29.11.1978
Efri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., hefur þegar verið samþ. án breytinga í hv. Nd. Það fjallar um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu. Þessar ráðstafanir miða fyrst og fremst að því að hamla gegn þeirri verðbólguskriðu, sem fylgt hefði ef 14% launahækkun hefði verið hleypt út í hagkerfið 1. des. n, k., og þeim atvinnuvanda, sem af henni hefði leitt. Þó verðbótavísitalan hefði verið greidd niður um 21/2%, sem ákveðið var í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, hefði afleiðingin allt að einu orðið sú hin sama: óviðráðanleg verðbólguholskefla. Afleiðingarnar hefðu fljótt birst í rekstrarstöðvun, atvinnuleysi og gengisfellingu innan tíðar, með þeim alkunnu fylgifiskum sem henni fylgja.

Markmið þessa frv. er að afstýra þeim verðbólguvoða sem skella mundi yfir l. des. að óbreyttum lögum. Þær ráðstafanir eru fyrst og fremst bráðabirgðaráðstafanir, miðaðar við tímabilið 1. des. n.k. til 28. febrúar 1979, yfir það er engin fjöður dregin. En án þessara ráðstafana mundi verðbólgudraugurinn verða enn óviðráðanlegri en áður og allur eftirleikur erfiðari en ella. Þetta hlýtur öllum að vera augljóst mál.

Það er því rangt að gera lítið úr þessum aðgerðum, þó segja megi að hér sé fyrst og fremst um bráðabirgðaaðgerðir að ræða. En þó vissulega sé um tímabundnar viðnámsráðstafanir að tefla ber þó einnig að líta á þetta frv. sem lið í þeirri viðleitni ríkisstj. að ná fram varanlegum breytingum á sviði efnahagsmála þegar á næsta ári.

Meginverkefnið er að freista þess að ná tökum á verðbólgunni, og að því verki er nú unnið í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Rétt er að leggja áherslu á það, að til þess að árangur náist á þessu sviði þarf að ríkja gagnkvæmur skilningur milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um nauðsyn slíkra aðgerða.

Þær ráðstafanir, sem ríkisstj. varð að grípa til á fyrstu starfsdögum sínum í sept. s.l., fólu í sér tilraun til að rjúfa þann vítahring verðlags og launahækkana sem hagkerfið hefur fests í að undanförnu og haft hefur í för með sér slíka rekstrarerfiðleika í undirstöðuatvinnuvegum, að horfði til rekstrarstöðvunar og atvinnuleysis. Þar var farið inn á þá braut að draga úr verðbólgu með auknum niðurgreiðslum og lækkun söluskatts á nauðsynjum.

Þrátt fyrir þær stórtæku niðurfærsluaðgerðir, sem fólust í septemberráðstöfununum var alla tíð ljóst að þær mundu einar sér ekki duga til þess að hemja í einni svipan þá þungu verðbólguöldu sem valt og veltur í hagkerfinu. Þá þegar var vitað að fram undan væri veruleg verð- og launahækkun hinn 1. des. n.k.

Frá því gripið var til ráðstafananna í sept. s.l. hefur framvinda efnahagsmála orðið nokkru óhagstæðari en búist var við þegar þær voru undirbúnar. Innflutningsverðlag hefur hækkað talsvert meira en ráð var fyrir gert, en verðlag á útflutningsafurðum okkar hefur hins vegar staðið í stað. Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa því versnað talsvert á þessu tímabili, og stafar það fyrst og fremst af lækkun á gengi Bandaríkjadollars sem vegur þungt í okkar útflutningstekjum gagnvart Evrópumyntum sem mestu ráða um verð á innflutningi. M.a. af þessum sökum er vandinn, sem við er að glíma, nú alvarlegri og stærri í sniðum en ætlað var. Að sama skapi er brýnna að hann verði leystur með skynsamlegum ráðum.

