28.11.1978
Neðri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Vilmundur Gylfason:

Harra forseti. Ég vil ekki lengja þennan næturfund öllu meira en þegar er orðið, en vil þó segja örfá orð, ekki til leiðréttingar, því það er ekkert að leiðrétta, ekki heldur eftir orð síðasta ræðumanns, hv. 1. þm. Vesturl., heldur öllu heldur til áherslu.

Nú er það auðvitað svo, að ég veit ekki nákvæmlega hvað gerist á lokuðum fundum Framsfl. og mér er mikið til ókunnugt um hans innri mál. Það, sem við höfum sagt hér, ég sagði hér í gær og endurtók enn í kvöld, var að tillögur Framsfl. voru kynntar þannig, að 3.6% skyldu ganga út í kaupgjaldið og mundi velta þaðan yfir í verðlagið. Þær væru kynntar í ríkisstj. og þær gengu nærri till. sem við Alþfl.-menn höfum lagt fram. Síðan voru þær kynntar í okkar þingflokki. Við tókum afstöðu til þeirra. Auðvitað hlutum við að líta svo á, að þetta væru jafnframt till. formanns flokksins og forsrh. og á þeim bæri hann fulla ábyrgð. Það er svo upplýst nú, að þetta hafi verið till. flokksins, en ekki forsrh. Þetta er auðvitað leikur sviðsettur af einhverjum ástæðum sem mér er ekki alls kostar kunnugt um. En ég endurtek það sem hér hefur verið sagt áður, að við vorum tilbúnir til að styðja þessar till. og okkur kom þessi breyting mjög á óvart.

Ég veit auðvitað ekki gjörla hver hafi verið persónuleg afstaða hæstv. forsrh. til þessa máls á sérhverju stigi þess. En þegar till. á þessu stigi eru kynntar sem till. flokks, þá gerum við auðvitað ráð fyrir því, að fyrir þeim standi og á þeim beri ábyrgð formaður flokksins. Hv. þm. Halldór E. Sigurðsson upplýsir að svo hafi ekki verið, að viðkomandi aðili hafi ekki persónulega borið ábyrgð á þessum tillögum. Hvaða leik er hér verið að leika? Ég veit ekki hvort þetta hefur átt að vera eitthvert herbragð til að skilja okkur eftir, kaupránsflokkinn, í 3.6% feninu! Ég ætla þó engum að meina svo illt. Við litum svo á, að þetta væru tillögur flokksins, sem flokkurinn og ráðh. hans stæðu á, og á grundvelli þessara tillagna vorum við tilbúnir að vinna og við hefðum betur gert það. Sérstæðar ástæður formanns flokksins veit ég ekki um, en þetta var leikur sem betur hefði verið óleikinn. Flokkurinn hefði betur staðið heildstæðari að þessum till., og þá værum við með skynsamlegri till. en við nú stöndum að.

Ég ítreka það enn, að skilningur okkar á þessu gat ekki verið annar en hann var, og ég veit að hv. 1. þm. Vesturl. skilur þetta, enda þekkir hann þessi sjónarmið.