28.11.1978
Neðri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Mér þótti það dálítið athyglisvert í ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, þegar hann þrátt fyrir fyrirvara sína um hagfræðikenningar sagði okkur að verðbólgan hefði vaxið í öfugu hlutfalli við launin, að hans áliti væri þetta það sem gerst hefði. Ef þetta er rétt og ef þetta er kenning sem á við í íslensku efnahagslífi, þá er ég hræddur um að hv. þm. gerði það best í baráttunni við verðbólguna að hækka kaupið miklu meira en gert er ráð fyrir í þessu frv. og ætti þess vegna jafnvel að vera á móti því frv, sem hér liggur fyrir til umr. Hitt er annað mál, að ég veit, eins og ég sagði áðan, að hann hefur ekki mikið álit á hagfræðikenningum.

Undanfarna daga hefur íslenska þjóðin fylgst með því, hvernig taugastrekkingur hefur aukist frá degi til dags meðal stjórnarflokkanna. Það hefur komið fram í þessum umr., að hæstv, fjmrh. hafi í upphafi verið sömu skoðunar og Alþfl. um þau úrræði sem grípa ætti til nú í sambandi við þá bráðabirgðalausn sem gera þyrfti fyrir 1. des. Hann er nú ekki á landinu. Ég er ekki að halda því fram, eins og sumir hafa gert, að hann sé flúinn, en alla vega er hann ekki hér á landi þegar verið er með því frv., sem liggur fyrir, að gerbreyta fjárlagafrv.

Þá hefur það jafnframt gerst, að einn af þm. Alþfl., forseti Ed., Bragi Sigurjónsson, neitar því að vera það sem hann kallar samstarfstákn þessarar ríkisstj. sem hann segir að noti bitlausar og rangsleitnar aðgerðir gagnvart verðbólgunni til að vinna bug á henni.

Við, sem sitjum í þessari hv. d., hlustuðum á ákaflega athyglisverða ræðu hv. 7. þm. Reykv., Vilmundar Gylfasonar, í gær þegar hann reif niður hvert atriðið í frv. af öðru, lið fyrir lið, en endaði svo með því að segja að á þessum forsendum hygðist hann styðja frv. þannig tókst honum í einni og sömu ræðunni að fara algjörlega í gegnum sig. Við heyrðum síðan í umr. í dag, að hv. þm. Kjartan Ólafsson gaf hæstv. utanrrh. utan undir vegna aðgerða hæstv. utanrrh. í sambandi við atvinnu manna á Keflavíkurflugvelli. Það kemur enn fremur í ljós, að sífellt eru gerðar bókanir á ríkisstjórnarfundum, bókun í þessu máli, bókun í næsta máli og bókun í því þriðja. En við skulum hafa það í huga, að slíkar bókanir leysa ekki nokkurn mann undan ábyrgð. Það, sem gert hefur verið í þessum efnum, er á ábyrgð ríkisstj., og bókun er aðeins sýndarmennska sem á að bera á borð fyrir kjósendur fyrir næstu kosningar. Ástandið í herbúðum stjórnarinnar er með þeim hætti, að líkja mætti helst við Valhöll forðum eða kannske öllu fremur spennandi kúrekakvikmynd, þar sem menn rétta hver öðrum hjálparhönd rétt til þess að geta reist þá við og slegið þá niður aftur. Þannig er ástandið í herbúðum stjórnarliða í dag.

Í 1. gr. frv., sem hér er til umr., er fjallað um niðurgreiðslur. Það skal strax tekið fram, að ég er þeirrar skoðunar að óhóflegar niðurgreiðslur geti verið stórvarasamar. Miklar niðurgreiðslur skekkja alla verðmyndun í landinu, hafa áhrif á framleiðsluna og stefna henni inn á óheppilegar og oft arðlausar brautir. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þessa grein frv., en vil vísa í því sambandi til minnihluta álits fjh.- og viðskn. sem hv. þm. Steinþór Gestsson gerði grein fyrir í umr. í kvöld.

Það hefur komið fram varðandi 2. og 3. gr. frv., að þær eru ákaflega einkennilegar lagagreinar, og reyndar viðurkenndi hæstv. forsrh. það, þótt hann segði að jafnvel í stjórnarskránni fyndust slíkir „loforðaparagrafar“. En það, sem er einkennilegt varðandi þessar tvær greinar, er að þar er verið að lögbinda loforð ríkisstj. Manni verður á að spyrja: Hvers vegna var stjórnarsáttmáli ríkisstj. ekki lögbundinn, og af hverju eru ekki lögbundin loforðin sem koma fram í aths. þessa frv.? Getur verið að þau, sem eru lögbundin, eigi að reyna að efna, en hin eigi að svíkja? Mér er spurn. Og hvers vegna er ekki það sett í lög, að hér á landi skuli ekki vera meira en 30% verðbólga á næsta ári? Það væri álíka gáfulegt og þessar lagagreinar eru.

