28.11.1978
Sameinað þing: 28. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

83. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma hér að smáaths. í sambandi við þetta mál.

Þegar ljóst var að þær ráðstafanir, sem ríkisstj. gerði á s.l. hausti, mundu hafa þær afleiðingar að tekjur sveitarfélaga af söluskatti rýrnuðu, ákvað stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga að ganga á fund ráðh. og átti fund með hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. um málið og gerði þeim grein fyrir því, hvernig staða sveitarfélaga eða fjárhagur sveitarfélaga væri um þessar mundir og hvaða afleiðingar þessi ráðstöfun mundi hafa.

Það hefur komið hér fram áður og hefur raunar verið opinbert, að tekjustofn sveitarfélaga, útsvörin, 11%, er að raungildi aðeins 7.3% miðað við verðbólgu sem geisar í landinu. Ég tek það fram, að sveitarfélögin hafa miklar áhyggjur af þessum málum og á fundum og ráðstefnum þeirra hefur verið rætt um það í alvöru, til hvaða ráða mætti grípa til þess að styrkja stöðu þeirra til þess að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin. M.a. hefur það komið fram, sem hæstv. ráðh. minntist á áðan, að sveitarfélögin hafa gjarnan viljað láta athuga það í fullri alvöru, hvort ekki væri möguleiki á því að taka upp staðgreiðslukerfi útsvara án þess að tengja það staðgreiðslukerfi skatta. Þetta er mál, sem sveitarstjórnarmenn hafa mikinn áhuga á, og ef það er framkvæmanlegt, þá verði það undirbúið. Það má segja, að það sé neyðarúrræði að fara inn á þá braut að ákveða 12 eða 13% útsvarsálagningu ef hægt er að gripa til annarra ráða.

Ég vil minna á það einnig í leiðinni, að það hefur verið ósk sveitarfélaga lengi að þau fengju hlutdeild í öllum söluskattinum, þ.e.a.s. öllum söluskattsstigunum, en svo er ekki í dag. Ef hægt væri að verða við þessu mundi það bæta að vissu marki þetta vandamál sveitarfélaganna.

Ég vil nota tækifærið hér til þess að ítreka það enn, að ég vona að ríkisstj. taki þessi mál til mjög gaumgæfilegrar athugunar þar sem fjárhagur sveitarfélaga er ekki síður þýðingarmikill en fjárhagur ríkisins.