27.11.1978
Neðri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Nokkur orð um þetta æðistóra mál.

Ástæðurnar til þeirra ráðstafana, sem frv. þetta fjallar um, eru þær, að verðlag hefur hækkað svo að nemur 14.13% í verðbætur á kaup fyrir s.l. þrjá mánuði. Það er auðvitað öllum ljóst, að ef slík verðlagsþróun fær að halda hömlulaust áfram er okkur áreiðanlega mikill vandi á höndum. Verkalýðshreyfingin vill að sínu leyti taka þátt í viðnámi gegn þessari óheillaþróun. En jafnframt bendir hún mjög staðfastlega á, að það er ekki kaupgjaldið, það er ekki kaup hins almenna verkafólks sem er bölvaldurinn í þessum efnum, eins og allt of margir virðast nú álita.

Um efnisatriði þessa frv. vil ég aðeins segja það, að niðurgreiðslur á vöruverði hafa ávallt verið metnar til jafns við kaup af verkalýðshreyfingunni. Þetta hefur viðgengist í æðimörg ár og raunar áratugi. Auðvitað þarf fjármagn til þess að standa undir þeim kostnaði, sem ríkissjóður tekur þannig á sig, og auðvitað er okkur ekki sama hvert þetta fjármagn er sótt. Við væntum þess, að það verði tekið af þeim sem hafa mest greiðsluþolið, og í grg. frv. er gert ráð fyrir því.

Annað atriðið er skattalækkun sem nemur 2% í kaupi. Hana er hægt að meta til 2% í kaupi. Það er auðvitað ákaflega mikið undir því komið, hvernig framkvæmd þessara mála verður. Ég vænti þess, að hún verði með þeim hætti, að almennir launþegar geti að fullu metið þennan lið til jafns við kaupið.

Í þriðja lagi er um að ræða það, sem felst í 3. gr. frv. Þar er um að ræða félagslegar umbætur eða félagsleg kjaraatriði, skulum við segja, sem metin væru á borð við 3% í kaupinu. Þennan lið er að sjálfsögðu mjög erfitt að meta og hann verður naumast metinn. Ég þekki ekki þann aðila, sem gæti metið hann út af fyrir sig inn í vísitöluútreikningana, enda hlýtur þetta atriði að snúa mjög misjafnt að launþegum. Það er óhjákvæmilegt annað. En verkalýðshreyfingin hefur mjög oft staðið í samningum um kaupgjald og kjör. Það er þess vegna ekkert nýmæli, að kjaraatriði séu metin til jafns við kaup. Það er venjulega þannig í samningum, að allt er vegið saman að lokum, kaupgjaldið og kjaraatriði, sem um hefur verið deilt. Á sama hátt má segja að nú sé ástatt. Hins vegar mun ég ekki dylja neinn þess, að hér er um eftirákaup að ræða og segja má að verkalýðshreyfingin gefi hér eftir vissan hluta af umsömdu kaupi gegn þessum kjaraatriðum. Þetta verðum við a.m.k. að segja þar til við sjáum hvernig framkvæmdum varðandi þennan mjög svo þýðingarmikla félagslega kjaraatriðaþátt verður háttað. Ég held að það sé rétt að menn kalli hlutina réttum nöfnum.

Það er hins vegar auðvitað algerlega rangt, sem kom fram hér í kvöld hjá hv. 4, þm. Reykv., Geir Hallgrímssyni, að með þessu frv. sé kaupgjald skert um 8%. Ég þarf ekki að hafa um það fleiri orð. Hann veit ósköp vel sjálfur, að svona er málum ekki háttað. Það hefði verið fróðlegt að heyra eitthvert slíkt mat hjá þessum hv. þm., þegar aðgerðirnar í vetur voru á dagskrá.