Tilgangurinn er auðvitað ekki sá hjá hæstv. ríkisstj., að það eigi í framtíðinni að lögbinda allar hugsanir hennar. Tilgangurinn er einungis að slá ryki í augu launþega og annarra kjósenda. Að öðru leyti eru þessar lagagreinar ákaflega gallaðar efnislega. Það er t.d. ekkert minnst á það, hvað sé lágtekjufólk skv. skilningi 2. gr. Það er ekkert minnst á það, hvenær þær ívilnandi aðgerðir, sem eru nefndar í þessum greinum, eigi að eiga sér stað. Allt bendir þó til þess, að það eigi að gerast löngu eftir 1. mars. Hæstv. viðskrh. sagði jafnvel í ræðu sinni við 1. umr., að sumar þessar aðgerðir ættu að koma í gagnið árið 1983. Svo skjótvirkar eiga þessar ráðstafanir að verða! Því hefur ekki heldur verið svarað, hver eigi að leggja mat á þau atriði, sem koma fram í 2. og 3. gr. Um það hefur verið spurt, en engin svör fengist. Þó er ljóst að það er ekki kauplagsnefnd sem á að meta þetta. Það kom fram í umr. sem áttu sér stað í hv. fjh.- og viðskn.

Varðandi 2. gr. er rétt að koma inn á eitt atriði sem ég er ekki viss um að allir geri sér nægilega vel grein fyrir. Það er nefnilega gert ráð fyrir því í fjárlagafrv., að laun hækki um 50% á milli ára. Hins vegar á skattvísitalan að fylgja framfærsluvísitölunni og hún á að hækka um 43% skv. áætlun. Þannig verður skv. fjárlagafrv. meira tekið af millitekjufólki og láglaunafólki eða launamönnum, sem svo eru kallaðir, og þetta er ekki metið sem kjararýrnun. Takið eftir því. En þegar slaka skal á skattvísitölunni, eins og lagt er til í þessu frv., sem sagt slaka á skattinum, þá á allt í einu að reikna það sem kjarabót. Þannig er farið að því að bæta kjör manna í landinu: Taka fyrst af þeim skatta, það er ekki kjararýrnun, gefa þá síðan til baka, og það er kjarabót.

Eins og fram hefur komið hér í umr., má finna kjarnann í þessu frv. hæstv. ríkisstj. í 4. gr., enda er sú grein um kjaraskerðinguna. Það, sem er ákaflega merkilegt og kom fram í umr. og eftir var tekið, var sú skýring hæstv. forsrh., að heimilt væri þrátt fyrir þessa grein frv. að greiða hærri laun og hærri vísitölubætur en frv. segir til um. Þetta er ákaflega athyglisverð yfirlýsing, því hún stangast á við það sem sumir stjórnarliðar hafa haldið fram, t.d. í nefndarstarfi. Þetta er athyglisvert einkum fyrir þær sakir, að núv. meiri hl. í Reykjavíkurborg sló út slíku tilboði og gerði að sínum reglum á sínum tíma. Það verður fróðlegt að fylgjast með því, hvernig sá meiri hl., sem er sá sami og sá meiri hl. sem styður hæstv. núv. ríkisstj., ætlar að bregðast við í þessum málum.

Um 5. gr. ætla ég ekki að fjalla, enda má segja að hún sé bein afleiðing og eðlileg af því sem gert er ráð fyrir að gerist í hinum greinunum.

