29.11.1978
Efri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það hefur komið glöggt fram á síðustu dögum hve ríka áherslu Alþfl. hefur viljað leggja á viðureignina við verðbólguna. En hvers vegna, kunna menn að spyrja, leggur Alþfl. svona ríkt við að tekið sé föstum tökum á verðbólgunni? Þær ástæður eru margar, ég ætla bara að nefna þrennt:

1. Verðbólgan dregur úr þjóðartekjum til lengdar og það bitnar fyrst og fremst á hinum lægst launuðu.

2. Stærsta misréttið í þjóðfélaginu er fólgið í aðstöðunni til þess að krækja sér í lán og auðgast þannig á verðbólgunni. Það fólk, sem lökust hefur kjörin, verður enn frekar undir í verðbólgunni því það hefur allra síst aðstöðu til þess að vernda hagsmuni sína með aðgangi að lánsfé. Þess vegna er það kjarabót fyrir láglaunafólkið og þá verst settu að ná verðbólgunni niður.

3. Það þrífst margs konar spilling og siðferðileg upplausn í skjoh verðbólgunnar, og þetta spillir þjóðfélagi okkar.

Alþfl.-menn sögðu fyrir kosningar og við segjum það enn, að til þess að glíman takist verður þjóðin að taka á sig byrðar og hagsmunahópar að láta af ítrustu kröfum sínum.

Í tillögum okkar Alþfl.-manna allt frá því fyrir kosningar og fram á þennan dag hefur verið lögð áhersla á að þörf væri fjölþættra aðgerða. Við höfum í þessu sambandi t.d. bent á fjárfestinguna og nefnt töluleg mörk í því sambandi, sem m.a. má finna í grg. með fyrirliggjandi frv. En við höfum líka sagt, að það þyrfti að breyta fjárfestingunni og beina henni í auknum mæli í arðbærar framkvæmdir, sem auka afköst vinnandi handa í framleiðslunni, í skipulags- og tækniumbætur í fiskvinnslu og iðnaði og úr óarðbærum framkvæmdum. eins og t.d. framleiðsluaukandi fjárfestingu í landbúnaði.

Við höfum líka lagt áherslu á aðgerðir í peningamálum. aðhaldssamar aðgerðir og breytta útlánastjórn til samræmis við markmiðin í fjárfestingarmálum. Við höfum bent á að skattastefnan er liður í viðureigninni við verðbólguna og þá með margvíslegum hætti, m.a. til þess að treysta og auka ráðstöfunartekjur hinna lægst launuðu, eins og með lækkun tekjuskatts.

Hinu höfum við heldur ekki leynt, að það tæki tíma áður en þessar aðgerðir skiluðu árangri. Kerfisbreytingar á rekstri fyrirtækja og ríkisstofnana eru nauðsynlegar, og því aðeins hvetur Alþfl. umbjóðendur sína til stundarfórna, að hann telur nauðsynlegt að svigrúm við hjöðnun verðbólgu verði notað til slíkra kerfisbreytinga sem ásamt stefnunni í fjárfestingarmálum og peningamálum munu smám saman skila árangri til þess að treysta kjörin, jafna aðstöðuna og ná enn frekari tökum á verðbólgunni.

Við höfum enn fremur bent á að verðlagsstefna þurfi að vera með í myndinni og verðlagsaðhald þurfi að vera strangt.

Mörg þessara atriða er að finna í grg. með frv. Þau gefa til kynna þá áherslu sem Alþfl. hefur lagt á samræmda heildarstefnu.

En við höfum líka sagt að marka þyrfti ákveðna stefnu í launamálum. Þeir, sem hins vegar halda því fram. að við Alþfl.-menn sjáum ekkert nema launaliðinn, og tala um kaupránstillögur okkar, fara herfilega villir vegar. Það er einmitt Alþfl. sem flokka mest hefur lagt áherslu á samræmdar aðgerðir á mörgum sviðum.

Hvers vegna höfum við lagt áherslu á samræmdar aðgerðir á mörgum sviðum? Jú, við höfum gert það vegna þess að við höfum árum saman horft á gagnslitlar aðgerðir sem takmörkuðust við launaliðinn einan og renna þess vegna út í sandinn.