Grundvallarmarkmið verkalýðshreyfingarinnar í þessum efnum er að sjálfsögðu að tryggja kaupmátt launanna sem allra best og að tryggja atvinnuöryggið. „Fleiri krónur í umslagið“ hefur aldrei verið keppikefli verkalýðshreyfingarinnar út af fyrir sig, heldur verðmætið, kaupmáttur þeirra króna sem um er samið. Þess vegna er afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þessara mála nú ekkert nýmæli. Svo lengi sem ég man til í þessum efnum hefur verkalýðshreyfingin ávallt boðið ríkisstj., hverju nafni sem þær nefnast, að meta til jafns við kaupið ýmis atriði varðandi efnahagsstjórnun. Ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar stóð þetta einnig til boða.

Vegna ræðu hv. 4. þm. Reykv. hér í dag vildi ég gjarnan rifja upp hvernig ríkisstj. hans stóð að kjaramálunum. Ég stikla á ákaflega stóru.

Á árunum 1975 og 1976 lækkaði kaupmáttur almennra launa um 25–30%, en verðbólgan magnaðist samt. Aðgerðir fyrrv. ríkisstj. mörkuðust fyrst og fremst af því sjónarmiði, að kaupgjald verkafólks væri aðalverðbólguvaldurinn. Á annað kom hún ekki auga. Samningarnir, sem gerðir voru í júní 1977, voru andsvar verkalýðshreyfingarinnar gegn kjaraskerðingarstefnu fyrrv. ríkisstj. Og þrátt fyrir að þeir samningar væru býsna háir í prósentutölum á kaupið, þá náðu þeir ekki að jafna þá skerðingu sem orðin var á kaupgjaldinu. Þessir samningar hefðu sannarlega átt að kenna fyrrv. ríkisstj. að láta af sífelldri styrjöld gegn verkalýðshreyfingunni. Þá, að júnísamningunum gerðum, hefði átt að taka upp viðnámsaðgerðir, t.d. í þeim dúr sem núv. ríkisstj. er að reyna.

Ekkert í þá átt var gert, kannske heldur það gagnstæða. Styrjöldinni var haldið áfram og með febrúar — eða marsaðgerðunum, þegar sólstöðusamningarnir voru aðeins 7 mánaða gamlir, var enn ráðist gegn kjarasamningunum og þeim rift með lögum hér frá hinu háa Alþingi. Með þeim samningum voru vísitölubætur að mestu skertar um helming. Að vísu var með brbl. í maí aðeins dregið í land, og náttúrlega réð þar einvörðungu hin þróttmikla barátta verkalýðshreyfingarinnar gegn þessum aðgerðum og hræðsla stjórnarflokkanna við komandi kosningar.

En þó að aðeins væri dregið í land með brbl. í maí þá fylgdu hins vegar þær aðgerðir, sem verkuðu eins og olía á eld. Þá var yfirvinnuálagið bæði á eftirvinnu og næturvinnu og ýmis önnur kjaraatriði og kaupgjaldsákvæði skert á þann hátt, að engin vísitala, engar vísitölubætur áttu að koma á þennan hlut. Ef þessu hefði haldið fram eins og þáv. ríkisstj. stefndi að, þá væri eftirvinnuálag nú sennilega komið nokkuð niður fyrir 20% í stað 40% í kjarasamningunum og næturvinnuálagið komið sennilega eitthvað niður undir 30–40% í stað 80% í samningunum.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson sagði í dag, að með ráðstöfunum núv. ríkisstj. í sept. hefði láglaunafólkið ekkert fengið í sinn hlut. Þó að maður reikni ekki það sem kom með samningunum, þ.e.a.s. á dagvinnuna, þá er það ekki neitt smáatriði að þetta mjög svo rangláta fyrirkomulag varðandi yfirvinnuna og önnur kaupgjaldsákvæði, sem því fylgdu, var numið úr gildi. Það er atriði sem verkalýðshreyfingin metur.

