29.11.1978
Efri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Verðbólgan er alvarlegasta meinið í íslensku þjóðfélagi. Hún grefur undan efnahagslegu sjálfstæði. Hún nagar undirstöður atvinnulífsins. Hún er gróðrarstía margvíslegrar spillingar og siðferðilegrar upplausnar. Verðbólgan er sá óvættur, sem með síauknum þunga er að draga dug og mátt úr landsmönnum öllum og gera þjóðina að þrælum erlendra fjármagnsdrottnara.

Sú skoðun gerist æ útbreiddari, að verðbólgan sé einhver óvættur sem við getum ekki ráðið við, getum ekki kveðið í kútinn. Sú skoðun er mikill misskilningur, hættulegur misskilningur. Við, sem nú berum ábyrgð á stjórn landsins og njótum til þess fulltingis launafólksins í landinu, höfum lagt til atlögu við verðbólguna með tvíþætta hernaðaráætlun. Fyrri þáttur þeirrar hernaðaráætlunar er að rjúfa vítahring sjálfvirkninnar sem á undanförnum árum hefur leitt til hverrar gengisfellingarinnar á eftir annarri og sett allan eðlilegan ákvarðanagrundvöll hagkerfisins úr skorðum. Síðari þáttur hernaðaráætlunarinnar er að umskapa framleiðslu- og fjárfestingarkerfi landsins, samhæfa stjórn peningamála, ríkisfjármála og gjaldeyrismála, draga úr eyðslu, en efla afköst í því skyni að gera íslenskar útflutningsatvinnugreinar og almennan samkeppnisiðnað, stjórn þeirra og skipulag svo úr garði að grundvöllur sé fyrir varanlegum lífskjarabótum.

Í tveimur höfuðþáttum í hernaðaráætlun okkar í verðbólgubaráttunni er í raun um samspil margra og flókinna aðgerða að ræða. Óstjórn síðustu ára skaut svo margslungnum rótum undir verðbólguvöxtinn, að orsaka hans er víða að leita. Kenningin um kaupið sem sökudólg verðbólguvandans var helsta skálkaskjól íhaldsstjórnarinnar. Sú stjórn krafðist kjaraskerðinga til að breiða yfir óstjórnina í fjárfestingunni, aumingjaskapinn í ríkisfjármálunum, niðurlæginguna í erlendri skuldasöfnun, slappleikann í peningamálum. skipulagsleysið í rekstri atvinnuveganna og uppgjöfina gagnvart skattsvikunum. Það er ekki launafólkið á Íslandi sem hefur alið á verðbólgunni. Hér veldur mestu aumingjaskapur og röng stefna þeirra sem hafa verið kjörnir til að stjórna.

Ræður fulltrúa Sjálfstfl. hér í kvöld skipta því í reynd engu máli um lausn vanda þjóðarinnar. Það er ekki verkefni dagsins nú að taka þátt í þeirri flokkslegu sálgæslu sem þm. Sjálfstfl. kappkosta hér í þingsölum milli þess sem þeir reka hnífinn í bakið hver á öðrum á lokuðum fundum þingflokksins. Sjálfstfl. fékk að stjórna landinu í 4 ár. Reynsluna af þeirri stjórn þekkja allir. Það þarf ekki að ræða hana frekar. Þjóðin hefur úrskurðað í almennum kosningum að Sjálfstfl. eigi að fara í endurhæfingu. Við hinir, þm. ríkisstj., höfum hins vegar því verkefni að sinna að leiða þjóðina út úr einhverju mesta efnahagslega fárviðri sem geisað hefur í sögu lýðveldisins, og það erum við að gera.

Það frv., sem hér er til umr., er liður í framkvæmd fyrri þáttar í þeirri hernaðaráætlun, sem ég lýsti áðan almennum orðum, að rjúfa þann vítahring sjálfvirkninnar sem hefur verið frumorsök gengisfellingahríða síðustu ára. Það er því nauðsynlegt að svara nokkrum spurningum sem síðustu daga hafa brunnið á vörum margra og mun ég nú víkja að þeim nokkrum orðum.

Fyrsta spurningin: Hvers vegna eru þessar aðgerðir nauðsynlegar? Þær eru nauðsynlegar vegna þess að 14% hækkun á krónugreiðslu til launafólks í landi hefði leitt til slíkrar hækkunar fiskverðs til útgerðarmanna og sjómanna um áramótin að frystiiðnaðurinn hefði orðið að knýja fram nýja stórfellda gengisfellingu sem haft hefði í för með sér enn eina verðbólguölduna. Vítahringshjólið hefði haldið áfram með ægihraða. Í stað þess stígum við nú á bremsuna og drögum úr hinum keðjuverkandi áhrifum.

