29.11.1978
Efri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þegar hér í hv. Ed. Alþ. er til umr. frv. til l. um ráðstafanir í efnahagsmálum, sem flutt er af ríkisstj. sem setið hefur að völdum í aðeins þrjá mánuði, þá komumst við ekki hjá því að líta aðeins um öxl og sjá hvernig umhorfs var í efnahagsmálum þjóðarinnar þegar ráðh. síðustu ríkisstj. stigu upp úr stólunum. Þetta var í sem allra stystu máli sagt þannig: Verðbólga yfir 50%, gengisskráning röng um 15%, vaxandi skuldir ríkisins við Seðlabankann, og það sem allra verst var, að fiskvinnslufyrirtækin, sem eru undirstöðuatvinnufyrirtæki þjóðarinnar, höfðu ýmist stöðvast eða voru að stöðvast með tilheyrandi atvinnuleysi í þeim atvinnugreinum og síðan í öllum öðrum greinum. Þetta gerðist þrátt fyrir það að bjargráðalög þeirrar ríkisstj., hin svokölluðu kaupránslög, sem samþykkt voru á Alþ. í febrúarmánuði, höfðu þá verið í gildi í hálft ár og hefðu því átt að vera farin að sanna gildi sitt. Og ég held að það sé alveg rétt, að þau höfðu svo sannarlega sannað gildi sitt, en höfundum þeirra til lítillar sæmdar.

Það var í fyllsta máta eðlilegt, að þau ráð, sem gripið var til í byrjun sept., væru lítið annað en bráðabirgðaráðstafanir. Það þurfti lengri tíma en þá var til umráða til þess að reyna að vinna að kjarasáttmála milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisvaldsins um frambúðarstefnu í efnahags- og launamálum. Þótt mikill samstarfsvilji og velvilji væri fyrir bendi hjá verkalýðshreyfingunni gagnvart hinni nýju ríkisstj., þá voru málin beinlínis það umfangsmikil að varla var við því að búast að minna dygði til en 2–3 mánuðir í viðbót til að marka þá heildarstefnu sem nægja mundi til að lækna þó ekki væri nema að verulegum hluta það helsjúka efnahagslíf sem við áttum við að búa.

Við Alþfl.-menn sögðum það í kosningabaráttunni á s.l. sumri og segjum það enn, að til þess að lækna þá meginmeinsemd þjóðlífsins, sem verðbólgan vissulega er, verður þjóðin að taka á sig nokkrar fórnir eða eins og stendur í okkar ágæta plaggi um gerbreytta efnahagsstefnu, með leyfi forseta:

„Þjóðin verður að taka á sig nauðsynlegar fórnir, en mest ber að leggja á þá nýju forréttindastétt, sem hefur dregið að sér verðbólgugróðann með aðstöðu í lánastofnunum og sérréttindum.“

Við höfum því alltaf gert mönnum grein fyrir því, að það er ekki sársaukalaust að losna við meinvaldinn. Ég hef hér verið að tala um efnahagslíf, þjóðlíf, mein o.s.frv., og ég leyfi mér þá kannske aðeins að vitna til starfsgreinar minnar. Þegar skorið hefur verið til meins, þá líður sjúklingnum verr en áður, kannske miklu verr ef meinið var slæmt, en þegar frá líður fer honum að líða betur og kannske miklu betur en um langan tíma áður. Svona geta hlutirnir æxlast í þjóðlífinu líka.

Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., veldur okkur Alþfl.-mönnum miklum vonbrigðum, því að í samræmi við efni frv. heiti það: „Frv. til laga um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu“, en mörgum gæti þótt svo, að eins gæti það heitið: Frv. til l. um vettlingatök á verðbólgu. Svo linlega virðist hér á málum tekið.