En hver mundi kaupmátturinn vera, ef fram hefði haldið lögum fyrrv. ríkisstj.? Ekki hef ég það á reiðum höndum. En ekki er nokkur vafi á að hann væri æðimiklu rýrari en hann er í dag. Höfum það einnig í huga að það var mjög ákveðin yfirlýsing ríkisstj. í febr. í fyrra, þegar þau lög voru sett, að þar væri aðeins um byrjun að ræða. Það var miklu meira sem átti að gera. Og sannfærður er ég um að ef þáv. stjórnarflokkar hefðu haldið völdum, þá væri nú búið að afnema allar verðbætur á kaup. Það styð ég m.a. þeim rökum, að tillaga Vinnuveitendasambandsins nú fyrir stuttu í vísitölunefndinni var sú, að engar verðbætur yrðu greiddar á kaup 1. des. og áfram. Að vísu var sagt að athuga mætti það mál síðar, — þegar búið væri að vinna bug á verðbólgunni og eitthvað hægðist um í þessum efnum, þá mætti athuga málið á ný. Og þegar maður hefur í huga, að það hefur sjaldnast liðið langt á milli yfirlýstrar stefnu Vinnuveitendasambandsins í kaupgjaldsmálum og stefnu forustuliðs Sjálfstfl., þá er enginn vandi að álykta sem svo, eins og ég áðan gerði, að ef Sjálfstfl. hefði haldið völdum sínum, þá væri nú búið að afnema allar verðbætur á laun.

Það er nokkuð áliðið kvölds og ég skal ekki hafa mál mitt miklu lengra. En ég vil þó segja það, að ég er ekki fyllilega ánægður, síður en svo, með ýmis atriði í þessu frv. og grg. þess, sem er eins konar stefnuyfirlýsing. Ég vil þar sérstaklega nefna fyrstu þrjá tölul., sem snúa að kaupgjalds- og vísitölumálum. Það er út af fyrir sig ágætt mark til að keppa að því, að verðlags- og peningalaunahækkanir, eins og þar segir, 1. mars verði ekki meiri en 5%. En þetta verður að vera árangur af öðrum aðgerðum en niðurskurði kaups, þá er ekkert nema gott eitt um þetta að segja. Eins er um 2. og 3. tölul. að segja, — má segja að 1. og 2. falli kannske alveg saman. Í 3. tölul. er fram tekið að vísitöluviðmiðun launa verði breytt fyrir 1. mars 1979 að höfðu samráði við fjölmennustu heildarsamtök launafólks. Hér er að vísu rætt um samráð, en engan veginn útilokað, sýnist mér að það gæti ekki gerst þó að það samráð bæri ekki árangur. Vona ég þó að til þess komi ekki. Hins vegar er síðari hluti þessa tölul. sá, að vísitölunefnd er nú enn fengið það verkefni að skila till. fyrir 15. febr., sem unnt væri að byggja á í þessu sambandi, og þar er m.a. minnst á viðmiðunina við viðskiptakjör. Um þetta atriði vil ég aðeins segja það, að verðbótaákvæðin eru mjög stór hluti af kjarasamningum okkar þegar jafnmikil verðbólga er og nú er í raun. Þar af leiðandi hljóta þessi mál að vera ákaflega viðkvæm. Hér er verið að fjalla um einn meginþátt kjarasamninga, og ég álít að það sé rangt að segja vísitölunefnd — en hún á að starfa áfram — undir þann þrýsting sem gert er í 3. tölul. Eins og var markmiðið með 20. nóv. s.l. var rangt, eins álít ég að þetta sé rangt. Ef ná á árangri í þessum efnum verður að fjalla mjög vandlega um þessi mál og ekki beita þeim þrýstingi sem mér sýnist að hér sé stefnt að. Málin vinnast ekki á þann háu. Ég vil sem sagt vara við því, að þetta verði gert að einhverju aðalatriði í framhaldi þessara mála.