Ríkisstj. er sammála um að brýnasta verkefni hennar sé að móta samræmda stefnu um aðgerðir á öllum sviðum efnahagsmála í því skyni að hamla gegn verðbólgu á næstu missirum. Það þarf að móta og síðan fylgja skarpri aðhaldsstefnu í verðlags- og launamálum, þar sem horft verður til lengri tíma en nokkurra mánaða. En viðnám gegn verðbólgu verður næsta haldlítið ef ekki er jafnframt mótuð samræmd aðhaldsstefna á sviði ríkisfjármála, peningamála, fjárfestingarmála og skattamála. Ríkisstj. hyggst í þessu skyni m.a. beita sér fyrir eftirgreindum aðgerðum:

Stefnt verði að því í samráði við aðila vinnumarkaðarins, að verðlag og peningalaun hækki ekki meira en 5% hinn 1. mars n.k. Leitast verði við að ná svipuðum markmiðum fyrir önnur verðbótatímabil á árinu 1979 þannig að verðbólgan náist niður fyrir 30% í lok ársins. Vísitöluviðmiðun launa verði breytt fyrir 1. mars n.k. að höfðu samráði við fjölmennustu heildarsamtök launafólks. Gert er ráð fyrir að vísitölunefnd skili tillögum fyrir 15. febr. n.k. sem unnt verði að byggja á í þessu sambandi. M.a. verður athuguð viðmiðun við viðskiptakjör o.fl.

Eins og kunnugt er hefur vísitölunefnd þegar gert ríkisstj. grein fyrir störfum sínum fram til þessa dags, og mun hún halda áfram starfi sínu. Það er rangt, eins og m.a. hefur verið gert í fjölmiðlum, að tala um tillögur vísitölunefndar. Tillögur frá hennar hendi liggja ekki enn fyrir.

Vegna þeirra aðgerða, sem frv, þetta gerir ráð fyrir, verða lögð fram nú fyrir áramót frv. til laga um tekjuöflun og kemur þar m.a. til athugunar hátekjuskattur og veltuskattur á ýmiss konar rekstur. Einnig kemur til skoðunar í þessu skyni fjárfestingarskattur og eignarskattur. Þetta er allt í athugun hjá skattalaganefnd.

Með samræmdri beitingu þeirra fjármálatækja, sem hér hafa verið nefnd, þ.e. með álagningu sérstaks skatts á verðbólgufjárfestingu og með hækkun eignarskatts er stefnir að sama marki, mætti koma traustum böndum á verðbólgugróðann. Ég hygg að menn geti verið sammála um að þvílíkar aðgerðir séu fyllilega réttlætanlegar.

Rík áhersla verður lögð á að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálum á sama grundvelli og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. fyrir árið 1979. Jafnframt verður að því stefnt, að aukinni fjárþörf ríkissjóðs vegna þeirra aðgerða, sem ríkisstj. hefur gripið til, verði mætt að hluta með niðurskurði rekstrarútgjalda ríkisins.

Einn liður í þessari viðleitni felst í því að endurskoða allan ríkisrekstur með aukið aðhald og sparnað í huga. Jafnframt verða skattalögin endurskoðuð svo og skattalagaframkvæmd til þess að tryggja aukið réttlæti í skattlagningu og skattheimtu. Beinir skattar af almennum launatekjum, sérstaklega tekjuskattur og sjúkratryggingagjald, verða lækkaðir á næsta ári.

Á þessu þingi hyggst ríkisstj. beita sér fyrir breyttri stefnu í framleiðslumálum landbúnaðarins og verða fyrstu frv. um þetta efni lögð fram nú fyrir næstu áramót.

Stefnt verður að því að draga í áföngum úr framleiðslu umfram þarfir, þannig að útflutningsbætur geti lækkað frá því sem nú er.

Ríkisstj. mun beita sér fyrir aðhaldssamri stefnu á sviði fjárfestingarmála á næsta ári og er að því stefnt að heildarfjárfesting á árinu 1979 verði ekki umfram 24–25% af vergri þjóðarframleiðslu.

Stefnumörkun á sviði fjárfestingarmála er nú í undirbúningi og er gert ráð fyrir lagafrv. um þau mál innan tíðar. Þar er m.a. gert ráð fyrir því, að fjárfestingu verði beint frá verslunar- og skrifstofubyggingum í tækni- og skipulagsumbætur, m.a. í fiskvinnslu og iðnaði. Dregið verði úr fjárfestingu í landbúnaði sem leiðir til aukinnar framleiðslu, en áhersla lögð á hagræðingu og uppbyggingu vinnslustöðva landbúnaðarins. Þessari stefnu mun verða fylgt eftir með breytingum á reglum um útlán fjárfestingarlánasjóða og banka.