Önnur spurning: Er frv. nú ekki sams konar og íhaldsaðgerðirnar í febrúar? Svarið við þessari spurningu er skýrt og afdráttarlaust nei. Það frv., sem hér er til umr., er allt annars eðlis, og það er höfuðatriði að allt launafólk í landinu sjái í gegnum óhróður íhaldsins um efni þess. Í fyrsta lagi koma nú niðurgreiðslur á móti 3% og skattalækkanir — ég endurtek: skattalækkanir á lágtekjufólki og miðlungstekjufólki sem jafngilda 2%. Verkalýðshreyfingin hefur ávallt metið niðurgreiðslur og skattalækkanir sem jafngildi kaups, af því að launafólk hugsar fyrst og fremst um hinn raunverulega kaupmátt ráðstöfunarteknanna. Í öðru lagi eru atvinnurekendur nú einnig látnir bera byrðarnar. Í þriðja lagi eru 3% látin mæta margvíslegum félagslegum framkvæmdum á grundvallarréttindabótum sem ríkisstj. mun lögleiða, en verkalýðshreyfingunni hefur ekki tekist að ná fram í samningum við atvinnurekendur og sum hver eru þannig, að atvinnurekendur mundu líklega aldrei fallast á slík réttindi launafólks í almennum samningum. ASÍ, BSRB og Verkamannasambandið hafa lagt fram frv. og till. um þessi víðtæku réttindamál: orlofsmál, sjúkradaga, atvinnuöryggi, hollustu og aðbúnað á vinnustöðum, stöðu trúnaðarmanna, rétt verkallýðsfélaga til að fjalla um breytingar á starfsháttum fyrirtækja, húsnæðismál, fræðslumál og margt annað. Það sýnir lítinn skilning á kjörum, vinnuskilyrðum og lífsháttum launafólksins í landinu, að fulltrúar Sjálfstfl. hafa farið fyrirlitningarorðum um þessar fjölþættu réttindabætur. Fulltrúar atvinnurekenda skilja hins vegar hvað hér er að gerast. í viðtölum við Morgunblaðið í dag lýsa þeir megnri reiði sinni yfir því, að ríkisstj. ætli að hafa forgöngu um þessa réttindaaukningu launafólks. Og Eyjólfur K. Jónsson, þm. Sjálfstfl., lýsti því yfir hér nú rétt áðan, að aðgerðir ríkisstj. undir forustu Alþb. og samráðið við samtök launafólks og réttindabætur alþýðu til handa væru að færa Ísland hröðum skrefum til sósíalismans.

Í febrúar voru engar niðurgreiðslur, engar skattalækkanir, engin réttindi launafólks. Nú eru allir þessir þættir grundvallaratriði sem hafa verið mótuð í náinni samvinnu við samtök launafólks og forustumenn þeirra, bæði í formlegum viðræðum og á flokkslegum vettvangi, einkum innan Alþb. Hér og nú ganga því ríkisstj. og samtök launafólks sameiginlega að verki.

Þriðja spurningin, sem heyrst hefur síðustu daga, er hvort ekki sé einungis um bráðabirgðaaðgerðir að ræða. Slík spurning stafar af misskilningi á eðli baráttunnar gegn verðbúlgunni. Sú barátta er, eins og ég hef áður sagt, tvíþætt. Fyrri þátturinn felst í því að byggja einn brúarstólpann af öðrum og þoka okkur þannig yfir straumharðasta hluta verðbólgufljótsins, yfir til þess árbakka þegar langvarandi áhrifa grundvallarstefnubreytingar fer að gæta. Aðgerðirnar nú eru slíkur brúarstólpi. Þær gefa okkur stöðu og tíma til að grunnmúra framkvæmd víðtækari aðgerða.

Fjórða og síðasta spurningin, sem mjög hefur borið á góma síðustu daga, er um þær víðtæku aðgerðir sem beitt verður á næstu mánuðum og missirum. Í þeim efnum hefur og mun Alþb. leggja megináherslu á tólf grundvallarþætti þeirrar breyttu stefnu í efnahagsstjórn Íslendinga sem festa verður í sessi. Þessir tólf þættir Alþb. eru að okkar dómi sú verkefnaskrá sem umfram allt annað verður að hafa forgang í hinni efnahagslegu endurreisn á næstu mánuðum.

Fyrsta atriðið er ný framleiðslustefna og uppstokkun á rekstrarskipulagi atvinnuveganna til að auka afköstin og samkeppnishæfni þeirra á erlendum mörkuðum og gagnvart innflutningi. Kerfi svokallaðra aumingjastyrkja til óarðbærra rekstrareininga verði lagt niður og víðtæk endurskipulagning atvinnulífsins á félagslegum grundvelli sett á oddinn.

Annað atriðið er tafarlaus og sterk heildarstjórn á fjárfestingunni og samræming allra útlána.

Þriðja atriðið er mótun verkefnaáætlana fyrir atvinnuvegina og hið opinbera til næstu tveggja ára.

