hálfu ríkisstj. hvað þetta snertir. Alþfl. gerði tilraun til að fá slíka stefnumörkun fram, en tókst ekki og koðnaði niður í viðleitni sinni og varð að engu, nema með þessum þýðingarlausu mgr. í 1. og 2. tölul. grg. (Forseti: Mig langar að spyrja hv. ræðumann, hvort hann geti hugsað sér að fresta ræðu sinni til kl. 5. Það var ætlunin að halda þingflokksfundi.) Það er velkomið. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég mun hafa verið kominn í ræðu minni að 3. tölul. í aths. við lagafrv., en þar er talað um vísitöluviðmiðun launa og að vísitölunefnd skili tillögum fyrir 15. febr. Ég vil í þessu sambandi minna á að vísitölunefndin átti að skila áliti fyrir 20. nóv. og skilaði þá áliti, a.m.k. fyrsta áliti, og bauðst til þess að starfa áfram. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. forsrh., hvort ekki sé ætlunin að gera þetta álit opinbert, birta það. Ég tel það athyglisvert á margan hátt og tek eftir því, að fulltrúar ASÍ og BSRB og Farmanna- og fiskimannasambandsins hafa tjáð sig fúsa að ræða um þetta mál áfram, m.a. um verðbótaauka, fyrirkomulag skatta í vísitölukerfinu og hvort taka megi tillit til breytinga viðskiptakjara í verðbótavísitölu. Þetta er athyglisvert í tengslum við almennar ábendingar nefndarinnar, sem eru í 8 liðum. Í þeim efnum vil ég sérstaklega vekja athygli á því, að í 2. tölul. þessara ábendinga er svo að orði komist, með leyfi hæstv. forseta: „Breytingar á sköttum og niðurgreiðslum hafa ekki áhrif á verðbótavísitölu.“

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess, að í frv. að efnahagsráðstöfunum, sem fyrrv. ríkisstj. stóð að, var einmitt fram tekið, að þetta skyldi taka gildi nú um næstu átamót, og þá vakti það mikla andstöðu fulltrúa launþegasamtakanna, Alþýðusambands Íslands og BSRB. Ég vonast til að þessi ummæli í séráliti þeirra fulltrúa í vísitölunefndinni nú bendi til þess, að þeir líti víðsýnni augum á endurskoðun vísitölukerfisins en þeir hafa hingað til gert, að þeir geri sér frekar grein fyrir staðreyndum efnahagslífsins nú en þeir hafa áður gert og í þessu felist ekki eingöngu athjúpun eða opinberun á misnotkun þeirra á launþegasamtökunum þannig að þeir hafi aðra afstöðu til mála eftir því hverjir eru í ríkisstj. landsins.

Það eru auðvitað margar aðrar ábendingar sem þarna er um að ræða. Í 1. tölul. er rætt um nýjan grundvöll að vísitölu framfærslukostnaðar á næsta ári og mun undirbúningur þess vera að hefjast. Ég skal ekki rekja þessar ábendingar, en vil mjög eindregið fara þess á leit, að þetta nál., eins og það liggur fyrir nú, verði birt opinberlega. Ég sé ekki neina ástæðu til að það megi ekki gerast.

Þá er og athyglisvert, að viðskiptakjör eru þarna viðmiðun, sem fulltrúar launþega telja mjög koma til greina að taka með í reikninginn. Við sjálfstæðismenn höfum einmitt bent á að ekki væri unnt að binda kaupgjald í landinu við verðlag án tillits til þess, með hvaða hætti verðlag hækkaði, það væri ekki tilefni til kauphækkunar hér innanlands þótt innflutningsverð hækkaði, svo að dæmi sé nefnt. Í þessu efni verður auðvitað að skapa hér skilyrði til nokkurrar frambúðar fyrir því, að unnt sé að berjast gegn verðbólgunni, og einn liður í því er að skera á þau tengsl sem nú eru mjög sterk milli verðlags og launa, skera á þau víxláhrif sem þarna eiga sér stað og gera alla efnahagsstjórn illframkvæmanlega.