Í 3. gr. þessa frv. eru ákvæði þess efnis, að ríkisstj. muni beita sér fyrir aðgerðum og lagasetningu til ýmissa félagslegra umbóta sem í kjarabótum megi meta 3% af verðbótavísitölu þeirri sem gildir fram til 30. nóv. Við undirbúning þeirra mála, sem hér um ræðir og talin eru upp í 7. lið grg., mun ríkisstj. hafa fullt samráð við aðila vinnumarkaðarins, og er áhersla lögð á að aðgerðum og undirbúningi löggjafar verði hraðað svo sem kostur er. Hér er um margvísleg hagsmuna- og réttindamál að ræða, og má minna á að um mörg af þessum málum er fjallað í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna og meginstefnan í þessum málum mörkuð þar. Undirbúningur margra þessara mála er þegar hafinn og í sumum tilvikum langt kominn.

Þau mál, sem sérstaklega eru nefnd í grg. frv. eru þessi:

Öryggismál og hollustuhættir á vinnustöðum.

Húsnæðismál.

Leigjendavernd.

Málefni lífeyrissjóða og eftirlaun aldraðra.

Fæðingarorlof.

Fræðslumál samtaka launafólks.

Dagvistunarheimili.

Veikinda- og slysabætur og uppsagnarákvæði launafólks.

Forfallaþjónusta í landbúnaði.

Ávöxtun orlofsfjár.

Sérstök réttindamál opinberra starfsmanna.

Um þessi mál var allítarlega fjallað í framsögu í Nd. og verð ég að vísa til þess hér vegna þeirra tímatakmarkana sem gilda.

Í peningamálum mun ríkisstj. fylgja mjög aðhaldssamri stefnu. Í þeirri stefnu felst að útlánaþök bankanna og bindiskylda Seðlabankans verði ákveðin þannig að peningamagn í umferð verði í samræmi við stefnuna í launamálum. Ljóst er að takmörkun útlána og hófleg aukning peningamagns er ein af forsendum þess að unnt reynist að draga úr verðþenslu.

Ríkisstj. mun beita ströngu verðlagsaðhaldi og halda áfram eflingu verðlagseftirlits. Í því sambandi munu reglur verðlagseftirlitsins um hámarksálagningu verða endurskoðaðar og fleiri tegundir en nú er settar undir hámarksákvæði.

Til að draga úr verðlagsáhrifum launahækkunar 1. des. hefur ríkisstj. ákveðið að þær verðhækkanir, sem heimilaðar verða eftir 1. des., miðist við 4–41/2% kauphækkun hið mesta. Þetta þýðir m.ö.o. að atvinnurekendur taki á sig um 2% í kauphækkun án þess að fá það til baka í verðhækkun, og ber að skoða þetta sem framlag atvinnurekenda til viðnáms gegn verðbólgu.

Hér að framan hef ég farið nokkrum orðum um nánari tildrög og tilgang þeirra aðgerða, sem frv. gerir ráð fyrir, og jafnframt lýst því að nokkru, hvernig ríkisstj. hyggst fylgja þessum málum eftir á næsta ári.

Ég vík þá aðeins að einstökum köflum frv. sjálfs.

Í l. kafla frv. er fjallað um niðurgreiðslu vöruverðs, lækkun skatta lágtekjufólks, félagslegar umbætur og verðbótavísitölu. Þessi kafli frv. skýrir sig að mestu leyti sjálfur. Þar er m.a. gert ráð fyrir því, að niðurgreiðslur verði enn auknar frá því sem nú er. Einnig segir þar, að ríkisstj. muni beita sér fyrir lækkun skatta og gjalda á lágtekjufólki. Enn fremur hyggst ríkisstj. beita sér fyrir aðgerðum til ýmissa félagslegra umbóta sem metnar verði til kjarabóta launþega, eins og ég hef áður getið.

Ákvæðin í l. kafla frv. fela þannig í sér, að til þess að ná árangri í viðureigninni við verðbólguna verða kjör launþega bætt sem svarar 8% af 14% hækkun verðbótavísitölu með öðrum hætti en með beinni launahækkun í krónum, og er megináherslan lögð á að tryggja kjör lágtekjufólks. Aðalatriðið er auðvitað kaupmáttur launanna, en ekki krónutalan í launaumslagi.

