28.11.1978
Sameinað þing: 28. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

83. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Hér er spurt, hversu mikið framlög úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skerðist á árunum 1978 og 1979 vegna niðurfellingar söluskatts á matvörum, hvort ríkisstj. hyggist bæta sveitarfélögunum þennan tekjumissi og ef svo er með hvaða hætti.

Samkv. 9. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nemur það framlag ríkissjóðs, sem hér um ræðir, 8% af söluskatti samkv. lögum nr. 10 frá 1960, um söluskatt. Þessi lög kveða á um 11% söluskatt og er hluti Jöfnunarsjóðs því 8% af þeim söluskattstekjum, en ekki öllum söluskattinum eins og hann er nú orðinn.

Niðurfelling söluskatts á matvörum var einn liður í ráðstöfunum núv. ríkisstj., sem gerðar voru í septemberbyrjun s.l. til að hamla gegn verðbólgunni. Þessi lækkun á útsöluverði matvöru kemur fram í minni hækkun launakostnaðar en ella hefði orðið og veldur því útgjaldalækkun fyrir sveitarfélögin eða öllu heldur minni útgjaldahækkun en ella hefði orðið.

Rétt mynd af afleiðingum þessara aðgerða á afkomu sveitarfélaganna fæst ekki nema báðar hliðar dæmisins séu skoðaðar. Þjóðhagsstofnunin hefur reiknað út, að rýrnun tekna Jöfnunarsjóðs vegna niðurfellingar söluskatts nemi 100 millj. kr. á þessu ári. Þessi útreikningur byggist á fjárlagatölu 1978, sem var 4 milljarðar 860 millj. Nú er hins vegar ljóst, að framlag ríkisjóðs verður í raun töluvert hærra, því að alls verða tekjur Jöfnunarsjóðs um 6900 millj. á árinu. Þar af eru landsútsvörin um 750 millj. og framlag ríkissjóðs því um 6 milljarðar 150 millj. Miðað við þessar breyttu forsendur gæti því rýrnun tekna Jöfnunarsjóðs orðið allt að 125 millj. kr. á þessu ári.

Nokkru örðugra er að gera sér grein fyrir þeim útgjaldasparnaði, sem leiðir af þessum ráðstöfunum fyrir sveitarfélögin. Þó má í stórum dráttum ætla að rekstrarútgjöld sveitarfélaganna séu á ársgrundvelli um 25–30 milljarðar og þar af séu laun og launatengd gjöld ekki undir 15 milljörðum. Niðurfelling söluskattsins á matvörum kom í veg fyrir 2.9'% launahækkun, sem jafngildir þá um 450–500 millj, kr. lækkun rekstrarútgjalda sveitarfélaga á ársgrundvelli frá því sem ella hefði orðið. Er því næsta ljóst, að rekstrarafkoma sveitarfélaganna hefur ekki versnað á árinu vegna þessara aðgerða út af fyrir sig og tekjumissir sveitarfélaganna því í raun og veru þegar bættur: Af hálfu ríkisstj. eru því ekki fyrirhugaðar frekari aðgerðir af þessu tilefni.

Árið 1979 verður rýrnun á tekjum Jöfnunarsjóðs vegna umræddrar niðurfellingar söluskatts um 420 millj. miðað við teknaáætlun fjárlagafrv. fyrir það ár, en í raun eitthvað meiri fari þessar tekjur fram úr áætlun, eins og oftast mun hafa orðið raunin. Tilsvarandi útgjaldalækkun ætti samkv. framansögðu ekki að nema lægri fjárhæð. Hitt er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að þetta er eini tekjustofn sveitarfélaganna, sem er í reynd verðtryggður, og þess vegna mikil eftirsjón að þessum hluta tekna þeirra.

Það væri freistandi að taka fjármál sveitarfélaganna til ítarlegri umr. í tilefni af þessari fsp., en til þess gefst ekki tóm núna. Ég vil þó benda á að verðbólgan hefur sannarlega leikið flest sveitarfélögin harla gráu, því að ljóst er að við ríkjandi aðstæður verða útsvörin þeim engan veginn sú tekjulind sem lögin um tekjustofna þeirra gera ráð fyrir. Baráttan við verðbólguna er því að mínu mati mesta hagsmunamál sveitarfélaganna. Jafnvel þótt heimildinni til hækkunar útsvara úr 10 í 11% sé beitt, verða tekjurnar í raun miklu minni, þar sem ætíð er lagt á tekjur gjaldandans næstliðið almanaksár. Í 40% verðbólgu nema útsvörin í reynd aðeins um 7.8'%, og tæpast nema 7.2% þegar verðbólgan kemst upp í 52% á ári.

Þessu vandamáli hef ég hreyft í ríkisstj. og gert grein fyrir tveimur mögulegum leiðum til úrbóta: Annars vegar hækkun álagningarprósentunnar, ef verðbólgan fer yfir ákveðið stig, og hins vegar staðgreiðslukerfi útsvara. En ég tek það skýrt fram, að um þetta hefur engin samþykkt verið gerð í ríkisstj. Þetta eru hugmyndir mínar. Það mætti hugsa sér að heimild til hækkunar í 12% mætti nota, ef verðbólga færi yfir 25% á ársgrundvelli, og kannske upp í 13%, ef hún færi yfir 40%. En ég ítreka það, að þetta eru hugmyndir mínar. Það hefur alls ekki verið samþykkt neitt í þessa átt í ríkisstj. Hinn kosturinn er staðgreiðslukerfi útsvara og sá kostur er að mínu mati miklu betri og er sú leið fær, þótt staðgreiðsla skatta komist ekki í framkvæmd samhliða. Undirbúningur að þessari breytingu mun þó taka lengri tíma en svo, að hún geti komist á um næstu áramót. Hins vegar ætti það að vera auðvelt um áramótin 1979–1980, ef vilji er fyrir hendi. Ég tek að lokum fram, að þótt þessar hugmyndir hafi verið kynntar og ræddar lítillega í ríkisstj. hefur engin ákvörðun verið tekin um þær.

Herra forseti. Ég skil vel þær ástæður, sem liggja að baki fsp. frá hv. fyrirspyrjanda, og ég ítreka það, að það er ekkert einstakt hagsmunamál sveitarfélaganna stærra en það að ráða niðurlögum verðbólgunnar.