Þá er gert ráð fyrir, eins og raunar kemur fram í 4. tölul. athugasemdanna, sérstakri tekjuöflun. Þar er sérstaklega talað um athugun á hátekjuskatti og veltuskatti af ýmiss konar rekstri, enn fremur fjárfestingarskatti og eignarskatti. Hér er ákaflega óljóst að orði komist. Ég vil gera þá fsp.: Er gert ráð fyrir að hátekjuskattur gangi lengra en skattlagning ríkisstj. nú eftir að hún tók við völdum? Með hvaða hætti ætlar ríkisstj. að brúa það bil, sem fyrir hendi er, til þess að markmiði því, sem lýst er í 2. mgr. 4. tölul., verði náð, þ.e.a.s. að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálum? Og hvað er átt við með hátekjuskatti að þessu leyti? Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að þegar skattheimta, hvort heldur er í formi beinna skattgreiðslna eða skyldusparnaðar, er komin yfir 70% af jaðartekjum, þá er verið að vinna á móti verðmætasköpun í þjóðfélaginu, verið að draga úr viðleitni einstaklingsins til þess að leggja á sig í þágu þjóðarheildarinnar, þannig að afkoma almennings mun versna ef þeirri stefnu verður framhaldið. Ég hef enn fremur lýst þeirri skoðun minni, að ef jaðarskatturinn er orðinn svo hár sem þarna er um að ræða aukist hættan á því, að menn telji siðferðilega ekkert rangt við það að skjóta tekjum undan skatti, það muni auka við neðanjarðarhagkerfið svokallaða sem sumir spámenn hér inni hafa verið til kvaddir að ráða niðurlögum.

Ég nefni veltuskattinn, sem þarna er festur á blað. Veltuskattur er lagður hér á í formi veltuútsvara, og þar er um tekjustofn sveitarfélaga að ræða. Þegar af þeirri ástæðu er mjög hæpið, ef ekki útilokað að gera þann tekjustofn að tekjustofni ríkissjóðs. Vil ég í því sambandi minna á að afnám söluskatts af matvælum hefur haft í för með sér tekjumissi fyrir sveitarfélögin í landinu sem þeim er mjög erfitt við að búa.

Þá vil ég og nefna það, að veltuskattur á fyrirtæki, sem lagður er á án afkomu fyrirtækjanna sjálfra, er auðvitað ákaflega varasamur. Mun óvíða vera til dæmi um slíka skattlagningu annars staðar, enda er ákaflega einkennilegt ef atvinnureksturinn í landinu getur ekki greitt hærri laun, en getur hins vegar greitt hærri skatta. Það er ákaflega merkilegt að heyra talað um það af hæstv. ríkisstj. og einkum og sér í lagi Alþb.-mönnum, að það verði að skattleggja atvinnureksturinn meira en gert er, en hins vegar verði að lækka vaxtakostnað hans. Hér kemur ekkert heim og saman af því sem á orði er haft af hálfu stjórnarsinna með yfirklóri því, sem aths. við lagafrv. þetta eru.

Þá er og talað um fjárfestingarskatt. Menn geta haft mismunandi skoðanir á hvort fjárfestingarskattur eigi rétt á sér eða ekki. Ég tel að meðan vextir og fjármagnskostnaður, m.a. í fjárfestingarlánum, eru ekki viðurkenndir í samræmi við réttmæta ávöxtun sparifjár eigi fjárfestingarskattur ekki rétt á sér. Fjárfestingarlánakjörin eiga að vera raunhæf og þau á að færa til raunhæfs stigs miðað við verðbólgu áður en gripið er til fjárfestingarskatts. Og ef fjárfestingarskattur er hugsaður sem tekjuöflunarleið, þá býst ég við að um hæpna tekjuöflun sé að ræða, vegna þess að tilgangur hans hlýtur auðvitað að verða að draga úr fjárfestingu og koma í veg fyrir að menn hefji fjárfestingu. Í þeim efnum verður að fara bil beggja og hinn gullna meðalveg, vegna þess að heilbrigð fjárfesting í arðsömum fyrirtækjum er auðvitað nauðsynleg ef við eigum að auka framleiðni í þjóðfélaginu og skapa grundvöll fyrir hækkuðu kaupgjaldi og bættum lífskjörum.