En ég vil fjalla örlítið um aths. við lagafrv. þetta. Ég skal ekki hafa um þær mjög mörg orð, en vil þó fyrst víkja að 4. tölulið. Í honum eru nefndar helstu tekjuöflunarleiðirnar. Þar má lesa orð eins og hátekjuskattur, veltuskattur, fjárfestingarskattur, eignarskattur o.s.frv. Hæstv. forsrh. sagði reyndar, að ekki væri búið að ganga frá því, hvaða skatta og í hvaða formi ætti að leggja á í þessu skyni. En gera verður ráð fyrir því, að þessi skattur leggist fyrst og fremst á atvinnureksturinn í landinu. Og þá verður manni að hugsa örlítið um það, til hvers sé verið að þessu öllu saman. Af hverju þolir ekki atvinnureksturinn hærri launakostnað? Það er vegna þess, eins og margoft hefur komið fram, að ef hann þyrfti að bera aukinn kostnað yrði hér atvinnuleysi. En hvernig er hægt að koma því heim og saman, að atvinnureksturinn geti ekki borið hærri kostnað vegna launa, en geti hins vegar að áliti hæstv. ríkisstj. tekið á sig mun hærri kostnað í öðrum myndum, eins og t.d. varðandi hærri skatta. Hv. 1. þm. Austurl. sagði í umr. sem urðu um daginn um vexti, að það væri útilokað fyrir atvinnureksturinn að taka á sig aukna vaxtabyrði. Ég fæ það ekki heim og saman, hvernig í ósköpunum sá hinn sami atvinnurekstur getur þá tekið á sig aukna skatta, eins og t.d. veltuskatt. Þetta gerir ráð fyrir töfrabrögðum sem ég kann ekki skil á, nema um algjöran tvískinnung sé að ræða.

Hæstv. forsrh. flutti hér snjallt mál og ágætt að mörgu leyti í kvöld. Hann sagði í ræðu sinni að auðvitað væri ekki hægt að mæla félagslegu umbæturnar beinlínis til verðbótastiga. Hvers vegna er það þá gert í frv.? Þar stendur skýrum stöfum að þetta eigi að meta til 3%. Af hverju var ekki látið duga að tala um félagslegar aðgerðir? Auðvitað verður einhver að leggja á það mat úr því að þetta er svona orðið í frv.

Þá kom hæstv. forsrh. með skemmtilega dæmisögu, talaði í líkingum, eins og menn hafa gjarnan gert í þessum umr., talaði um stór skref og lítil skref og stór stökk og lítil stökk. Hann kom með þá sögu, sem ég þarf ekki að endursegja fyllilega, að á bæ einum hefði verið vinnumaður sem Brandur hét og hann hefði gortað af því að hann gæti stokkið yfir gjá. Nú var von á lækni sem átti leið fram hjá bænum, sagði hæstv. forsrh., og hann bað bóndann á bænum um fylgd til næsta bæjar, og þá fór heldur lítið fyrir Brandi karli. Hann þorði ekki út í hríðarkófið. Með þessu móti var auðvitað hæstv. forsrh. að sneiða að samstarfsmanni sínum, hv. þm. Vilmundi Gylfasyni. En mér sýnist, miðað við þessa líkingu, að það sem gerst hafi í þessu máli sé að hæstv. forsrh. í líki verðbólgulæknisins ber að dyrum hjá Alþfl. og vinnumaðurinn sýnir þann kjark að fara út í hríðarkófið, sem reyndar verðbólgulæknirinn og vinnumaðurinn hafa þyrlað upp í sameiningu. Það verður þess vegna fróðlegt að veita hvernig ferðum þeirra háttar saman og hvort þeir komast einhvern tíma yfir gjána, í einu stökki eða tveimur stökkum, eða hvort þeir lenda í gjánni. Úr því getur tíminn einn skorið.

Það hefur komið fram í þessum umr. margt fróðlegt sem ástæða hefði verið til að minnast á. En ég ætla ekki að gera það, enda er liðið langt fram á nótt, nýr dagur kominn.

Það, sem mér þykir einkar athyglisvert við þessar umr., er í fyrsta lagi það, að í frv. er að verulegu leyti reynt að fela þá staðreynd, að ríkisstj. ætlar að taka 8% af launþegum. Það er gert með því að vefja inn í frv. 2. og 3. gr.

Þá vekur það jafnframt athygli, að Alþfl. er horfinn frá fyrri stefnu sinni um gjörbreytta efnahagsstefnu í raun. Eins og ég sagði áðan, hafa bókanir enga þýðingu í þessu máli. Það er staðreynd, að Alþfl. hefur látið beygja sig, allir nema sá elsti, hv. þm. Bragi Sigurjónsson.

Mér er ekki kunnugt um það frekar en hv. 1. þm. Reykv., að Alþfl. hafi nokkurn tíma reynt að ná þingmeirihl. fyrir tillögum sínum hér á þingi. Ég kannast ekki við það. Alþfl. kemst þess vegna ekki hjá því að bera fulla ábyrgð á þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Hitt er svo annað mál, að hv. þm. Vilmundur Gylfason taldi ekki fýsilegt að eiga vingott við okkur, eins og á stæði, vegna afstöðu sjálfstæðismanna til vaxtafrv. Ég get huggað hv. þm. með því, að við erum að megininntaki til sammála hv. þm. Vilmundi Gylfasyni í raunvaxtamálinu. Hitt er svo annað mál, að við viljum fara aðeins aðrar leiðir, en hugsunin er sú sama.