Það, sem við blasir, er þetta: Það er lífskjarabót að draga úr verðbólgunni. Það eru lífsgæði í sjálfu sér að draga úr misrétti, og fyrir þetta þarf nokkuð á sig að leggja. Það höfum við Alþfl.-menn sagt undanbragðalaust.

Við höfum líka sagt að við vildum nýtt vísitölukerfi, og við höfum sagt að launastefnan og/eða nýtt vísitölukerfi væri nauðsynlegur þáttur í viðureigninni við verðbólguna, Alþfl. vildi staldra við strax og móta stefnuna og setja fram áfangamarkmið, líka í þessum efnum.

Megináherslu höfum við Alþfl.-menn lagt á endurbætur á vísitölukerfinu. Þess vegna talaði Alþfl. fyrir því, að meðan unnið væri að endurbótum á vísitölukerfinu og til þess að vera spori á þá endurskoðun yrðu settar ákveðnar prósentuhækkanir launa ársfjórðungslega. Í því sambandi höfum við talið að setja ætti tiltekin kaupmáttarmarkmið þannig, að trygging fengist fyrir kaupmætti hinna lægst launuðu.

En er þá launastefnan mikilvæg? kunna menn að spyrja. Sumir segja að verðbólgan hafi ekkert með launin að gera. Þau séu ekki of há. Auðvitað eru launin ekki of há. Þau eru of lág ef við miðum við grannlönd okkar t.d. En þau eru of lág vegna þess að verðbólgan hefur rýrt lífskjörin. Ráðið er að ná verðbólgunni niður.

En það er lýðskrum að launin hafi ekkert með verðbólguna að gera. Launin eru vitaskuld hluti af framleiðslukostnaði og hafa þannig sín áhrif á verðbólguna. Ef menn viðurkenna áhrif annarra þátta í framleiðslunni á verðbólguna, eins og t.d. vaxtanna, þá eru menn um leið að viðurkenna áhrif launa á verðbólguna.

Það á ekki að líta á launin ein, en það á ekki heldur að líta á allt annað en launin. Alþfl. er ekki einn um það, að hafa með einum eða öðrum hætti lagt áherslu á mikilvægi launastefnu í þessu sambandi. Það hafa allir flokkar gert. Allir flokkar hafa staðið að því að hnika til og breyta vísitöluviðmiðun launa af því að nauðsyn krafði. Talsmenn Alþb. töluðu t.d. fyrir slíku vorið 1974. Ég held að einn af talsmönnum Alþb., Lúðvík Jósepsson, hafi þá orðað þetta mjög vel og alveg hárrétt, nefnilega þannig, með leyfi forseta: „Sá vísitölugrundvöllur, sem við búum við í dag, er í eðli sínu ósanngjarn og hann er auk þess stórhættulegur efnahagskerfinu.“ Þetta voru orð hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar.

Þegar Vestmannaeyjagosið dundi yfir var 2% viðlagasjóðsgjaldi sleppt í gegn án þess að það hefði áhrif á laun. Þetta var líka að viðurkenna það, að við vissar aðstæður sé nauðsynlegt að slaka á fastbindingunni við vísitöluviðmiðun launa.

Þannig er það ljóst, að allir flekkar hafa staðið að aðgerðum og lagafrv. sem drógu úr vísitölutengingu launa, og frv., sem nú liggur fyrir, er líka af þessu tagi.

Vestmannaeyjagosið var þjóðaráfall, en það er líka þjóðarógæfa ef ekki tekst að ná verðbólgunni niður.

Alþfl. hefur talið að betra væri að taka málið fastari tökum strax og setja fastari áfanga. Honum hefur fundist erfitt að biðja um fórnir sem skila takmörkuðum árangri. Hann taldi betra að biðja um meira strax og eiga árangurinn vissari.

En fyrirliggjandi frv. forðar þjóðinni frá stórkostlegri holskeflu verðbólgunnar. Viðureignin við verðbólguna verður hins vegar að halda áfram og enn þarf mjög á að taka ef góður árangur á að nást. Þess skyldi enginn ganga dulinn.