Það er einnig talað hér um eignarskatt. Það er á sömu bókina lært varðandi eignarskatt, að ég tali ekki um hækkun eignarskatts frá þeim eignarskattsauka sem núv. hæstv. ríkisstj. ber ábyrgð á, að hann er til þess fallinn að draga úr eigin fjármagni í atvinnurekstrinum og auka á þrýsting atvinnurekstrarins og þörf hans fyrir aukið lánsfé af almannafé og er því til þess fallinn að gera alla stjórn peningamála erfiðari en ella. Það er auðvitað heilbrigt og æskilegt, að í atvinnurekstrinum, í atvinnufyrirtækjunum myndist eigið fjármagn, eigið áhættufjármagn, sem stjórnendur atvinnufyrirtækjanna beri ábyrgð á, en þeir reki ekki atvinnufyrirtæki sín fyrir almannafé, fyrir lánsfé, og skapi þar með aukna spennu í þjóðfélaginu og lánsfjárskort.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að fjárhag ríkissjóðs er stefnt í voða og gífurlegan halla meðan ekki sést hvaða tekjuöflunarfyrirætlanir hæstv. ríkisstj. hefur á prjónunum. Raunar er skattheimtan í landinu orðin slík, að óheilbrigt væri að auka hana. Aukin skattheimta er á þessu stigi málsins, þegar svo langt er gengið sem raun ber vitni, til þess fallin að auka verðbólguna, en ekki að draga úr henni, einkum og sér í lagi þegar hverri einustu krónu, sem þannig er safnað saman frá landsmönnum og atvinnufyrirtækjum landsmanna, er veitt út til mismunandi þarfra hluta.

Þá er sérstaklega talað um lækkun tekjuskatts og sjúkratryggingagjalds, og er það góðra gjalda vert. Það er spor í rétta átt að lækka beina skatta. En ég vil taka það fram, að auðvitað er matsatriði hvaða gagn það gerir t.d. láglaunafólki, við það bundið að nú eru skattleysismörk, miðað við vísitölu 143, hjá einstaklingum um 1.5 millj. og hjá hjónum um 2.2 millj. kr. Þetta eru ekki háar tekjur. En við þetta má bæta að menn geta haft 25% hærri brúttótekjur til þess, þar sem hér er um skattskyldar tekjur að ræða, að því er ég hygg. En þá er spurning hvernig 8% í kaupgjaldi verða bætt þeim einstaklingum, sem hafa lægri tekjur á þessu ári en 150 þús. kr. á mánuði, eða þeim hjónum, sem hafa lægri tekjur á mánuði en 220 þús. kr. eða þar um bil.

Ég bendi á að í 5. tölul. er ekkert sagt með hvaða hætti eigi að bregðast við vandamálum landbúnaðarins. Það er að vísu sagt að frv. þess efnis verði lögð fram fyrir áramót, með það fyrir augum að draga úr framleiðslu umfram þarfir þannig að jafnframt dragi úr þörf fyrir útflutningsbætur. Er ætlunin að gera breytingar á framleiðsluráðslögunum? Er ætlunin að gera breytingar á jarðræktarstyrkjum í fjárlagafrv.? Er ætlunin í þessum efnum að gera breytingar á lánakjörum Stofnlánadeildar landbúnaðarins og færa þau til samræmis við lánakjör annarra fjárfestingarlánasjóða? Hæstv. landbrh. er ekki í salnum, en þetta eru spurningar sem rétt væri að hann svaraði og rétt er að fá svar við áður en afgreiðsla þessa frv. á sér stað.

