28.11.1978
Neðri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Heldur þykir mér nú hvimleitt að þurfa að munnhöggvast mikið í sölum hv. d. við þá félaga mína Alþb.-menn, félaga í ríkisstj. vænti ég. En vegna ummæla hv. 1. þm. Austurl. um Alþfl. og þær till., sem hann segir að flokkurinn hafi lagt fram í efnahagsmálum, sé ég mig til neyddan að leiðrétta nokkuð orð hans.

Hv. þm. sagði í ræðu fyrr í dag, að till. Alþfl. hefðu einkum beinst að því að lögbinda launahækkanir á næsta ári sem næmi 4% á ársfjórðungsfresti. Í þeim till., sem Alþfl. lagði síðast fram í ríkisstj. vegna þessa máls, segir orðrétt:

„Lögbundið verði að laun megi ekki hækka nema sem nemur 4% þann 1. mars n.k., nema því aðeins að náðst hafi samkomulag fyrir þann tíma um nýtt vísitölukerfi, er taki mið m.a. af viðskiptakjörum.“

Þetta voru þær till., sem Alþfl. kom með fram á þessu sviði.

Úr því að hv. þm. hefur verið að agnúast við Alþfl. fyrir þetta atriði, þá væri kannske rétt að benda þingheimi á atriði í grg., sem fylgir með frv. því, sem við fjöllum hér um, sem hann og flokkur hans hefur vissulega samþ., og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Stefnt verði að því í samráði við aðila vinnumarkaðarins að verðlags- og peningalaunahækkanir 1. mars 1979 verði ekki meiri en 5%.“

Það er 1% munur á þeim till., sem Alþfl. gerir þarna, og því, sem Alþb. hefur undirritað í grg. sem fylgir með þessu frv. (Gripið fram í. ) Það stendur hér: verðlags- og peningalaunahækkanir.

Í umr. hér á Alþ. um frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu hefur sú skoðun annars komið fram hjá flestum ræðumönnum, að ekki sé nóg að gert. Þetta sjónarmið hefur einnig komið fram í viðtölum við forustumenn verkalýðshreyfingarinnar. Enginn dregur í efa að hér séu á ferðinni bráðabirgðaráðstafanir, sem ætlað sé að veita ríkisstj. enn þá einu sinni svigrúm til frekari aðgerða.

Í grg., sem frv. fylgir, koma raunar fram flest þau atriði, sem Alþfl. krafðist að yrðu tekin fastari tökum. Þar er greint frá þeim vilja ríkisstj., að verðbólgan verði komin niður fyrir 30% í lok næsta árs. Samt sem áður eru menn stöðugt að tala um verðbólgustig, sem ekki fari niður fyrir 35%. Enn eru þetta þó aðeins orð á pappír, og samþykki Alþfl. er við það miðað að athafnir fylgi í þessu tilviki orðum. Flokkurinn mun herða róðurinn í baráttunni gegn verðbólgunni og hann mun reyna að fá samstarfsflokkana til að viðurkenna í raun, að verðbólgan hafi rýrt og skert launatekjur almennings meira en nokkuð annað tiltekið atriði á efnahagsmálasviðinu.

Það skal engin dul á það dregin, enda hefur það komið skýrt í ljós að undanförnu, að stjórnarflokkarnir eru ekki sammála, og þættu nú engum mikil tíðindi. Alþfl. hefur litið á verðbólguna sem höfuðóvin þjóðfélagsins og haft það efst á verkefnalista sínum að berjast gegn henni. Hann telur að með nánu samráði núv. ríkisstj. við launþegasamtökin hafi skapast óvenjugóður grundvöllur til þeirrar baráttu, sem nú verður að hefjast. Með kröfum Alþfl. um aðgerðir, sem fram koma í grg. frv., reyndist unnt að knýja-að knýja, segi ég, ríkisstj. til ákveðnari afstöðu en ella hefði orðið. Barátta flokksins innan ríkisstj. hefur því borið talsverðan árangur, þótt engum endanlegum markmiðum hafi verið náð að mínu mati. Þessar staðreyndir ollu því m.a., að Alþfl. ákvað að styðja frv. um tímabundnar ráðstafanir. Hann gerir sér fyllilega ljóst, að í þriggja flokka samsteypustjórn er ekki unnt að koma fram öllum málum. Það er afstaða þriggja flokka sem mótar heildarstefnuna að lokum. Hins vegar hafa þm. Alþfl. tekið þá ákvörðun, að verði tímabilið til 1. mars n.k. ekki notað út í hörgul til raunhæfari aðgerða verði þeir í raun lausir allra mála. Næstu vikur og mánuðir geta því orðið afdrifaríkir fyrir núv. stjórnarsamstarf, og þetta gera allir sér ljóst. Það væri hins vegar hörmuleg niðurstaða að mínu mati, bæði fyrir núv. ríkisstj. og verkalýðshreyfinguna í heild, ef tíminn yrði ekki vel notaður og upp úr slitnaði.