Um sum vinnubrögð við gerð þessa frv. má margt gott segja, en um sumt getum við hins vegar haft hin verstu orð. Til fyrirmyndar er t.d. úrvinnsla mála af hinum færustu mönnum, svo að þm. hefði átt að vera auðvelt að gera sér glögga grein fyrir stöðu mála. Má þar t.d. nefna skjalið frá vísitölunefnd sem útbýtt var hér á þingi í gær. En fyrst og fremst tel ég til fyrirmyndar hve mikil samráð hafa verið höfð við verkalýðshreyfinguna þann tíma sem málið hefur verið í undirbúningi og þá sérstaklega við Verkamannasambandið, en innan þess eru kannske fyrst og fremst þeir aðilar sem helst þarf að vernda gegn þeim fórnum sem þjóðin í heild hlýtur að þurfa að taka á sig. Ég efa það mjög, að nokkur ríkisstj. hafi áður haft svo nána samvinnu við verkalýðshreyfinguna um bráðabirgðaráðstafanir í efnahagsmálum, bæði núna og eins fyrir þremur mánuðum. Hitt er svo annað mál, að ég veit ekki nema þessi sama velviljaða verkalýðshreyfing geti orðið langþreytt ef hún þarf að sjá framan í stöðugar bráðabirgðaraðstafanir á þriggja mánaða fresti, en heildarstefnu sé stöðugt frestað.

Meingallar þessa frv. eru fyrst og fremst tveir að mínu mati. Þeir eru svo stórir að þeir eru varla viðunandi. Fyrri gallinn: Nærri allt, sem minnir á mótun samræmdrar stefnu um aðgerðir á öllum sviðum efnahagsmála sem ráðið geti úrslitum um verðbólguþróun á næstu missirum. eins og skrifað stendur, er sett aftan við frv., í þann kafla sem heitir Athugasemdir við lagafrv. þetta. Þegar þetta frv. verður orðið að lögum verða aths. með aðgerðunum 9 klipptar aftan af, og ég tel mig ekki hafa næga tryggingu fyrir að sumt af því, sem þarna stendur og helst horfir til bóta, verði annað en pappírsplaggprentað á ljótan pappír og geymt í hirslum Alþingis. Hinn gallinn er linkan og óákveðnin sem skín út úr nærfellt hverri grein í grg. Fimm sinnum er sagt að gert sé ráð fyrir, þrisvar að stefnt sé að, tvisvar að athugað verði og einn sinni að leitast verði við. Er nokkur furða þótt okkur finnist nóg um að hafa í þessum 9 gr. 11 sinnum svona hetjulegar yfirlýsingar? Þetta er eiginlega verra heldur en alvarlegu augun hans Geirs Hallgrímssonar.

Verðbólgan lætur ekki undan neinu hálfkáki. Til þess að sigrast á henni þurfum við að ráðast að öllum hennar þáttum. Við verðum að viðurkenna að launaþátturinn er einn af þessum þáttum, en engan veginn nema einn hluti af heildardæminu, gagnstætt því sem síðasta ríkisstj. virtist halda að væri, að þar væri um algeran aðalbölvald að ræða.

Við Alþfl.-menn munum ekki bregða fæti fyrir þær aðgerðir ríkisstj. sem fram koma í þessu frv. sem hér er til umr., þó að okkur þyki frv. meingallað. Við munum láta reyna á það á næstu vikum, hvort ákvæði grg. eru raunveruleg stefna samstarfsflokka okkar eða hvort þeir ætla að gera þau að marklausum pappírum. En fari svo, sem ég vona að ekki verði, þá eru þeir að segja sig úr lögum við þá sem skópu samstarfsyfirlýsinguna sem aðeins er þriggja mánaða gömul, segja sig úr lögum við Alþfl., og það sem verst er, þeir eru að segja sig úr lögum við þann stóra hluta íslensku þjóðarinnar sem treysti þessari nýju stjórn til góðra verka.

En að lokum, eins og áður hefur verið sagt á þessum stað: Megi hollvættir Íslands leiða forustumenn okkar ágætu þjóðar til réttrar brautar.