Í 6. tölul. er talað um að heildarfjárfesting á árinu 1979 verði ekki umfram 24–25% af vergri þjóðarframleiðslu, enda hafði fráfarandi ríkisstj. lækkað þetta hlutfall úr 34% í 27% af þjóðarframleiðslu, og nú ætti róðurinn að vera léttari að því leyti, að fjárfesting í skipakaupum verður mun minni en verið hefur og sömuleiðis er unnt að draga úr orkuframkvæmdum vegna þess hve miklar þær hafa verið á undanförnum árum. Hitt er svo athugunarefni, hvort fjárfesting í verslunar- og skrifstofubyggingum hefur verið svo mikil að úr þeim eigi að draga til þess að geta aukið fjárfestingu í tækni- og skipulagsumbótum. Út af fyrir sig er nauðsynlegt að fjárfestingin eigi sér stað í sem arðbærustum framkvæmdum, og að svo miklu leyti sem fjárfesting í verslunar- og skrifstofuhúsum er ekki arðbær, þá er auðvitað eðlilegt að úr þeim sé dregið. En á að draga úr þeim með fjárfestingarhöftum eða mismunandi fjárfestingarsköttum á tegundum fjárfestinga?

Varðandi fjárfestingarhöft vil ég lýsa mig algerlega andvígan fjárfestingarhöftum. Takmörkun á fjárfestingu einkaaðila og atvinnufyrirtækja á að eiga sér stað með almennum ráðstöfunum, eins og því að þessum aðilum sé gert að greiða réttmætt endurgjald af því fé sem þeir fá að láni. Og að því er snertir fjárfestingarskatta, t.d. mismunandi fjárfestingarskatta af verslunar- og skrifstofubyggingum annars vegar og iðnaðarhúsnæði hins vegar, vil ég benda á þá hættu sem mundi verða á því, að menn færu í kringum slík ákvæði, menn notuðu iðnaðarhúsnæði fyrir skrifstofuhúsnæði, menn notuðu iðnaðarhúsnæði fyrir verslunarhúsnæði. Dæmi eru um að þetta hafi verið gert, og það er ósköp auðvelt. Þetta er aðeins ein leið til þess að koma á og auka við neðanjarðarhagkerfið og spillinguna.

Þá er í 7. lið talað um ýmsar félagslegar umbætur, sem engar eru nýjar af nálinni. Þetta eru félagslegar umbætur, sem allar hafa verið á dagskrá mörg undanfarin ár og jafnvel áratugi. Auðvitað skortir margt á þessum sviðum. Auðvitað er þörf úrbóta á þessum sviðum. Um það getum við verið sammála. En í flestum þessum efnum er ekkert þess eðlis, að það sé ástæða fyrir launþegahreyfinguna í landinu að afsala sér samningsbundnum kauphækkunum vegna úrbóta á þessum sviðum, þegar af þeirri ástæðu að úrbætur á þessum sviðum verða ekki í einu vetfangi. Þessar úrbætur verða ekki nema á löngum tíma. Ég get nefnt sem dæmi, að úrbætur varðandi verðtryggðan lífeyri og eftirlaun aldraðra hafa verið lengi á dagskrá og þar hafa stór framfaraspor verið stigin. Hagur lífeyrisþega hefur sem betur fer verið bættur verulega í tíð fráfarandi ríkisstj., og að þeim málum er verið að vinna í nefnd bæði launþega og vinnuveitenda: launþega innan ASÍ og vinnuveitenda sérstaklega, sem og fulltrúa frá öllum lífeyrissjóðum í landinu hins vegar. Þetta starf er mjög flókið og viðurhlutamikið, og hefur ekki borið á því, að fulltrúar launþega hafi rekið á eftir störfum þessarar nefndar umfram það að Guðmundur H. Garðarsson hefur borið hér fram frv. um verðtryggðan lífeyri sem hefur orðið þess valdandi að meiri hreyfing hefur komist á þetta mál en ella. Þetta mál er t.d. á þeim rekspöl, að það er algerlega ástæðulaust þess vegna að telja mönnum trú um að það þurfi að fórna einhverjum prósentustigum í kauphækkunum. Hitt er allt annað mál, að launþegar þurfa að fórna ákveðnum prósentustigum í kauphækkunum vegna afkomu sinnar í bráð og lengd, til þess að tryggja kaupmátt sinn í bráð og lengd, til þess að tryggja afkomu atvinnuveganna og atvinnuöryggið þar með. En þeir þurfa ekki að afsala sér einu eða neinu til þess að kaupa sér umbætur í þeim málum sem þarna eru á dagskrá. Og það væri fróðlegt að fá að heyra og fá að sjá nákvæmari málsútlistun á því, hvernig eigi að meta aðgerðir í þessum efnum til peningaverðs eða launaupphæðar. Ég hef áður nefnt það í ræðu minni, að ef einhver sambærni ætti að eiga sér stað, þá væri lágmark í þessum efnum að tala um 2 milljarða fyrir hvert þeirra 3 prósentustiga sem ætlast er til að þessi mál vegi upp á móti kauplækkun. En málin eru ekki þess eðlis, að unnt sé í raun og veru að meta þau til fjár, og þess vegna tilgangslaust að tala hér um ákveðna prósentu í þeim efnum.