Verkalýðshreyfingin getur ekki vænst þess, ef upp úr slitnar í þessari ríkisstj., að önnur svipuð verði mynduð í bráð. Það mundi engum gagna, ef núv. ríkisstj. gæfist upp við að leysa efnahagsvandann, þótt verkalýðshreyfingin beitti þrýstingi gegn annarri ríkisstj. sem á eftir kæmi. Efnahagsástandið er nú svo með ólíkindum slæmt, að órói á vinnumarkaði, verkföll og vinnudeilur, mundu aðeins sökkva þjóðarskútunni enn dýpra en hún siglir nú, svo vart yrði í mannlegu valdi að koma henni á flot aftur. Það er hins vegar allra hagur, svo ég noti orðalag fyrrv. hæstv. forsrh., að nú takist þjóðarsátt og að ríkisstj. fái frið til að kveða verðbólguna niður og koma á jafnvægi í efnahagsmálum, ef það á annað borð er ætlun hennar. Engin kjaraskerðing yrði verri en sú, að yfir þjóðina dyndi atvinnuleysi og stöðvun atvinnurekstrar. Það eru kannske of fáir Íslendingar, sem muna þá tíma þegar verkalýðshreyfingin háði baráttu við vofu atvinnuleysis, nauðsynjavörur voru skammtaðar og að kreppti á flestum sviðum. Þetta ástand þyrfti allur almenningur í landinu að hafa í huga þegar hann tekur afstöðu til ríkisstj. yfirleitt og baráttu hennar gegn verðbólgunni.

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu. Samkv. því er gert ráð fyrir að launahækkanir hinn 1. des. n. k. verði um 6%, en um 8% þeirra launahækkana, sem áttu að koma til útborgunar 1. des. samkv. kjarasamningum, verði bætt upp með ýmsum aðgerðum. Það dregur enginn í efa, að hér eru á ferðinni skammtímalausnir í efnahagsmálum. Í ríkisstj. varð ekki samkomulag um frekari aðgerðir bundnar í lagasetningu. Ég harma það mjög og tel að þessar ráðstafanir séu hvergi nærri fullnægjandi. Ég mun hins vegar greiða þessu frv. atkv. mitt af þeirri einföldu ástæðu, að ég sé enga aðra lausn betri eins og sakir standa.

Alþb. og Framsfl. gátu ekki fallist á till. Alþfl. um aðgerðir út árið 1979. Ástæðurnar fyrir afstöðu flokkanna beggja eru skiljanlegar. Alþb. hafði þá kröfu á oddinum í kosningabaráttunni, að kjarasamningar skyldu áfram vera í gildi. Af þessari ástæðu einni og henni einni getur Alþb. ekki fallist á till. er kynnu að snerta við vísitölu framfærslukostnaðar. Þetta er ljóst. Framsfl. hefur hins vegar brennt sig illilega á því að skerða samninga með lagaboði og mun vart reyna það í bráð.

