28.11.1978
Sameinað þing: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Fréttin í Ríkisútvarpinu í gærkvöld, sem fyrirspyrjandi gerði að umræðuefni áðan, kom okkur ráðh. Alþb. jafnt á óvart sem flestum öðrum landsmönnum, geri ég ráð fyrir. Í morgun vakti hæstv. utanrrh. máls á þessu máli í ríkisstj. og þar var það rætt. Af því tilefni gerðum við ráðh. Alþb. svofellda bókun:

„Vegna fram kominnar heiðni utanrrh. við bandaríska sendiherrann í gær, þar sem þess var óskað að fyrirhugaðar takmarkanir á endurráðningu starfsmanna í herstöðvum Bandaríkjamanna verði ekki látnar gilda fyrir herstöðina í Keflavík, viljum við ráðh. Alþb. taka fram:

Við erum andvígir vinnubrögðum og stefnu utanrrh. í þessu máli. Í stað þess að fara bónarveg að bandarískum stjórnvöldum teljum við að bregðast eigi við samdrætti í vinnu á vegum hersins á Keflavíkurflugvelli með sérstöku átaki til að tryggja hlutaðeigandi vinnu við þjóðnýt störf með hliðsjón af atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.“

Þetta var bókun okkar og ég ætla ekki að bæta þar miklu við. Það er þó álit mitt að þau fyrirmæli, sem frést hefur um vestan um haf, að Bandaríkjamenn hygðust í herstöðvum sínum draga úr starfsmannahaldi eins og hæstv. utanrrh. hefur greint hér frá, ættu að vera okkur Íslendingum fagnaðarefni og verða til þess að stappa í menn stálinu til að draga úr þeim efnahagslegu áhrifum sem herstöðin í Keflavík hefur á atvinnulíf okkar. Mér sýnist á viðbrögðum hæstv. utanrrh. og þeirra, sem undir hans sjónarmið taka, að það sé annað en varnir landsins, sem haft er í huga í þessu sambandi. Það sé miklu fremur hugsað um efnahagslegan ábata. Kunnugt er að við Alþb.-menn teljum herstöðina í Keflavík ekki varnarstöð og ekki til þess fallna að tryggja öryggi Íslands eða Íslendinga. En burt séð frá því teljum við sérstaklega ámælisvert og raunar fyrirlitlegt það sjónarmið, að okkur beri að hafa þessa herstöð til þess að hagnast á henni svo sem frekast er kostur, en það viðhorf virðist hafa átt fylgi að fagna allt of margra Íslendinga nú hin síðari ár og e.t.v. í vaxandi mæli, enda ýtt undir það af ýmsum stjórnmálamönnum, sem maður hefði kosið að tækju öðruvísi og ábyrgar á þessum málum. Það væri ekki úr vegi, að menn hugleiddu í þessu samhengi spurninguna: Hvar verður komið efnahagslífi og atvinnu á Suðurnesjum, ef sú ákvörðun verður tekin einn góðan veðurdag vestur í Washington að leggja herstöðina í Keflavík niður?