29.11.1978
Efri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. S.l. mánudag gerðist sá einstæði atburður í þessari deild Alþingis, að forseti deildarinnar, hv. þm. Bragi Sigurjónsson, sagði af sér forsetastörfum. Þessi atburður var vel skjalfestur. Þar voru mættir fréttaritarar og ljósmyndað var í bak og fyrir. Í ræðu sinni lýsti þm. m.a. þeirri skoðun sinni, að kjark- og úrræðaleysi hefði orðið fyrrv. ríkisstj. fyrst og fremst að falli. Síðan sagði hann orðrétt: „Ég harma að ríkisstj., sem ég hefði viljað sjá vaxa og vel dafna, hafi nú lotið að sömu vinnubrögðum og sýnt sams konar kjark- og úrræðaleysi“. Þá kvaddi sér hljóðs hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson. Hann lýsti sig svo fullkomlega sammála, að hann kvaðst engu hafa við að bæta ræðu Braga Sigurjónssonar. Manni skildist að þm. væri nánast orðlaus af aðdáun. Þannig lýstu tveir þm. sig hjartanlega sammála í þeirri skoðun sinni, að kjark- og úrræðaleysi hefði orðið ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar að falli og núv. ríkisstj. stefndi að sömu örlögum.

Varla verður um það deilt, að mistök urðu ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar að falli. Sömuleiðis er ljóst, að sú ríkisstj., sem nú situr, verður að læra af þeim mistökum og forðast þau. Ég er sammála þm. um að kjark- og úrræðaleysi átti stóran þátt í falli ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Sérstaklega tel ég að hún hafi oft verið sein að grípa til nauðsynlegra aðgerða, t.d. eftir sólstöðusamningana í fyrra sem tvímælalaust urðu umfram greiðslugetu atvinnuveganna. En mistökin voru að mínu mati fleiri. Örlagaríkast var, að ríkisstj. Geirs Hallgrímssonarvanrækti eða tókst ekki að ná þeirri samstöðu með aðilum vinnumarkaðarins, fyrst og fremst launþegum, sem nauðsynleg er til þess að stjórna megi þessu landi.

Núv. ríkisstj. vill læra af þessum mistökum. Því byggir hún á því grundvallaratriði, að samráð skuli haft við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir í efnahagsmálum. Rétt er að slíkt samráð er oft þungt í vöfum, enda kjaramálin viðkvæm. Það er að mínu mati mikil bjartsýni að ætla að slík samstaða geti náðst á þremur mánuðum.

Til þess að skýra mál mitt betur vil ég nefna að í þeirri till., sem Alþfl.-menn lögðu fram um aðgerðir nú 1. des., þar sem gert var ráð fyrir að endanleg launalækkun yrði aðeins 3.6%, var reiknað með frádrætti vegna versnandi viðskiptakjara 2% og framlagi launþega til viðnáms gegn verðbólgu 3%, hvort tveggja bótalaust. Ég er því sammála, að þetta hefði verið æskilegt. Því ákváðum við framsóknarmenn að láta á það reyna við fulltrúa stærstu launþegasamtakanna. Forsrh. átti við þá viðræður. Í ljós kom að ekki var á þessu stigi samkomulagsgrundvöllur um slíka eftirgjöf af hálfu launþega. Slíka skerðingu hefði því orðið að ákveða með lögum einhliða og án samkomulags. Þar með hefði verið þverbrotin sú grundvallarregla, sem ríkisstj. byggir á, að hafa samráð og leita eftir víðtækri samstöðu við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir í efnahagsmálum.

Vel má vera að einhver ásaki ríkisstj. um kjark- og úrræðaleysi af þessum sökum. En hvað er þá orðið um kjarasáttmálahugsjónina t.d. hjá síðasta hv. ræðumanni Alþfl.? Hér mun enn sannast að kapp er best með forsjá. Hinn gullni meðalvegur mun reynast farsælasta leiðin.

Þrátt fyrir þá áherslu sem við framsóknarmenn leggjum á samstöðu með aðilum vinnumarkaðarins um aðgerðir í efnahagsmálum er okkur hins vegar ljóst, að ríkisstj. verður að hafa forustu um mótun slíkrar stefnu. Við þær aðgerðir, sem nauðsynlegar eru nú 1. des., teljum við því rétt að ríkisstj. móti nánar stefnu sína í efnahagsmálum. Því beittum við okkur fyrir því, að í aths. við frv. eru sett fram ákveðin markmið sem að verður stefnt á næstunni. Allir stjórnarflokkarnir eiga að sjálfsögðu stóran þátt í mótun þessarar stefnu. Þess mættu sjálfstæðismenn minnast er þeir hamast nú við að reka fleyg í samstarf stjórnarflokkanna, og þess mætti einnig hv. síðasti ræðumaður minnast.