Þegar Alþfl. stóð frammi fyrir því, að till. hans um frekari aðgerðir í efnahagsmálum í samráði við launþegahreyfinguna náði ekki fram að ganga, átti hann aðeins um tvo kosti að velja: annaðhvort að hætta þátttöku í ríkisstj. eða að samþ. þessa bráðabirgðalausn. Kostirnir voru ekki fleiri. Alþfl. hefði getað sett úrslitakosti, en hann gaf eftir. Alþfl. gaf eftir í þessu máli, um það verður ekki deilt. En þá er spurningin: Hvers vegna tók hann þennan kost? Hvers vegna valdi hann þennan kost? Honum var og er ljóst, að ef nægur vilji er fyrir hendi, gagnkvæmt traust og heiðarleiki í samstarfi, þá hefur núv. ríkisstj. möguleika til að mjaka þróun efnahagsmála inn á rétta braut. Þar ráða úrslitum tengsl Alþfl. og Alþb. við verkalýðshreyfinguna. Friður í samstarfi og í samvinnu þessara aðila leysir engan vanda í sjálfu sér, en þessi friður getur veitt ráðrúm til að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum breytingum er gætu horft til bóta.

Frumskilyrði þess, að efnahagsráðstafanir beri árangur, er að í endurreisnarstarfinu öllu verði hagsmunir láglaunafólksins í landinu ekki fyrir borð bornir. Alþfl. hefur lítið svo á, að verðbólgan hafi á undanförnum árum gert láglaunafólki meiri og stærri skráveifur en nokkuð annað. Verðbólgan hefur skekkt launarammann og valdið gífurlegu óréttlæti og óþolandi launamismun meðal þjóðfélagshópa. Þetta eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við. Rangur og að mínu mati úreltur vísitöluútreikningur hefur stórlega hjálpað til í þessari þróun. Þess vegna er það og verður skoðun Alþfl., að besta kjarabót launþega sé jafnvægi í efnahagsmálum þar sem verðbólgan hefur að verulegu leyti verið kveðin í kútinn. Þetta eru þær bestu kjarabætur, sem þingið og núv. ríkisstj. geta fært launþegum, og það er á þessum grundvelli sem Alþfl. háir sína baráttu innan ríkisstj., af því hann hefur trú á því og hann treystir því, að með því að kveða verðbólguna niður séum við að tryggja raunverulegar kjarabætur, en ekki launahækkanir í krónutölu sem fara jafnskjótt út í verðlagið.

Menn leggja hins vegar misjafna áherslu á þennan þátt kjaramálanna. Hér hefur því verið haldið fram með réttu, að launaþátturinn í baráttunni við verðbólguna skipti ekki öllu máli. Auðvitað skiptir hann ekki öllu máli. Stefnan á sviði fjárfestingarmála, peningamála og skattamála ræður einnig miklu. Það verður þó ekki fram hjá því gengið, hve stór liður launaþátturinn er í öllu heildardæminu. Alþfl. hefur lagt á það höfuðáherslu, að reynt yrði að beisla verðbólgugróða einstaklinga og fyrirtækja sem verða mætti til tekjujöfnunar. Menn skyldu hafa það í huga, að innan Alþýðusambands Íslands eru stéttir manna, sem hafa haft verulegan hag af verðbólgunni, og innan ASÍ er munur á tekjum einstaklinga ótrúlega mikill. Það eru fyrst og fremst félagar innan Verkamannasambands Íslands og t.d. félagar Iðju og Sóknar, sem hafa orðið að taka á sig byrðar vegna ráðstafana ríkisstj. Það er þessi hópur launafólks sem okkur ber að vernda. Það er kaupmáttur þeirra launa sem verður að tryggja. Ég hef persónulega minni áhyggjur af öðrum hópum innan Alþýðusambands Íslands.

En hafa ekki allir ræðumenn hér, allir hv. þm., lagt á það áherslu í ræðum sínum, að verðbólgan væri mesti meinvætturin og gegn henni yrði að berjast? Menn greinir bara á um leiðir. En þetta orð er í þessu tilviki býsna stórt. Í því geta falist bæði flokkspólitískir hagsmunir, hugsjónir ýmist um kapítalisma eða kommúnisma og fleira af því tagi. Eru menn í raun og veru að berjast gegn verðbólgunni hér á hinu háa Alþingi eða eru þeir að berjast fyrir fylgisaukningu, áhrifum og völdum og búa sig þar með undir nýjar kosningar? Mjög óttast ég, að hin eiginlega barátta geti snúist um margt annað en verðbólguna. En það er auðvitað á valdi hvers og eins hvort hann tekur þjóðarhagsmuni fram yfir stundarhagsmuni flokks og stefnu.

