28.11.1978
Sameinað þing: 28. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

335. mál, atvinnumöguleikar ungs fólks

Fyrirspyrjandi (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Hinn 6. maí 1978 var samþ. svo hljóðandi þáltill. um atvinnumöguleika ungs fólks, sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta gera athugun á vinnuaflsþörf íslenskra atvinnuvega í nánustu framtíð með sérstöku tilliti til atvinnumöguleika ungs fólks. Við gerð þessarar athugunar verði lögð áhersla á að ganga úr skugga um, hvort æskilegt jafnvægi sé milli menntunar ungs fólks annars vegar og eðlilegra þarfa atvinnuveganna hins vegar í þeim efnum.

Athugun þessari skal lokið fyrir árslok 1978.“

Af þessu tilefni leitaði ég mér upplýsinga í félmrn., en þangað var þessi samþykkt Alþ. send. Samkv. upplýsingum í rn. frá Jóni S. Ólafssyni hefur rn. ekki gert neitt í þessu máli. Það þarf tíma til að gera þessar kannanir, eins og hv. þm. hlýtur að vera kunnugt, en hálfnað er verk þá hafið er. Verkið er bara ekki hafið.

Af þessu gefna tilefni hef ég leyft mér að flytja á þskj. 109 svo hljóðandi fsp. til hæstv. félmrh:

„Hvað hefur ríkisstj. gert í könnun þeirri á vinnuaflsþörf íslenskra atvinnuvega í nánustu framtíð, sem samþ. var að gerð skyldi, samkv. þáltill. samþykktri á Alþ. 6. maí 1978, um atvinnumöguleika ungs fólks, þar sem kanna átti jafnvægi milli menntunar ungs fólks annars vegar og eðlilegra þarfa atvinnuveganna hins vegar?“