Þessi markmið eru öll byggð á þeirri efnahagsstefnu sem sett er fram í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Fyrst og fremst er um að ræða nánari útfærslu. Í sumum tilfellum er stigið allstórt skref að þessu leyti. Í því kemur jafnframt fram sá skilningur núv. ríkisstj., að ráðast þurfi gegn efnahagsvandanum með víðtækum aðgerðum á fjölmörgum sviðum. Greinir þar einnig á milli starfshátta núv. ríkisstj. og ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Mun ég nú fjalla um nokkur þessi stefnumið.

Í fyrsta lið aths. segir, að að því skuli stefnt að verðlags- og peningalaunahækkanir 1. mars n.k. verði ekki meiri en 5%, og í öðrum lið, að leitast skuli við að ná verðbólgunni niður fyrir 30% í lok ársins 1979. Þetta er í samræmi við fyrsta lið breyttrar efnahagsstefnu í samstarfsyfirlýsingunni. Þar er sagt, að stefnt skuli að hjöðnun verðbólgunnar í áföngum.

Sumum kann að virðast að erfitt muni reynast að halda hækkunum innan við 5% fram til 1. mars n.k. Hins vegar hygg ég að mörgum muni þykja að heldur lítið hafi áunnist ef verðbólgan reynist enn 30% í lok ársins 1979. Þetta tvennt helst þó í hendur. Til þess að verðbólgan verði innan við 30% í lok ársins mega verð- og launahækkanir varla verða meira en 5% ársfjórðungslega á árinn 1979.

Okkur framsóknarmönnum er að sjálfsögðu ljóst að til þess að ná þessum markmiðum mun þurfa að beita víðtækum aðgerðum og ströngu verðlagseftirliti. Okkur er einnig ljóst að með þeirri vísitölubindingu launa, sem nú er búið við, mun þetta markmið alls ekki nást. Víxlhækkanir munu þá reynast meiri og óviðráðanlegar.

Því er í þriðja lið aths. lögð áhersla á að vísitöluviðmiðun launa verði breytt fyrir 1. mars 1979. Sumir fulltrúar launþega hafa sagt að með þessu sé beitt óeðlilegum þrýstingi sem geti spillt fyrir störfum vísitölunefndar. Því á ég bágt með að trúa. Ég er sannfærður um að launþegar í landinu eru fyrir löngu orðnir vissir um það og vita það, að núverandi vísitöluviðmiðun launa er ekki aðeins ófær og verðbólguhvetjandi, heldur mjög skaðleg, fyrst og fremst fyrir þá sem lægst launin hafa.

Fram eru komnar fjölmargar hugmyndir um endurskoðun vísitöluviðmiðunar. Ég fæ t.d. ekki betur séð en að flestir séu sammála um það nú, að ekki muni fært að láta erlendar verðhækkanir leiða til launahækkana hér á landi ef afkoma atvinnuvega okkar batnar á engan máta á sama tíma og jafnvel versnar. Sömuleiðis heyrast mér fáir mæla því bót, að laun beri að hækka þegar reist er sjúkrahús, skóli eða efld önnur þjónusta við þjóðfélagsþegnana og tekna til þess aflað með sköttum. Því tel ég sannarlega tímabært að ríkisstj. lýsi vilja sínum í þessu mikilvæga máli. Farið er fram á að vísitölunefndin skili tillögum fyrir 15. febrúar. Varla getur það talist til of mikils ætlast.

Í fimmta lið aths. er því lýst, að breytt muni verða um stefnu í framleiðslumálum landbúnaðarins á þessu þingi. Þegar framleiðsluráðslögin voru sett árið 1947 var í landinu skortur á landbúnaðarafurðum. Þá þótti rétt að stuðla að því, að landbúnaðarframleiðslan yrði aukin. Þetta tókst. En því miður var þess ekki gætt að endurskoða þá stefnu tímanlega þegar því markmiði var náð að fullnægja þörfum þjóðarinnar fyrir kjöt- og mjólkurvörur. Þá hefði þurft að beina aukinni framleiðslu inn á ný svið og jafnframt styrkja tekjur bænda til samræmis við aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Umframframleiðslan er orðin of mikil og fer vaxandi, og lágt verð og sölutregða erlendis veldur vaxandi erfiðleikum. Því hafa bændur landsins haft forustu um. að breytt verði um stefnu. Í samræmi við tillögur Stéttarsambands bænda mun ég því leggja fram nú eftir belgina frv. til l. um ráðstafanir til þess að draga úr umframframleiðslu í landbúnaði. Hér vinnst ekki tími til þess að ræða þær till. ítarlega. Ég vil þó Leggja áherslu á að og lít á þær aðgerðir, framleiðslugjald og fóðurbætisskatt, sem bráðabirgðaráðstafanir. Mikilvægast er að móta stefnu í landbúnaði til langs tíma. Þar ber að Leggja áherslu á þrjú meginatriði:

1. Að tryggja bændum sambærilegar tekjur við tekjur annarra stétta í þjóðfélaginn.

2. Að miða landbúnaðarframleiðsluna fyrst og fremst við okkar eigin þarfir, en gera hana jafnframt fjölbreyttari.

3. Að tengja þróun landbúnaðarins þeirri stefnu sem við fylgjum í byggðamálum.

Því geri ég ráð fyrir að leggja fram á Alþ. eftir áramótin tillögu um slíka stefnumótun í landbúnaði. Verður þá jafnframt lagt fram frv. til l. um beina samninga bænda við ríkisvaldið. Einnig tel ég nauðsynlegt að samræma styrkjakerfi landbúnaðarins og alla aðra starfsemi í hans þágu þeim langtímamarkmiðum sem ákveðin verða. Geri ég ráð fyrir að leggja fram á Alþ. þegar í næstu viku frv. til l. um breyt. á styrkjakerfi jarðræktarlaganna sem að þessu stefnir. Við þessa stefnubreytingu er mikilvægast að nota allar tiltækar leiðir til þess að tryggja bændum sambærilegar tekjur og aðrar stéttir í þjóðfélaginn hafa og koma í veg fyrir kjaraskerðingu við þá stefnubreytingu sem gera verður.

1 6. lið aths. er mörkuð mjög mikilvæg stefna um fjárfestingu í landinu. Þar er ákveðið sem markmið að heildarfjárfestingin á árinu 1979 verði ekki umfram 24– 25% af vergri þjóðarframleiðslu. Þar er um 10–11% samdrátt að ræða. Stefnumótun á þessu sviði er nú í undirbúningi og má vænta tillagna á næstunni. Áhersla verður lögð á að ljúka þeirri fjárfestingu sem er hafin, en forðast að ráðast í nýja um sinn, en leggja hins vegar áherslu á hagræðingu. Þannig verður að kappkosta að treysta grundvöll allra atvinnuvega þjóðarinnar. Ef tekst að ná fjárfestingunni niður eins og að er stefnt og jafnframt að láta hagkvæmnina ráða, en ekki stundarverðbólgugróðasjónarmið, mun það hafa mjög mikil og jákvæð áhrif á þróun verðbólgu á næstu árum.

Í 7. lið aths. eru taldar upp fjölmargar félagslegar umbætur sem nú eru í undirbúningi. Um þær hefur verið ítarlega rætt í þessum umr. og skal ég ekki fjölyrða um þær. Ég hygg að þar sé nokkuð fyrir alla. Launþegar og bændur verða að meta það sjálfir, hvort þeir vilja fremur slíkar félagslegar umbætur eða launahækkun sem endist aðeins í fáeina mánuði, en hverfur síðan í hækkað verðlag og aukna verðbólgu.

Furðulegt er að hlusta á upphrópanir sjálfstæðismanna um kjaraskerðingu í þessu sambandi. Slíkt á ekki við úr þeim herbúðum. Hver hefðu þeirra ráð orðið? Því geta launþegar eflaust svarað sjálfir. Vafalaust hefði meginhluti vísitöluhækkunar verið með lögum niður felldur án þess að nokkuð kæmi í staðinn.

Ég hef nú rakið nokkra meginþætti þeirrar efnahagsstefnu sem mótuð er í aths. við lagafrv. það sem hér er til umr. Ég hef leitast við að sýna að með þeim er stigið allstórt skref frá þeim almennu yfirlýsingum sem felast í samstarfsyfirlýsingunni. Nú reynir á hvort ná má fram þeim stefnumiðum sem þarna eru sett. Fram undan er því mikið starf. Ég tel í því sambandi einna nauðsynlegast að auka mjög allt samráð við aðila vinnumarkaðarins, ekki síst launþega og bændur og þá hópa sem lægstu launin hafa, því leggja verður áherslu á að kaupmáttur lægstu launa verði treystur. Slíkt samráð verður að vera meira en aðeins milli ráðh. og fulltrúa stærstu launþegasamtakanna á fáum fundum. Til þess verður að kveðja fleiri aðila frá báðum hliðum. Fulltrúar launþega og atvinnurekenda verða að vera með í ráðum við alla þætti þeirrar stefnumörkunar sem fram undan er.

Sumum kann að þykja að ríkisstj. leggi með þessu of mikið í annarra hendur. Ekki er það ætlun mín. Ríkisstj. verður að sjálfsögðu að hafa alla forustu um mótun nýrrar stefnu í efnahagsmálunum. Hún verður að hafa kjark og áræði til þess að setja fram ákveðnar till. og beita sér fyrir samkomulagi um þær á breiðum grundvelli. Skoðun mín er jafnframt sú, að í slíkum vinnubrögðum felist meiri kjarkur en með einhliða lögboðinni kjaraskerðingu sem leiða mundi til stórátaka og tjóns fyrir þjóðfélagið allt.

Það er sannfæring mín, að þessu þjóðfélagi verði ekki stjórnað nema við völd sitji ríkisstj. sem nýtur trausts þjóðarinnar. Slagurinn stendur stöðugt um skiptingu þjóðarauðsins. Reynslan hefur sýnt að þar bera launþegar og bændur oft skarðan hlut frá borði. Landsmenn verða að geta treyst því, að ríkisstj. landsins gæti þess að svo fari ekki. Gagnkvæmt traust á milli þjóðfélagsþegna og ríkisvalds er grundvöllur þessa stjórnarsamstarfs. Því trausti má ekki bregðast.