Það verður oft skálkaskjól stjórnmálamanna í umr. sem þessum að mála skrattann á vegginn þegar rætt er um fyrrv. ríkisstjórn og fyrrv. ríkisstjórnir. Allur vandinn, allt hið illa er frá þeim komið. Þannig eru raunverulega fundnar afsakanir fyrir ráðaleysi eða linku í eigin baráttu. Það hvarflar ekki að mér eitt augnablik að halda því fram, að nokkur einasta ríkisstj. í þessu landi hafi viljandi reynt að koma þjóðinni í þann vanda sem hún nú er í. En hins vegar speglast í þessum vanda þau stéttaátök þar sem ekkert er gefið eftir, jafnvel ekki þegar þjóðarhagur krefst þess — þá helgar tilgangurinn meðalið.

Nú blasa hins vegar við okkur meiri erfiðleikar en verið hafa með þessari þjóð um áratugaskeið. Sumir vilja að atvinnureksturinn taki á sig vandann, aðrir vilja að launþegar geri það. En hvorugt getur raunverulega án hins verið. Nú er ástandið slíkt, að fara verður með mikilli gát. Undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar mega ekki við miklu og stöðvun þeirra gæti leitt til mjög alvarlegs atvinnuleysis, sem ég óttast mjög að sé skemmra undan en margan grunar, því miður. Kaupmátt láglaunafólks má ekki heldur skerða. Því hljótum við í núv. ríkisstj. að beina spjótum okkar að þeim þjóðfélagshópum sem hafa haft aðstæður til að gera sér mat úr verðbólgunni. Að vísu er hætt við, að verulegur hluti af verðbólgugróðanum sé kominn í steinsteypu og einhver veraldleg tækniundur. En það hefur nákvæmlega ekkert verið gert til þess að kanna hvar fjármagnið liggur, hvar þeir hópar eru, sem geta lagt eitthvað af mörkum. Þessi þáttur í starfi ríkisstj. er gagnrýni verður. Stjórnmálamenn hafa talað um verðbólgugróða, en ekkert hefur verið gert til þess að leita þessara fjármuna eða eigna, sem kannske hafa safnast á fárra manna hendur. Tekjuskatturinn gegnir ekki lengur því tekjujöfnunarhlutverki sem honum var í upphafi ætlað. Hann er launamannaskattur, einfaldlega vegna þess að hann leggjast þyngst á þá sem aðeins hafa beinar launatekjur, en hlífir þeim sem aðstöðu hafa til að skammta sér eigin tekjur í formi margs konar hlunninda og færslu á reikninga fyrirtækja. Niðurfelling tekjuskatts af almennum launatekjum er því réttlætismál og hagsmunamál allra launþega. Í þessu frv. er stigið skref í þá átt og er það vel. Aðra þætti þessa frv. mun ég ekki ræða.

Að lokum þetta, herra forseti: Stór hluti íslensku þjóðarinnar hefur lifað langt um efni fram síðustu ár og stjórnvöld hafa gert sig sek um mikla fjármögnun í óarðbærri fjárfestingu. Þetta tvennt hefur hækkað mjög allar erlendar skuldir þjóðarinnar, hækkað skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann og hrundið af stað peningaprentun, þar sem engar tryggingar eru á bak við. Þá er það staðreynd, að of miklar launahækkanir í krónutölu, sem hafa farið beint út í verðlagið, hafa hvað eftir annað ýtt verðbólguskriðunni af stað. Nú er hins vegar komið að skuldaskilum og þau verða ekki umflúin. Það er það undarlega. Þau verða ekki umflúin í þetta sinn. Þau verða ekki sársaukalaus, eins og Alþfl. tók skýrt fram í baráttu sinni fyrir gjörbreyttri efnahagsstefnu, en verði ekki spyrnt við fótum nú þegar, þá verða fórnirnar enn þá meiri 1. mars n.k. Kannske má segja að illu sé best af lokið, þegar rætt er um þessi mál, og þess vegna hafi Alþfl. lagt á það svo mikla áherslu að stærri teigur yrði lagður undir en gert var.