Það er reyndar alveg ljóst, og um það gat hv. þm. Vilmundur Gylfason í ræðu sinni, að það verður ekki hægt að koma því vaxtafrv. í gegn, sem hann hefur lagt fyrir þingið og er nú í n., og honum er það vel kunnugt sjálfum. — Um tilboð hans til okkar sjálfstæðismanna skal ég ekkert segja. Það getur vel verið að betur standi á einhvern tíma eftir jólin, e.t.v. þegar fer að líða á næsta ár og hann verður orðinn þreyttur á faðmlögum við samherjana í núv. hæstv, ríkisstj., þá verði kominn tími til að tala við hv. þm. Vilmund Gylfason og félaga hans, ef þeir verða þá komnir niður á jörðina.

Það vekur enn fremur athygli í þessum umr., að hér er um bráðabirgðaaðgerðir að ræða. Vandanum er rétt einu sinni ýtt á undan sér í þrjá mánuði. Þótt menn hafi nú á orði, að stjórnarflokkarnir hafi lengt árið upp í 16 mánuði, þá verður að segjast eins og er, að aðgerðatímabil ríkisstj. virðist vera þrír mánuðir í hvert sinn.

Enn fremur hefur borið á því, að síðustu daga hefur óeiningin í stjórnarherbúðunum aukist fremur en hitt, eins og ég lýsti áðan. Þar virðast menn sitja á svikráðum.

Það, sem vekur e.t.v. mesta athygli, er sú gerbreytta stefna launaþegasamtakanna sem hefur verið lýst í þessum umr. þeirri breytingu fagna ég. Hitt er svo annað mál, að vegna afstöðu hv. síðasta ræðumanns um það, að nú mætti meta félagslegar aðgerðir sem kjarabót, þá verður mér að spyrja, hvort það sé framtíðarstefna sem þarna hafi verið mörkuð. Það væri líka hægt að spyrja að því, hvort inn í þetta dæmi eigi að reikna þau loforð sem voru gefin um bætur í félagslegum málefnum áður en þetta frv. kom fram. Á að reikna t.d. loforð ríkisstj. í stjórnarsáttmálanum inn í þetta dæmi? Um það hefði verið fróðlegt að heyra hv. síðasta ræðumann fjalla, en það gerði hann ekki.

Hv. þm. Halldór Ásgrímsson lýsti því fyrr í umr. með athyglisverðum hætti, hvernig starfið fór fram í svokallaðri verðbólgunefnd sem starfaði á tíma síðustu hæstv. ríkisstj. Nú er komin ný nefnd, vísitölunefnd, sem í raun á að gera það gagn sem hinni nefndinni tókst ekki að gera, þ.e. að finna út aðferð sem allir sætta sig við og hægt er að nota gegn verðbólgunni. Ég minni hv. þm. á það, sem nýlega kom fram í blöðum, haft eftir Jóni Sigurðssyni, að hann teldi alveg óvíst, hvort hægt væri að ljúka störfum vísitölunefndar, svo vel væri, fyrir 1. mars, og hann teldi, að starfið í nefndinni mundi líkjast meira samningaviðræðum heldur en eðlilegu nefndarstarfi í framtíðinni. Á þetta vil ég minna, þannig að við séum ekki að binda of miklar vonir við það starf sem þar verður unnið, þótt merkilegt sé. Við vonum þó að þetta starf komi að fullu gagni.

Hæstv. forsrh, leyfði sér í ræðu sinni í kvöld, að saka okkur stjórnarandstæðinga um ábyrgðarleysi ef við styddum ekki frv. sem hér liggur fyrir til umr. Hann taldi að ef við gerðum það ekki, þá hefði Sjálfstfl. skipt um skoðun. Þannig skildi ég orð hans og verð þá leiðréttur ef ég fer rangt með. Ég vil aðeins minna á það, að þegar Sjálfstfl. sat í stjórn vildi hann harðari aðgerðir, fljótvirkari aðgerðir, skjótvirkari aðgerðir, sem hefðu náð til lausnar á vandamálinu síðla á þessu ári. Það, sem hins vegar gerðist, var að það voru menn í þessu landi, í Alþfl. og Alþb., sem höfðu að kjörorði fyrir kosningarnar: „samningana í gildi“, „kjósum gegn kaupránsflokkunum“. Og þessir menn sigruðu í kosningunum, við skulum minnast þess, og þeir hafa tekið við völdum á Íslandi og sitja í valdastólunum í dag. Þeir gáfu í september, þeir tóku í nóvember. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur þessum mönnum.