Þá má segja, að aðallagaákvæðið sé í 4. gr. Skv. henni skal greiða verðbætur á laun á næsta verðbótatímabili skv. verðbótavísitölu 151 stig.

Í II. kafla frv. eru ákvæði til að tryggja kjör lífeyrisþega og þá sérstaklega hinna tekjulægstu í þeirra hópi með hækkun lífeyrisbóta og sérstakri hækkun tekjutryggingar. Sú hækkun er 9% í stað hinnar almennu reglu um aðeins 6% hækkun.

Með tillögum frv. í heild eiga kjör allra hinna lægst launuðu að vera tryggð með viðunandi hætti, jafnframt því sem freistað er að veita viðnám gegn veðbólgu.

Með þeirri stefnu í launa- og verðlagsmálum, sem mörkuð er í þessu frv., ásamt þeirri samræmdu stefnu á öllum sviðum efnahagsmála sem nú er í mótun og þegar hefur komið fram í fjárlagafrv. að því er ríkisfjármálin varðar og skýrð er frekar í grg. þessa frv., má telja að jöfnuður náist í viðskiptum við útlönd á næsta ári. Þótt hagvöxtur verði minni en að undanförnu ætti atvinna að vera næg um leið og tækist að draga tír verðbólgu.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. segir m.a. að unnið skuli að gerð þjóðhags- og framkvæmdaáætlunar sem marki stefnuna í atvinnumálum, fjárfestingarmálum, tekjuskiptingu og kjaramálum. Jafnframt verði mörkuð stefna um hjöðnun verðbólgu í áföngum og ráðstafanir ákveðnar sem nauðsynlegar eru í þessu skyni, m.a. endurskoðun á vísitölukerfinu, aðgerðir í skattamálum og mótun nýrrar stefnu í fjárfestingar- og lánamálum.

Þær ráðstafanir, sem gripið var til fyrst í sept. s.l., mörkuðu fyrsta áfanga þessa verks. Með ráðstöfunum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er þessu verki haldið áfram og í reynd hafinn annar áfangi á þeirri braut að móta og síðan fylgja samræmdri aðhaldsstefnu í launa- og verðlagsmálum í samhengi við heildarstefnuna í skattamálum og efnahagsmálum almennt.

Ég hygg að fæstum blandist hugur um það, að eigi viðunandi árangur að nást í viðnámi gegn verðbólgu þurfi að koma til aðgerðir sem ekki liggja einungis á sviði launamála og verðlagsmála, heldur einnig á öðrum sviðum kjaramála, ásamt aðgerðum á vettvangi peninga- og lánamála, fjármála ríkisins, verðlagsmála og fjárfestingarmála. Viðnámið gegn verðbólgu verður næsta máttlítið nema því sé fylgt eftir á öllum sviðum efnahagsmála.

Ríkisstj. hefur sett sér það meginmarkmið að vinna að hjöðnun verðbólgu í ákveðnum áföngum, og þær aðgerðir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, eru mikilsverð skref á þeirri leið. Ég verð að segja að mér finnst furðulítið samræmi á máli athafna sjálfstæðismanna, þ.e.a.s. stjórnarandstæðinga nú, þegar þeir annars vegar eru í stjórn og hins vegar í stjórnarandstöðu. Þeir settu febrúarlögin, og að því stóð ég og minn flokkur, af því að nauðsyn bar til að okkar dómi. Þá var Sjálfstfl. í stjórn. Nú er Sjálfstfl. andvígur þessum ráðstöfunum. Hann vill að 14% hækkun fari út í kaupgjald og verðlag. Hann vill meira að segja að aukin niðurgreiðsla, hvort heldur er 3% eða 21/2%, komi ekki til frádráttar verðbótavísitölu þeirri sem reiknuð hefur verið út og á að taka gildi 1. des., greiddi atkv. beinlínis gegn þeirri grein í hv. Nd. Nú er hann í stjórnarandstöðu. Því hefur verið lýst yfir af talsmönnum hans, að hann mundi sýna ábyrgð í stjórnarandstöðu. Hvar er nú ábyrgðartilfinningin? Nánari tími gefst ekki hér til útlistunar á þessu fyrirbæri. Það skýrir sig sjálft og sannar, að sjálfstæðismenn hafa ekkert lært frá því á vordögum 1974.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjh.og viðskn.