29.11.1978
Neðri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Í ræðu minni í fyrrakvöld gerði ég grein fyrir þeim mun, sem væri á viðskiptum þessarar stjórnar við verkalýðshreyfinguna og þeim úrræðum, sem hún hygðist beita, og viðskiptum fyrrv. ríkisstj. Þetta hefur orðið til þess, að hv. 4. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, hefur lagt á það mikla áherslu í langri ræðu nú við 3. umr. málsins að ríkisstj. hans hafi nú aldeilis haft samráð við verkalýðshreyfinguna á valdatíma sínum. Ég ætla með þessum orðum einvörðungu að svara þessum atriðum, en ekki öðru í ræðum stjórnarandstæðinga, sem hér hafa nú talað á þriðja klukkutíma, tel nauðsynlegt að fram komi nokkur andsvör við því sem var haldið fram af hv. þm. Geir Hallgrímssyni.

Hann dró upp nokkur atriði, t.d. að um láglaunabæturnar 1974 hefði verið haft samráð. Það er rétt, að rætt var við fulltrúa verkalýðsfélaganna þá um þau mál. Það var þó fjarri því, að við værum að samþykkja það sem þá var gert. Hins vegar var verið að bæta lítillega um þau mál eins og þá var komið. Ég held að út af fyrir sig hafi þessar viðræður haft áhrif á aðgerðir ríkisstj. — þær hefðu orðið lakari, ef við hefðum ekki komið þar nálægt. En nógu slæmt var það nú samt.

Þá ræddi hann um samningana árin 1975 og 1976 og sagði að margs konar samráð hefðu þá verið höfð, á árunum 1975 og 1976 hefðu náðst hóflegir samningar, eins og hann svo hóflega orðaði það. Það liggur fyrir, að á þessum árum tókst að koma kaupmætti launanna, hinna almennu launa, niður um 25–30% með stöðugum verðhækkunum og banni við verðtryggingu launa. Þetta var árangurinn. Síðan gerum við samningana 1977 og þegar búið er að keyra kaupmáttinn svona niður, sem áreiðanlega var mjög rangt, líka horft frá sjónarmiði ríkisstj., þá var, eins og hér var lesið upp af hv. þm., boðið af ríkisstj. að kauphækkun á árabilinu 1977 –1978 mætti verða 6–7%. Þessa miklu skerðingu átti sem sagt að bæta upp með 6–7%. Það var hið mikla kostaboð. Auðvitað gat verkalýðshreyfingin ekki gengið að því. Hún samdi um álitlega kauphækkun í krónutölu og prósentum. Þó tókst ekki að vinna upp skerðinguna. — En ég get vel játað að út af fyrir sig er slæmt að þurfa að taka svona stór stökk í kaupgjaldsmálum. Að mínu viti og reynslu held ég einmitt að þessi stóru stökk séu eitt það versta sem við búum við. En slík hafa ávallt verið andsvör af hálfu verkalýðshreyfingarinnar við því, hvernig farið var með kaupmáttinn áður.

Þá gat hv. þm. um nokkur atriði sem fylgt hefðu samningunum 1977 og líka árið 1976. Þá var tekjuskatturinn m.a. lækkaður. Hv. þm. Lárus Jónsson þarf ekkert að undrast að slíkt sé gert. Verkalýðshreyfingin metur skattalækkun, enda þótt skattar fari ekki inn í vísitöluna. Slíkt höfum við metið áður. Skattar voru þá lækkaðir. Ég man nú ekki nákvæmlega hvað það var metið í milljörðum, en svo mikið man ég, að hækkun sjúkragjaldsins gerði meira en að kaffæra þá lækkun sem varð á tekjusköttunum.

Hv. þm. minntist á húsnæðismálin. Já, enn einu sinni gaf þessi ríkisstj. yfirlýsingu um húsnæðismál, sem fyrst var gefin 1974, í samningunum þá, af þáv. stjórn. Við höfðum frá 1974 fjármagnað þessi mál sérstaklega með framlögum úr lífeyrissjóðunum, kaupum á verðbréfum, og gerum það enn. En hvar eru þessi mál stödd, hvar voru þau stödd þegar þessi hv. þm. lét af embætti forsrh.? Ég ætla ekki að tefja tímann með löngu máli, en það voru engar framkvæmdir, engar efndir.

Hann nefndi lífeyrismálin. Það er rétt, að það voru mikil umskipti í lífeyrismálum á þessum tíma. Var það fyrir tilstuðlan ríkisstj.? Ónei, svo var ekki. Það voru samningsaðilarnir í vinnudeilunum, sem tóku þessi mál að sér, og það eru lífeyrissjóðirnir, sem fjármagna þær úrbætur sem orðið hafa. Það eina, sem gert var með lögunum, var að hækka frítekjumark almannatrygginganna þannig að þessar verðbætur lífeyrissjóðanna gætu komið að gagni.

Þá gat hv. þm. um það, að þegar febrúarlögin voru sett hefði verið haft samráð við verkalýðshreyfinguna. Jú, það er kannske mörgum enn í minni hvernig þau samráð voru, þegar þáv. forsrh. boðaði forseta Alþýðusambands Íslands til sín einvörðungu til þess að sýna honum orðinn hlut, og það muna kannske ýmsir hver urðu viðbrögð forseta Alþýðusambandsins þá, Björns Jónssonar — hann gekk á dyr.

Þá gerði hv. þm. ýmsar tilraunir til þess að sannfæra menn um að febrúar- og maílögin hefðu verið ákaflega mildar ráðstafanir gagnvart launafólki, það væri eitthvað annað en þessi 8% frádráttur sem nú ætti að ná fram. Ég sagði, í fyrrakvöld, að það væri ekki sæmandi þessum hv. þm., eins og málin liggja nú fyrir, að tala um 8% kauprán. En ef hann vill halda því áfram, þá hann um það. Ég held að dómur fólksins, sem fram kom í vetur, í vor og í sumar um aðgerðir fyrrv. ríkisstj. með kaupránslögunum, sé sá ótvíræðasti, sem þessi hv. þm. getur litið á sem einmitt dóm um það sem hann er að reyna að fegra hér. Viðbrögð fólksins í vinnudeilunum í vetur og vor og ekki síður kosningaúrslitin sanna að allir launþegar í landinu litu allt öðrum augum á þessar lagasetningar en hv. 4. þm. Reykv. gerir. Og það þýðir ekkert fyrir hann eða aðra úr þeim hópi að reyna að hvítþvo sig núna af þeim gerðum. Þar er dómur sögunnar fyrir hendi.