Stjórnarandstæðingar, sem hér hafa talað, vilja gjarnan halda því fram, að um mikla hugarfarsbreytingu sé að ræða hjá forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar. Ég held að það hafi raunar þegar verið gerð grein fyrir því, að svo er ekki. Hins vegar eigum við nú að mæta allt öðrum skilningi hjá þessari ríkisstj. en fyrrv. ríkisstj. í afstöðu til kjaramála verkalýðsstéttarinnar. Það er aðeins þetta sem veldur því að við tökum nú þannig á málunum sem gert er. Okkur hefði farið eins við fyrrv. ríkisstj., ef hún hefði viljað fara þessa leið.

Ég get ekki stillt mig um að koma aðeins að þætti hv. 7. þm. Reykv., talsmanns Alþfl. í þessum umr., og skal gera það í örstuttu máli. Hann ræddi um að Alþfl. hefði viljað fara öðruvísi að og setja þak á launagreiðslur. Það liggur ósköp ljóst fyrir, hvaða hugmyndir Alþfl.-menn voru með. Þær voru, að nú skyldu aðeins 3.6% fara út í kaupgjaldið af þessum rösku 14%, sem samningar mæla fyrir um, og í hæsta lagi 4% á verðbótatímabili næsta árs. Það er augljóst, að ef þessu hefði farið fram hefði kaupmáttarskerðing orðið mjög mikil. Ég held að það sé rétt, sem hér var sagt áðan af hv. þm. Kjartani Ólafssyni, að þetta mundi sennilega verða mun meiri skerðing en fólst í lögum fyrrv. ríkisstj. frá því í febr. og maí. Að þessu viljum við Alþb.-menn ekki standa.

Hv. þm. taldi að Alþb. væri að reyna að bjarga sér út úr loforðaglamrinu, eins og hann orðaði það, frá því í kosningabaráttunni og fyrr. Ef átt er með þessu við kjörorðið „samningana í gildi“, þá man ég nú ekki betur en það kjörorð væri einnig haft á spjöldum Alþfl. fyrir kosningar. Ég hygg nú, að kannske hafi enginn einstaklingur átt meiri þátt í því að móta það kjörorð en Björn Jónsson forseti Alþýðusambands Íslands, Alþfl.maðurinn Björn Jónsson.

Hv. þm. minntist á að taka þyrfti upp nútímalegri vísitölu en þá, sem fundin var upp 1939. Mér liggur nú við að segja, að hv. þm. stefni einmitt að svipaðri vísitölu og var tekin upp 1939. Samkv. þeirri vísitölu, ef ég man rétt og bið um leiðréttingu ef rangt skyldi vera, en ég man ekki betur en þá væri með lögum ákveðið að aðeins 3/4 af því, sem verðlag hækkaði um, skyldi bætt með vísitölu á kaupið. Og það er nálægt því og þó kannske öllu meira en manni virðist að þessi hv. þm. vilji stefna að.

Hv. þm. gat þess, taldi það eiginlega sjálfsagt, að á alvörutímum yrði Alþ. að taka af skarið í kjaramálum. Ekki ætla ég að vefengja rétt Alþ. til þess að gera það. En það er augljóst, að þegar hann talaði um að Alþb. væri ekki hæft til að stjórna á erfiðum tímum var hann í raun og veru að miða á það, að Alþb. hefði ekki viljað fallast á þá miklu launaskerðingu sem fólst í till. Alþfl. Það er alveg rétt, slíkt vill Alþb. ekki fallast á. Og það er eins gott að menn hafi það mjög fast í buga, þeir sem vilja líf þessarar ríkisstj. og raunverulega styðja að því að hún geti starfað áfram, að slíkar ráðstafanir verða aldrei gerðar með samþykki verkalýðshreyfingarinnar. Ef á að knýja þær í gegn á Alþ. án þess, þá spyr ég: Hvar er líf þessarar ríkisstj. þá?