Þá er þess getið í 8. tölul., að fylgja skuli aðhaldssamri stefnu í peningamálum, og þar byggt á útlánaþaki bankanna og bindiskyldu Seðlabankans, sem væntanlega á þá að auka. Það er rétt að staðnæmast aðeins við þennan tölulið. Í honum felst að það er algerlega ófullnægjandi að stjórna peningamálum með bindiskyldu og útlánaþaki eingöngu, án þess að nokkurt tillit sé tekið til ávöxtunar sparifjár. Það er fyrsta skilyrðið, að sparifé myndist í landinu, og til þess þarf ávöxtun þess, annaðhvort í formi vaxta eða verðtryggingar eða gengistryggingar, að vera með þeim hætti, að sparnaðarvilji landsmanna sé efldur. Með öðrum hætti myndast ekki sparifé. Reynslan hefur líka sýnt að Seðlabankinn mun nú um áramótin hafa lánað um 10 milljörðum kr. meira í afurðalán heldur en innlán í Seðlabankanum nema sem stafa af bindiskyldu bankanna, og bindiskyldan er komin í lagalegt hámark, 25% af sparifjáraukningunni. Heyrst hefur, að talað sé um að hækka þessa bindiskyldu upp í 35%. Það þýddi að bankarnir yrðu að greiða 40% af innlánssparifjáraukningu í krónutölu til Seðlabankans og mundi þó tæpast nægja til þess að sjá atvinnuvegunum fyrir afurðalánum. Þetta mundi þýða það, að bankastofnanir í landinu yrðu algerlega lokaðar fyrir öðrum lánum, að ég tali ekki um fyrir einstaklinga, og enn strangari lánsfjárskömmtun kæmi í kjölfarið, ef ekki væri fylgt skynsamlegri stefnu í ávöxtunarmálum fjármagns hér á landi en núv. ríkisstj. stefnir að.

Nú eru liðnar nokkrar vikur frá því að Seðlabankinn skilaði tillögum sínum varðandi ávöxtunarkjör til ríkisstj. Ríkisstj. hefur enga afstöðu tekið til þeirra tillagna. Ríkisstj. er stefnulaus í vaxta-, verðtryggingar- og gengistryggingarmálum, — þeim málum sem þó er grundvallarskilyrði að hugað sé að ef baráttan gegn verðbólgunni á að takast með sigri eða nokkrum ávinningi.