Fjórða atriðið er umfangsmikil grisjun á þeirri ofvöxnu yfirbyggingu milliliðastarfseminnar sem hindrað hefur að frumkvæðisríkt og hæft vinnuafl leitaði til undirstöðuatvinnuveganna. Fámenn þjóð hefur ekki til lengdar efni á tröllauknu milliliðabákni. Framleiðslustörfin eiga að sitja í fyrirrúmi.

Fimmta atriðið er grimmt aðhald í rekstrarkostnaði ríkisins með gagnrýnni endurskoðun á rekstri fjölmargra ríkisstofnana. Þar fara viða miklir fjármunir í súginn og koma almenningi að engum notum.

Sjötta atriðið er endurskoðun skattakerfisins til að halda áfram því starfi, sem stjórnin hefur þegar hafið, að láta eignamenn og efnaða bera mestu byrðarnar og einnig að nota skattlagninguna á fyrirtækin sem stýritæki í þágu framleiðslustefnunnar.

Sjöunda atriðið er víðtæk herferð gegn skattsvikum og upprætingu þessa þjóðfélagsmeins. Við þm. Alþb. höfum í gær lagt fram hér á Alþ. ítarlega till. í 12 liðum um framkvæmd slíkrar herferðar gegn skattsvikum sem um leið mundi afla verulegs fjár því að ætla má að árlega séu 20–30 milljarðar skattsvikinna króna í umferð í landinu.

Áttunda atriðið er stöðugleiki í gjaldeyrismálum og atriði níu og tíu eru stöðvun á erlendum lántökum og róttækar aðgerðir til að flytja heim þá milljarða sem íslensk fyrirtæki og einstaklingar eiga í erlendum bönkum. m.a. vegna dulinna greiðslna á umboðslaunum og öðrum fjármálatilfærslum í undirheimum viðskiptalífsins sem hafa þrifist hér á undanfórnum árum.

Ellefta atriðið er kerfisbundin stjórnunartök á innflutningsstarfseminni til að knýja fram þá hagkvæmni í vöruinnkaupum til landsins sem heildsalastéttinni hefur mistekist að skila almenningi.

Tólfta og síðasta atriðið er úflekt og skipulagsendurbætur á starfsemi þeirra stórfyrirtækja sem hafa á mörgum sviðum afgerandi áhrif á gangverk efnahagslífsins og lífskjör almennings.

Herra forseti. Þau tólf atriði. sem ég hef hér rakið, og mörg önnur, sem eru vegna tímaskorts ótalin, sýna þá grundvallarstefnu sem Alþb. telur nauðsynlegt að næstu áfangar í framkvæmd herferðar okkar gegn verðbólgunni taki mið af. Fyrir röskum mánuði hóf þingflokkur Alþb., framkvæmdastjórn flokksins, verkalýðsmálaráð og loks flokkstjórn Alþb. mótun þeirra tillagna sem hér birtast nú í frv. um viðnám gegn verðbólgu. Frumkvæði og samræmd vinnubrögð Alþb. hafa því skilað góðum árangri í þessum áfanga. Við munum halda áfram að vinna á sama hátt. Við munum viku eftir viku, mánuð eftir mánuð tryggja lið fyrir lið framkvæmd þeirrar grundvallarstefnu í efnahagsmálum sem við mótum í samvinnu við samtök launafólks. Við heitum því á alla launamenn að leggja okkur lið í þessu starfi. Við heitum á alþýðu þessa lands að ganga með okkur til þessa verks. Við skulum ekki láta það neitt á okkur fá, þótt öldurót sé í Alþfl. og þar segi menn afsér forsetaembættum. Við skulum ekki heldur láta það neitt á okkur fá þótt Bragi Níelsson, þm. Alþfl., hneykslist á orðalagi í grg. frv. sem þó er komið frá Alþfl. sjálfum. Við skulum ekki heldur láta það neitt á okkur fá þótt sumir ungliðanna í þingflokki Alþfl. hrópi ókvæðisorð að Alþb. og láti Albert Guðmundsson bjóða sér glottandi til samstarfs. Við skulum fyrirgefa þeim, því líklega vita þeir ekki hvað þeir gera.

Alþb.-menn um allt land og íslenskt launafólk sem vill sigur í baráttunni gegn verðbólgunni: Við skulum halda okkar striki. Alþb. mun áfram sýna sama frumkvæði og við höfum gert til þessa. Við munum standa fast á framkvæmd þeirrar samræmdu hernaðaráætlunar í baráttunni gegn verðbólgunni sem ég hef hér lýst. Við munum vinna okkar verk, enda er mikið í húfi, að öll íslenska þjóðin nái heil í höfn, að við getum öllu launafólki til heilla gengið öruggum, styrkum og markvissum skrefum út úr tortímingarveröld hinnar óðu verðbólgu. — Góða nótt.