Mönnum hefur orðið tíðrætt í þessum þingsal um hin stóru stökkin og litlu skrefin. Þegar menn vilja komast þurrum fótum yfir læk leita þeir að þeim stað þar sem lækurinn er mjóstur, en þeir fara ekki yfir lækinn í tveimur eða þremur skrefum ef þeir ætla sér að vera þurrir í fæturna hinum megin á bakkanum. (Gripið fram í.) Þeir stökkva, flestir stökkva. Á þann hátt hafa flestir komist yfir án þess að detta ofan í, það er kjarni málsins, ef menn þá á annað borð ætla að stökkva. Hins vegar er þessi þjóð þegar orðin blaut í fæturna, svo það breytir kannske ekki svo miklu. Það hefur nefnilega alltaf verið reynt að stökkva yfir lækinn þar sem hann er breiðastur og alltaf orðið að snúa til sama lands aftur. Alþfl. hefur reynt að benda á þann stað þar sem lækurinn er mjóstur. Menn hafa þó ekki fallist á skoðanir hans í þeim efnum, en Alþfl. hefur fallist á að lengja aðeins tilhlaupið ef unnt skyldi reynast að stökkva yfir.

Mig langar að leggja á það mikla áherslu í þessu máli mínu, að það fer ekki hjá því að ég hafi um það nokkrar efasemdir, að innan núv. ríkisstj. náist samstaða um það sem gera þarf á næstu mánuðum. Ég óttast að Alþfl. komi ekki fram þeim málum sem hann lagði þunga áherslu á í síðustu kosningum. Ég óttast að einhverjir séu þeirrar skoðunar, að þeir eigi harma að hefna vegna síðustu kosningaúrslita. Og ég óttast, að samstarfsflokkarnir geti ekki unnt Alþfl. þess, að hann komi málum sínum fram. Úr þessu verður hins vegar reynslan að skera á næstunni. En Alþfl. getur ekki átt aðild að ríkisstj. sem ætlar sér að ganga á svig við erfiðleikana. Það er bjargföst skoðun mín.

Launþegar hafa þegar nú 1. des. tekið á sig nokkra kjaraskerðingu. Því verður ekki á móti mælt, þótt reynt verði að bæta þeim hana upp að einhverju leyti. Ef þeim ráðstöfunum og samstarfsvilja, sem komið hefur fram með hlutleysi og jafnvel stuðningi verkalýðshreyfingarinnar, verður ekki fylgt eftir með aðgerðum til lengri tíma, þá er allt tal um ríkisstj. launþega út í loftið, tómt píp eins og börnin mundu segja.

Fyrrv. forsrh., hv. þm. Geir Hallgrímsson, talaði oft um nauðsyn á þjóðarsátt. Enginn getur verið honum meira sammála en ég í þeim efnum. Það verður því að vænta þess, að þjóðarsáttin eigi eins mikil ítök í huga hv. þm. í stjórn og í stjórnarandstöðu. Hér stendur stríðið um að vernda rétt launþega á erfiðleikatímum. Þetta er aðeins ein orrusta í stríði sem standa mun á komandi árum og áratugum. Ef þing og þjóð fara þessa dagana ekki að þekkja sinn vitjunartíma, þá er verið að bjóða heim ástandi, sem er hreinlega ógn við þann rétt sem Íslendingar hafa til þessa talið hvað helgastan, lýðræðið. Enn frekari óáran í efnahagslífinu hvetur öfl til athafna, sem í eðli sínu eru öfgafull og gera kröfu til valdsins, hvort sem það á nokkuð skylt við þingræðu eða ekki.

Ég tók það fram hér í upphafi, að ég styddi þetta frv. vegna þess að ég væri þeirrar skoðunar að aðrir betri kostir væru ekki fyrir hendi. Ég er enn þeirrar skoðunar og verð svo lengi sem ég sé einhver tákn þess að því verði fylgt eftir með gjörðum.