Svo er í 9. tölul. talað um strangt verðlagsaðhald og breyttar reglur varðandi hámarksálagningu. Ég skal ekki segja annað um þennan tölulið en það, að hér er enn haldið fast við þau verðlagsákvæði og það verðmyndunarfyrirkomulag, sem hefur fyrir löngu sýnt að er ekki til neins annars fallið heldur en að hækka vöruverð í landinu, í stað þess að láta koma til framkvæmda 8. gr. í verðlagslöggjöfinni, sem samþ. var á síðasta þingi og hæstv. þáv. viðskrh. og hæstv. núv. forsrh. flutti. Í stað þess að láta þetta ákvæði koma til framkvæmda og láta hendur standa fram úr ermum að koma því fyrirkomulagi á, þá er snúið til baka í úrelt verðlagsfyrirkomulag, sem allar þjóðir hafa sagt skilið við nema við Íslendingar. Afleiðingin verður auðvitað sú, að við höfum ekki það stjórntæki í verðlagsmálum sem best er til þess fallið að halda vöruverði niðri, þ.e.a.s. samkeppni á milli verslunaraðila sem mundi verða til þess að færa húsbóndavaldið í hendur neytenda.

Það er athyglisvert, að þeirri trú, sem menn hafa á því að lækkun álagningarákvæða geti haft í för með sér lækkað vöruverð, er mótmælt af engum frekar en fulltrúum samvinnuverslunarinnar á Íslandi, sem gáfu út fréttatilkynningu um daginn sem var neyðaróp varðandi afkomu verslunar og verslunarfyrirtækja.

Hver er reynsla hæstv. viðskrh. af því að framfylgja verðlagsákvæðum? Við höfum heyrt sagt frá þeirri reynslu í sambandi við verðlagningu smjörlíkis og öls fyrir nokkrum vikum. Hverjir voru hinir raunsæju menn í þeirri verðlagningu nema fulltrúar neytenda, nema fulltrúar launþegasamtakanna í landinu? Þegar hæstv. viðskrh. og hæstv ríkisstj. ætluðu að berja höfðinu við steininn og sinna ekki raunsæjum viðhorfum, þá tóku þessir fulltrúar launþegasamtakanna í taumana og kúguðu ríkisstj. og sérstaklega hæstv. viðskrh. til þess að fallast á hækkunina. Það er hægt að segja fleiri slíkar sögur. En sannleikurinn er sá, að ef menn horfast ekki í augu við verðmyndunina eins og hún er vegna raunverulegra kostnaðarþátta, þá hverfa vörurnar af markaðnum og þá myndast svartur markaður sem er ekki launþegum til hagsbóta nema síður sé.

Ég vil taka það fram, að það er bersýnilega sú trú hjá hv. stjórnarsinnum, að það sé hægt að blekkja fólk til þess að trúa því, að 8% kauplækkun miðað við gerða samninga verði uppi borin með sýndarmennsku, eins og fram kemur í dæmalausu orðalagi 2. og 3. gr. þessa frv. og raunar aukningu niðurgreiðslna vöruverðs í 1. gr. Niðurgreiðsla vöruverðs er þegar komin á það hátt stig, að hún skekkir alla verðmyndun í þjóðfélaginu, og við sjálfstæðismenn teljum nú þegar of langt gengið á þeirri braut, auk þess sem þessi niðurgreiðsla vöruverðs er auðvitað gerð á þeirri forsendu, að það sé ódýrast fyrir ríkissjóð að greiða niður vöruverð vegna þess að það vegur minna í útgjöldum fjölskyldunnar heldur en í kaupgjaldsvísitölunni eða framfærsluvísitölunni. Þarna er þess vegna um beina fölsun að ræða. Það kemur fram í áliti vísitölunefndar, að útgjöld vísitölufjölskyldunnar í framfærsluvísitölunni til matvörukaupa eru nær 30%, en samkv. þjóðhagsreikningum eru þau ekki nema um 20% í einkaneyslunni, þannig að niðurgreiðsla á matvörum er þarna auðvitað stórlega ýkt sem kjarabót fyrir launþega.

Ég vil svo, áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, láta það viðhorf koma hér fram, að hæstv. ríkisstj. segist vilja mjög náið samráð við launþegasamtökin í landinu. Mér er nær að halda að þetta samráð hafi verið af mjög skornum skammti. Mér er nær að halda að ekki hafi verið haldinn meira en einn og hálfur fundur, a.m.k. var það svo, að ekki var búið að halda fleiri fundi fyrir tæpri viku með svokallaðri samráðsnefnd. Það kann að vera, að einhverjir aðrir fundir hafi farið fram. En aðilar vinnumarkaðarins eru fleiri en launþegasamtökin. Það eru t.d. vinnuveitendasamtökin. Hafa fundir verið haldnir með fulltrúum vinnuveitendasamtakanna, og hver eru viðhorf þeirra til þessarar lagasetningar?

Ég held, að í þessum tillögum endurspeglist sú óraunhæfa skoðun núv. ríkisstj. og Alþb. sérstaklega, að það skipti ekki máli, hvort atvinnureksturinn í landinu ber sig eða ekki, það skipti ekki máli að leggja byrðar á atvinnureksturinn, vegna þess að byrðarnar á atvinnurekstrinum séu ekki byrðar á landsmenn. En auðvitað er hér um byrðar á landsmenn að ræða, vegna þess að því meiri byrðar sem lagðar eru á atvinnureksturinn, því síður er hann þess umkominn að geta bætt rekstrarskilyrði sín, afkomu, tækjakost og framleiðni sem er ein til þess fallin að hækka kaupgjald í landinu.

Þessi neikvæðu viðhorf til atvinnuveganna, til atvinnufyrirtækjanna, til atvinnulífsins í landinu eru til þess fallin að draga úr kjarabótum í framtíðinni og eru til þess fallin að við stöndum í stað og búum hér við lélegri lífskjör, miðað við aðrar þjóðir, í framtíðinni en vera þyrfti. Það er auðvitað ánægjulegt, ef einstök samtök verkalýðshreyfingarinnar hafa séð að sér og sjá eftir afstöðu sinni fyrr á árinu til mildari ráðstafana heldur en nú eru á dagskrá. Það er mjög ánægjulegt, ef samtök verkalýðshreyfingarinnar gera sér grein fyrir nauðsyn þess að vinna gegn verðbólgu og tryggja atvinnuöryggi og það verði ekki komist hjá nokkurri kjaraskerðingu, miðað við mælikvarða kaupmáttar kauptaxta eða kaupmáttar ráðstöfunartekna, ef á að takast að tryggja kaupmáttinn til frambúðar. Allt þetta er út af fyrir sig ákaflega lofsvert, þótt seint hafi fram komið og kjaraskerðingin þurfi nú að vera meiri en hefði þurft hefði verkalýðshreyfingin skilið sinn vitjunartíma fyrr.

Það er ákaflega athyglisvert að gera sér grein fyrir viðhorfum einstakra stjórnarflokka til þróunar mála eftir kosningaósigur Framsfl., sem ég skal ekki fara mörgum orðum um vegna þess að við urðum á þeim tíma fyrir bræðrabyltu að vissu marki. En eftir ósigurinn hefur Framsfl. fyllst slíkri minnimáttarkennd, að formaður hans, hæstv. forsrh., og Framsfl. í heild geta með engu móti slitið sig frá Alþb. og formanni þess, hv. f. þm. Austurl., hæstv. yfirráðh. allra annarra ráðh. ríkisstjórnarinnar. Allt, sem hann hefur sagt, er nákvæmlega „copierað“ af hæstv. forsrh. og Framsfl. og hann hengir hatt sinn á snaga Alþb. Ég verð að segja það, að hæstv. ráðh. og ágætir framsóknarmenn voru langtum raunsærri þegar þeir voru í betri félagsskap.

Það er svo aftur á móti um Alþb. að segja, að það fer í gegnum sig, fyrst við setningu brbl., og svíkur loforðið um samningana í gildi. Og enn fer Alþb, í gegnum sig við framlagningu þessa frv. og ætlar að fleyta sér áfram með sjónhverfingum og sýndarmennsku. Slík er virðing Alþb. fyrir dómgreind kjósenda í landinu. Ég er viss um að kjósendur munu gjalda því verðskulduð málagjöld þegar þeir fá tækifæri til.

Það er svo síðast rétt að víkja nokkrum orðum að Alþfl. sem hefur haft mörg og stór orð og talað um endurbætur á einu og öðru á mörgum sviðum, þar sem endurbóta er vissulega þörf. En hverjar eru efndirnar? Stóru orðin heyrast jafnvel enn í dag, efndirnar eru engar. Skilyrði eru sett í dag, horfið frá þeim á morgun. Þeir koðna niður. Alþb, og framsóknarmenn halda sitt í hvora hönd Alþfl., eins og væri um óþekkan krakka að ræða sem geri smávegis uppsteyt, en með í förinni verða Alþfl.-menn, — með í þeirri för sem þeir telja að leiði til ófarnaðar. Það var þó ákveðin karlmennska sýnd af Alþfl.-manni hér í dag, þegar forseti Ed., Bragi Sigurjónsson, sagði af sér forsetastörfum vegna þess að hann vildi ekki vera kenndur við þá stjórnarstefnu sem þetta frv. m.a. felur í sér. Við skulum vona að aðrir Alþfl.-menn taki hann sér til fyrirmyndar.

Ég held að það sé mjög rétt umsögn um þetta frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir, um frv. til l. um viðnám gegn verðbólgu, sem Bragi Sigurjónsson, hv. þm., orðaði: bitlaust og rangsleitið.

Ég tel að hér sé ekki tekið á vandanum eins og vera þyrfti. Hér er um enn nýjar bráðabirgðaráðstafanir að ræða, þótt sá tími ætti að vera kominn að ríkisstj. væri búin að gera upp við sig hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til frambúðar til þess að ráða niðurlögum verðbólgunnar, til þess að tryggja atvinnuöryggi og afkomu ríkissjóðs og landsins í heild gagnvart útlöndum. Ríkisstj. hefur ekki lagt fram þá stefnu. Ríkisstj. hefur með aðgerðum sínum, að svo miklu leyti sem fyrri stjórnarandstöðuflokkar eiga þátt að máli, svikið allt það sem lofað var kjósendum fyrir kosningar. En að svo miklu leyti sem þáttur Framsfl. telst í stjórnarstörfum, þá er hann fólginn í því að veita fyrri stjórnarandstöðuflokkum skálkaskjól, reyna að hylma með þeim yfir kosningasvikin. Þess vegna er þessi stjórnarsamvinna dæmd til þess að mistakast.

Núv. ríkisstj. mun ekki leysa vandann sem við blasir. Reynslan af ferli hennar er eingöngu sú, að hún hefur aukið á vandann sem við er að glíma. Þess vegna væri eðlilegt að þessi ríkisstj. leystist upp, en hins vegar væru málin lögð að nýju fyrir kjósendur og þeir látnir dæma um loforð og efndir og frammistöðu alþm. sem í síðustu kosningum töldu þjóðinni trú um, að allir gætu fengið allt sem hugurinn girntist, enginn þyrfti að taka tillit til annars, enginn þyrfti hér á Íslandi að taka tillit til viðskiptakjara eða viðskipta við umheiminn, við værum í raun og veru í þeirri stöðu að geta skammtað okkur sjálfum það sem við vildum öðlast. En þannig er lífið því miður ekki. Við þurfum að laga okkur að ytri aðstæðum og við þurfum að skipta upp því, sem aflast, réttlátlega á milli okkar, milli þess, sem við viljum leggja til hliðar til að tryggja lífsafkomuna í framtíðinni, og þess, sem við eyðum á líðandi stund. Það er þessi tekjuskiptingarvandi sem við Íslendingar höfum ekki getað leyst, ekki getað komið okkur saman um, hvernig leysa skuli, í og með vegna þess að vitandi vits reyna þjóðfélagsöfl hér á landi að sá fræjum tortryggni meðal okkar, — tortryggni sem gerir þetta vandamál erfitt úrlausnar. Það eru þau þjóðfélagsöfl sem vilja núverandi þjóðskipulag feigt, — það þjóðskipulag sem þó bæði hér á landi og annars staðar hefur veitt mönnum bestar kjarabætur, mest frelsi og er þroskavænlegast fyrir okkur.